Svona getur þetta gerst.

Mál Gísla Helgasonar vegna "Ástarljóðs á sumri" er eðlilegt að mínum dómi, en fyrst þetta:

Ég horfði á jólaþátt Regínu Óskar í Sjónvarpinu og var mjög hrifinn af því hve vel tókst til á allan hátt við tiltölulega sáraeinfalda og ódýra þáttagerð.

Yfir tónleikunjum var heilstæður og hugnæmur blær, einfaldar en góðar og vandaðar útsetningar, góður flutningur, allur pakkinn!  Kær þökk fyrir góðan þátt, Regína og þið öll og hinn smekkvísi og listfengi Björn Emilsson upptökustjóri, sem ég veit að átti mikinn þátt í að gera þennan góða dagskrárlið að veruleika.

Dæmi um erlenda máltækið: "Less is more". 

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu afar bagalegt að höfundarréttarmál skuli hafa sprottið upp í tengslum við þessa góðu tónleika og varpað skugga á þá. 

En málið er afar einfalt að mínum dómi.  Gísli Helgason á allan höfundarrétt að laginu, svo stórtækur er sá gerningur, meðvitaður eða ómeðvitaður að skrá það á annan höfund og gera við nýjan og gerólíkan texta án samráðs við réttan höfund. 

Takið eftir orðalagi mínu, meðvitaður eða ómeðvitaður. 

Þetta er eitt af vandamálum lagahöfunda, að lög geta bókstaflega dottið niður í hausinn á þeim á þann hátt að þeir halda sjálfir að þeir hafi samið þau, enda eru aðeins tólf nótur í tónstiganum. 

Ég skal nefna gott dæmi. 1963 samdi ég lag sem heitir Vögguvísa og söng það mikið fyrir elsta barn okkar Helgu, Jónínu. Setti það síðan á disk en verð að játa að ég söng það ekki vel. 

Hvað um það, ég var skráður höfundur lags og texta og enginn gerði athugasemd við það. 

Fyrr en næstum ári síðar, að þegar ég hitti Ólaf Gauk, spyr hann mig hvernig í ósköpunum ég hafi getað grafið þetta lag upp. 

Ég svara því til að ég hafi ekkert grafið það upp, heldur samið það sjálfur. 

Ólafur fræðir mig þá um það að lagið sé erlent og að hann og hljómsveit hans hafi spilað það á Hótel Borg 1947 eða 1948 í nokkrar vikur og síðan ekki söguna meir. 

Hann mundi ekki lengur nafn þess og taldi útilokað að upplýsa málið frekar, - lagið hefði komið og farið eins og gengur og hann væri áreiðanlega eini Íslendingurinn sem myndi eftir því. 

Hann raulaði það fyrir mig og kom í ljós að um afar lítið frávik var að ræða, aðeins síðustu laglínurnar öðruvísi hjá mér.  

Þegar ég fór síðar að pæla í því hvernig þetta gat gerst datt mér í hug að ég hefði 7-8 ára gamall, kannski heyrt lagið í útvarpi og hafði samband við Gauk og spurði hann um það. 

Jú, mikið rétt, á þessum árum var það alloft gert að útvarpa beint af Borginni og líklegast hafði hljómsveitin spilað það einu sinni við slíkt tækifæri. 

Það var eini möguleikinn á að ég hefði heyrt það, - ekki var sjö ára barn á dansstaðnum Borginni um helgar. 

Málið þar með upplýst. 7 ára barn heyrir lag einu sinni í útvarpi, gleymir því að því er virðist, en samt sekkur það niður í undirmeðvitundina og sefur þar í 15 ár þangað til það framkallast úr undirdjúpum hugans og sprettur fram í gervi nýsköpunar. 

Vonandi er umrætt höfundarréttarmál Gísla Helgasonar og Trausta Bjarnasonar af svipuðum toga. 

En lag Gísla er afar sérstætt, með sterk höfundareinkenni og mér minnisstætt frá fyrri tíð, svo að hér sýnist mér ekkert fara á milli mála varðandi faðernið.


mbl.is Kærir stuld á ástarlagi sem varð jólalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ömurlega lélegt lag.. ótrúlegt að einhver hafi viljað stela þessu væli..

DoctorE (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 13:28

2 identicon

þar sem lagi Gísla sleppir tekur við viðlag sem er tekið beint frá Michael Jackson. Þetta "lag" í "nýjum" búning er hámark lágkúrunnar hvernig sem á það er litið.

Sverrir (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 14:07

3 identicon

Mjög svo fallegt lag, ekki síst spilað á blokkflautu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 14:12

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að það sé engin lýgi að þetta komi fyrir "óvart". Eitt sinn sagði góður lagahöfundur (man ekki hver), að hann spyrði sig oft hvort nýtt lag hjá sér væri ekki eitthvað gamalt.

Svo segja líka margir að það sé ekki verið að "semja" eitt eða neitt, því öll lög eru og hafa alltaf verið til. Það þarf bara að ná í þau

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.12.2011 kl. 15:31

5 identicon

Er þetta lag Gísla ekki bara tilbrigði við Litlu andarungana? Ég hef aldrei skilið lagahöfunda sem eru að stefna öðrum fyrir lagastuld George Harrison stefndi aldrey The Jam fyrir að stela Taxman og kalla það Start og Neil Young lét Bob Dylan í friði með Knocking On Heaven´s Door sem hann fékk lánað úr Helpless.

Ingimar Bjarnason (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 16:16

6 identicon

Annað hvert blúslag er líka eins. En það er sjálfsagt að menn leiti réttar síns í svona máli. Ég tel þó líklegt að svona lagað gerist fyrir slysni, eins og Ómar lýsir.

Viðar Freyr (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 16:50

7 identicon

Það eru kannski ekki nema 12 nótur í tónstiganum, en í fimm nótna hendingu eru 248832 möguleikar.

Að sjálfsögðu eru sumir möguleikar líklegri en aðrir og flestir eru þeir bull, svo smám saman fer að koma oftar fyrir að fólk semji það sama.

Takið hins vegar eftir hvernig lagið heldur áfram að vera eins í B-kaflanum, og hvernig ein sérkennileg, krómatísk breytt nóta er í báðum útgáfum. Líkurnar á þessu eru algjörlega hverfandi.

Að lagið sé líkt Litlu Andarungunum get ég hins vegar alveg keypt að sé tilviljun. Sjáið hversu fljót lögin eru að fara í sitt hvora áttina, strax eftir fyrsta frasa.

Ef Trausti hefur gert þetta óvart hlýtur hann að hafa ágætis minni! Ég á samt erfitt með að menn séu svo bíræfnir að stela heilu lögunum og hafa á sama tíma ekki vit á að breyta þeim nóg frá upphaflegu útgáfu til að enginn taki eftir því.

En hvað veit ég.

Danni (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband