Norðausturland: Land möguleikanna ?

Allar götur frá landnámi hefur suðvesturhluti Íslands verið þungamiðja búsetu og valds. Meginástæðan var lengst af sú að Suðurlandsundirlendið og Borgarfjörður mynduðu saman stærstu og blómlegustu landbúnaðarhéruð landsins og að austasta brúklega höfnin á þessu svæði var við Eyrarbakka.

Á suðaustanverðu landinu var hafnleysi fjötur um fót og mesta hraungos Íslandssögunnar hafði sent hraunbreiður niður undir sjó í Álftaveri og Meðallandi. 

Þingvellir voru af samgöngulegum ástæðum valdir sem löggjafarstaður á öxlinum Borgarfjörður-Suðurland. 

Síðar kom Skálholt sterkt inn en á nítjándu öld tók Reykjavík við fyrra hlutverki Þingvalla.

Á stríðsárunum var talið nægja að ráða yfir höfnunum við sunnanverðan Faxaflóa og Eyjafjörð til þess að halda yfirráðum yfir öllu landinu, og gerð flugvallanna í Reykjavík og á Miðnesheiði tryggði enn frekar sess höfuðborgarsvæðisins sem nú nær sem atvinnusvæði upp í Borgarfjörð, suður á Suðurnes og austur að Þjórsá. 

En opnun siglingaleiða og hugsanlegur fundur olíulinda fyrir norðaustan land munu geta breytt þessu ástandi verulega. Þá mun norðaustanvert landið fá stóraukna þýðingu og verðmætin liggja í sjávarjörðum og flugvallarstæðum. 

Nú þegar er kominn alþjóðlegur flugvöllur á Egilsstöðum sem tiltölulega auðvelt er að stækka með því að lengja flugbrautina. 

Hins vegar er það galli að brautin er aðeins ein og kann að reynast nauðsynlegt að koma upp öðrum stórum flugvelli með flugbraut sem liggur frá suðaustri til norðvesturs. 

Slík flugvallarstæði er að finna norðan við Þórshöfn á Langanesi og - merkilegt nokk, við Grímsstaði á Fjöllum. Grímsstaðir liggja að vísu ekki nálægt sjó en eru miðja vegu á milli Akureyrar og hugsanlegrar stórhafnar við Bakkaflóa, rétt eins og Þingvellir eru á línunni Borgarfjörður-Suðurland. 

Það voru eingöngu samgöngulegar aðstæður sem réðu því að Þingvellir urðu fyrir valinu sem þingstaður en ekki það að þar væri blómleg byggð. 

Á sama hátt geta Grímsstaðir orðið heppileg samgöngumiðstöð af því að vegna viðkvæms lífríkis og einstæðrar náttúru Mývatns getur samgöngumiðstöð með stórri byggð ekki risið þar. 

Grímsstaðir liggja á krossgötum því að þaðan liggja leiðir vestur til Akureyrar, austur til Vopnafjarðar og Egilsstaða og ferðamannaleið suður á norðurhálendið. 

Grímsstaðir hafa líka þann kost að vera við jaðar norðuröræfanna en ekki inni á þeim. 

Að sitja við kort og skoða samgönguleiðir og byggðir á Norðausturlandi er svipað og að koma að skákborði þar sem enginn taflmaður hefur ennþá verið hreyfður en hugsanlegt að upp komi sú staða að leika þurfi þeim í skák, þar sem þarf að vera búið að hugsa marga leiki og marga möguleika fyrirfram.


mbl.is Írar horfi til Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

... svo er alveg tilvalið að reisa kínverskar fangabúðir þarna utan í Norðurhálendinu.

Æi, Ómar Rangarsson, jólasveinn æsku minnar, er kominn til byggða.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.12.2011 kl. 11:22

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ómar, þú segir: "Á stríðsárunum var talið nægja að ráða yfir höfnunum við sunnanverðan Faxaflóa og Eyjafjörð til þess að halda yfirráðum yfir öllu landinu"

Þetta er ekki allskostar rétt hjá þér, því á Reyðarfirði var þriðja stærsta herstöð landsins, á eftir Rvk og Akureyri. Á Reyðarfirði var komið upp fullkomnu (miðað við aðstæður) hersjúkrahúsi í Spítalakampinum svokallaða, en þar átti að hlynna að særðum hermönnum frá fyrirhugaðri innrás Bandamanna í Noreg. Auk þess var nokkuð stór herdeild á Seyðisfirði og þessir "Austurpóstar" voru afar mikilvægir í hersetu landsins á stríðsárunum.

Grímsstaðir á Fjöllum verða aldrei neinar "krossgötur".

Krossgötur! Fyrir hvað? Hvaða ástæðu hefðu menn til að böðlast með einhverjar vörur upp á fjöll?!  Staðurinn er víðsfjarri höfnum og hálendisveðráttan myndi setja allar áætlanir úr skorðum varðandi flutninga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.12.2011 kl. 13:41

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta var kannski svolítíð ónákvæmt hjá mér því að ég hefði átt að segja "í upphafi stríðsins" því að mikilvægi Reyðarfjarðar kom fljótlega í ljós. 

"Hálendisveðráttan myndi setja allar áætlanir úr skorðum varðandi flutninga. 

Halló, er ekki heilsársvegur frá Akureyri til Egilsstaða og Vopnafjarðar? 

Þetta sífellda tal um "öræfi" varðandi Hólsfjöll er afvegaleiðandi. 

Það var aðeins vegna ofbeitar sem landið blés upp og með hlýnandi loftslagi er verið að græða það upp aftir. 

Grímsstaðir liggja í bæjaröð sem endar í Möðrudal. Grímsstaðir og Möðrudalur hafa ekki verið fjallaskálar inni á miðhálendinu heldur byggð ból. 

Ómar Ragnarsson, 5.12.2011 kl. 14:21

4 identicon

Betra er að fella kónginn, að skákin (Saturanga>Shatranj; Sanskrit)
sé að ótefldu en að gera nokkuð það er á rót sína í græðginni einni
saman en ekki því er horfir til hagsbóta fyrir land og lýð í rás komandi alda;
arfa okkar.


Hefur ekki þegar verið starfað nóg?

Húsari. (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 14:37

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Hvarða ástæður hefði menn til þess að böðlast með einhverjar vörur upp á fjöll?" spyr þú.

Ég spyr á móti: Hvaða ástæður hafa allir vöruflutningabílstjórarnir sem aka daglega allan ársins hring fram hjá Grímsstöðum til þess "að böðlast með einhverjar vörur"? 

Grímsstaðir liggja í um 390 metra hæð yfir sjó. Finm byggðir bæir á Norðaustur- og Austurlandi liggja hærra en Grímsstaðir. 

Þetta eru Möðrudalur, bæirnir í Hrafnkelsdal og Brú á Jökuldal.  

Ómar Ragnarsson, 5.12.2011 kl. 14:45

6 identicon

Sæll Ómar.

Bara að athuga hvort ég get kommentað hjá þér (gengur eitthvað illa að skrá mig inn)

Stefán Þórsson (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 16:39

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Að sjálfsögðu fara vörur þarna um þegar ekki er ófært, enda liggur þarna þjóðvegur 1 sem er vetrarþjónustaður. En það sem ég á við er að Grímsstaðir verða aldrei neinar krossgötur eða vörumiðstöð. Það er engin ástæða fyrir neinn flutningsaðila að vera með miðstöð þarna, þó staðurinn sé ca. mitt á milli Akureyrar og Þórshafnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.12.2011 kl. 19:16

8 identicon

Ekki nema....mööhhöööhööö....að það séu ill áform

En í alvöru, þarna er allgott flugvallarstæði, og við hringveginn. Man enginn eftir áformum "Flying Tigers" hérna um árið.

Það þarf ekki að bíða eftir að norðurskautsísinn bráðni.

Flugleiðin til mið-Kína er svona 7000-8000 KM, en sjóleiðin jafnast á við hnattsiglingu. Og ekki eins og hún sé ónotuð!

Flugleiðin liggur yfir Mongólíu, gamla Sovét, og svo eiginlega Finnland/Kólaskaga. Alveg nóg af plássi, en Ísland er reyndar síðasti stökkpallurinn til Bandaríkjanna.

Ég held nú að kallinn sé aðallega að spá í að græða á nýríku fólki og verslunartengingum, alveg eins og þeir eru að hugsa í Dubai, sem vel að merkja er aðeins rúmlega 4% af stærð Íslands....

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 09:07

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er einmitt málið, Jón Logi, hann vill græða á nýríkum Kínverjum. Ég hallast að því þar til annað "konkret" kemur í ljós.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2011 kl. 09:19

10 identicon

Haha, loksins sammála um eitthvað.

Nýríkir er mín greining, og svo er þetta mögulega gott svæði fyrir flug-umskipun. Nú myndi Ómar þekkja það betur hvort að Rangárvellir hefðu ekki verið betri hvað varðar veðurfar. Það minnir mann á að Keflavíkurflugvöllur er þar sem hann er eftir pólitískri ákvörðun og hagkvæmni þess sem þegar var til staðar.

Það var hins vegar talið að Ketilhúsahagi (held að ég fari rétt með) á söndunum á Rangárvöllum væri fyrirtaks staður, og gott ef að jörðin var ekki keypt af fjárfestum í þeirri von að þar yrði staðsetning Íslensks alþjóðaflugvallar. Og Gunnarsholt hefði alveg dugað, enda er þar ágætis flugvöllur, og á þessu svæði alveg feiknar pláss í flatlendisformi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband