Ökumenn á byrjunarreit ?

Vegna þess að á dögum sem þessum ek ég um á 26 ára gömlum Suzuki Fox smájeppa er óhjákvæmilegt og raunar sjálfsagt að hjálpa þeim ökumönnum, sem eru fastir á bílum sínum í snjónum, eins og hér fyrir utan blokkina, sem ég bý í þar sem aldrei er mokað. IMG_2600

Æ ofan í æ gerir fólk þau mistök að aka niður hallann við blokkina án þess að átta sig á því að miklu erfiðara er að komast upp þennan halla á ný.

En síðan er hitt hve illa margir ökumenn virðast geta borið sig að við að láta kippa í sig.

Svo er að sjá sem óreyndir ökumenn, nýbúnir að fá prófið, kunni alls ekki grundvallaratriði í bíldrætti, svo sem þau að haga sinni stjórn á bíl sínum þannig að dráttartaugin sé nokkurn vegin strekkt.

Nýjasta dæmið var í kvöld. Ungur ökumaður kom á bíl niður með blokkinni og festi sig síðan þegar hann ætlaði að komast upp hallann, sem hann hafði komið niður.

Bíll hans var þannig staðsettur að eina leiðin til að hjálpa honum var að draga hann afturábak.

En í stað þess að halda tauginni nokkurn veginn strekktri gaf ungi ökumaðurinn í um leið og ég var búinn að draga hann af stað og fyrr en varði var hann kominn of nálægt mér, þannig að taugin vafðist utan um afturhjólið hjá honum og kippti í minn bíl, sem þar með var stopp.

Hann hélt síðan áfram ferðinni og bakkaði á Foxinn og var heppinn að aðeins kom lítil dæld á afturhornið á bíl hans og stuðarinn á Súkkunni skemmdist ekkert.

Þetta dæmi og mörg fleiri gefa tilefni til þeirrar ályktunar að verkleg kennsla  í bíldrætti, akstri í hálku og á möl og fleiri slíkum atriðum sé vanrækt hér á landi.

Fyrir 36 árum var ég á ferð á Spáni og ók framhjá æfingasvæði fyrir nemendur í ökukennslu þar sem æfður var akstur í lausamöl og fleira að því tagi.

Þá var Spánn miklu fátækara land en Ísland og þótti mér merkilegt að samt skyldi svona kennsla vera komin á þar.

Ég greindi frá þessu í sjónvarpi og hef allar götur síðan, í 36 ár, fjallað um þetta reglulega.

Ég fæ ekki séð að nokkur framför hafi orðið. Takið eftir að ég feitletra orðið "verkleg" kennsla.

Það' er algerlega þýðingarlaust að segja frá því hvernig á að bregðast við ef það er ekki æft.

Ökunemandinn getur lesið þúsund sinnum setninguna "...nú skrikar bíll að aftan til annarrar handarinnar í hálku eða á lausamöl, og skal þá lagt á stýrið í gagnstæða átt..."

Þetta er algerlega gagsnlaust ef því er ekki fylgt eftir með verklegum æfingum á því sem stendur í textanum.

Svona vinnubrögð myndu ekki líðast í flugkennslu eða þykja boðleg til að viðhalda færni flugmanna og öryggi í flugi.

Viðbrögð ökukennara sem ég hef talað við hafa verið skiljanleg, svo sem:  "Við getum ekki hætt bílunum okkar í það að láta óvant fólk aka þeim þannig að þeir skriki til í allar áttir, skemmist af grjótkasti eða velti kannski ef illa fer. "

Eða: "Það er ekki hægt að ætlast til þess að við förum að hætta bílunum okkar í æfingardrátt sem getur farið úr böndum og stórskemmt bíla okkar."  

Ég hef hins vegar aldrei talað fyrir neinu slíku. Á æfingasvæðinu sem ég sá á Spáni fyrir 36 árum voru notaðir sérstakir bílar í líkingu við rallykross bíla með veltibúrum, 4ra punkta beltum og öðrum slíkum öryggisatriðum, ekki einkabílar ökukennnaranna.

Það er að mínum dómi fráleitt að þjóð á borð við okkur, þar sem hátt í 200 þúsund bílar eru í umferð, telji sig ekki hafa efni á því að eyða tiltölulega litlu fé í öryggismál sem snertir milljarða kostnað vegna slysa, óhappa og vandræða í umferðinni.


mbl.is Á byrjunarreit á hverjum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég smamála þér Ómar hvað þetta varðar. Það mætti í leiðinni kenna fólki að skafa snjó af rúðunum og bílnum áður en lagt er af stað út í umferðina. Margir hverjir eru ekkert að hreinsa snjó af fram og afturljósum. Einn af þeim bílum sem ég sá í dag var eins og akandi snjóhús. Hann var í orðsins fyllstu merkingu á kafi í snjó, og ekki veit ég hvernig sá ökumaður sá út um framrúðuna, því á húddinu var stærðarinnar snjóskafl

Árni Árnason (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 00:44

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samanber pistilinn á undan þessum hefði viðkomandi ökumaður getað hreinsað bílinn alveg, líka þakið, á örskammri stund með eldhúskústinum.

Ómar Ragnarsson, 26.1.2012 kl. 00:47

3 identicon

Eins og við báðir vitum Ómar, þá hefur verkleg ökukennsla á Íslandi verið afar bágborin til fjölda ára. Kemur það aðallega til af vanþekkingu, afturhaldi, sérhagsmunagæslu og annarra slíkra þátta, sem ég ætla ekki að fara nánar útí hér í bili.

Ökumönnum er aldrei kennt að bregðast við óvæntum aðstæðum. Aldrei er kennt að nauðhemla, svegja frá hættu, aka í hálku eða erfiðum aðstæðum o.s.frv. Þessu er öðruvísi farið í flugi og þjálfun sjómanna, eins og þú veist. Í ökukennslu á Íslandi læra menn nánast að keyra bóklega.

Ég hef komið að þessum málum í fjölda ára og reynd að ýta þessu í rétta átt, en það hefur gengið ákaflega hægt af ástæðum sem ég nefndi í fyrstu málsgrein. Ég hef kynnt mér þessi mál í fjölda landa og komið á mörg æfingasvæði, sem oftar en ekki eru rekin í tengslum við stór akstursíþróttasvæði, eins og Nurgburgring og Hochenheim í Þýsklandi, Jyllandsringen í Danmörku og fleiri og fleiri.

Þarna eru menn þjálfaðir í akstri á venjulegum hraða, þar sem ýmsar uppákomur eru sviðsettar og mönnum kennt að bregðast við á öllum gerðum ökutækja, frá bifhjólum upp í trukka af stærstu gerð. Ekki er einungis um að ræða kennslu fyrir nýnema, heldur ekki síður þjálfun og endurmenntun eldri ökumanna og sérhæfðan akstur, svo sem æfingar lögreglu og annara sem þurfa að stunda forgangsakstur.

Allskonar námskeið eru líka fyrir t.d. eldri ökumenn, þá sem lenda í tjónum, nýbúa, sjálfsþjálfun ökumanna o.s.frv. Aðstaðan er það sem þarf, en því er ekki til að dreifa á Íslandi. Fyrsta slíka aðstaðan er að komast í gagnið á Akureyri og annað í byggingu á suðurnesjum.

Læt fljóta hér með stutta kynningu sem Birgir Þór Bragason gerði í einni heimsókn okkar á FDM svæðið við Hróarskeldu í Danmörku árið 2007. Þar eru meira að segja sett á svið árekstrar fyrir framan unga ökunema, til að sýna þeim hvað raunverulega gerist við óöpp og ógætilegan akstur og þeir látnir skoða afleiðingarnar.

http://biggibraga.blog.is/users/28/biggibraga/files/umferd/okugerdi_1805.mp4

Með von um að þetta sé loksins að breytast á Íslandi eftir 40 ára barning við afturhald....

Ólafur Guðmundsson.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 09:14

4 identicon

Gódur pistill, gott ad Foxinn er ekki skemmdur. Enda hørkutól fyrir heljarmenni!

Virkileg thørf á ad bæta verklega kunnáttu økumanna, sérstaklega ungra. Adstædur líkt og núna krefjast allt annars en akstur á fallegum sumardegi.

Einnig er líka alveg naudsynlegt ad thegar tídin er svona thá er tholinmædi og Hjálpsemi gagnvart ødrum thad sem virkar best.

Annad sem ég velti einnig fyrir mér; er VIRKILEGA thørf á ad kenna á svona rándýra bíla? Margir af bílum økukennaranna sóma sér vel sem stjórnarráds- eda móttøkubílar fyrir mestu fyrirmenni.

En Ómar keyrir Súkkú Súkkú

og svífur áfram med glæsibrag.

Vidar Eggertsson (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 10:14

5 identicon

Hverju orði sammála.

Tel að kenna þurfi ökunemum mun meira í bæði að aka fram úr öðrum ökutækjum og hleypa öðrum ökutækjum fram úr sér úti á vegum.    

Tel að það að binda hnútinn pelastikk ætti einnig að vera hluti af ökukennslu. 

Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 10:14

6 identicon

Hárrétt athugasemd. Hef reyndar ekki skilið af hverju tekst ekki að koma upp almennilegu ökugerði hér á Íslandi. Hugsanlega mætti tengja það þeim ökugerðum sem við þekkjum, svo sem Kvartmílubrautinni.

Það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál bílgreinarinnar, tryggingafélaga, Vegegerðarinnar og ríkis og sveitarfélaga. En ekkert gerist og það þrátt fyrir að þessar tillögur hafi verið endurvaktar aftur og aftur. Vonandi að eitthvað fari að gerast.

Sigurður Már Jónsson (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 11:21

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrir 36 árum hugsaði ég með mér: Mikið er gott að nú sé hægt að nýta sér reynslu annarra þjóða til þess að ég verði af síðustu kynslóðinni sem ekki fær almennilega kennslu. 

Nú er góð von með að börnin okkar fái svona kennslu.

Það gerðist ekki nú horfi ég upp á barnabörnin fara á mis við þetta. Tíu hafa misst af þessu og sennilega öll hin líka.

Ómar Ragnarsson, 26.1.2012 kl. 18:53

8 identicon

Þessi ökukennsla er nú orðin meira peningaplokkið, nú er komið eitthvað sem heitir ökuskóli III og kostar á bilinu 25-35 þúsund(ekki viss) og er skylda að taka. Skilst að það eina sem gerist þar sé að krakkarnir fara í einn hring á bíl í veltigrind.

Karl J. (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband