Skynsamlegt. Fjölmiðlahefðin er rótgróin.

Ákvörðun dr. Kristínar Ingólfsdóttur, er skynsamleg, þótt aldrei sé að vita nema að hún hafi verið hæfust þeirra kvenna sem hafa verið í umræðunni sem mótframbjóðendur á móti sitjandi forseta.

Miðað við allan þann kostnað og fyrirhöfn, sem óhjákvæmilega fylgir kosningabaráttu, hefði það verið óskynsamlegt að leggja út í slíka baráttu nema að eiga sæmilega möguleika.

En því fleiri sem frambjóðendurnir verða, því minni líkur eru á að þeir geti velt núverandi forseta úr sessi.

Þegar rætt er um það sem eitthvert alveg nýtt fyrirbæri að aðeins fólk þekkt úr fjölmiðlum eigi möguleika ættu menn að skoða bakgrunn fyrri forseta lýðveldisins. ´

Ásgeir Ásgeirsson var forseti sameinaðs Alþingis og stýrði 1000 ára afmælishátíð á Þingvöllum 1930 af glæsibrag í mesta fjölmiðlaljósi þess tíma, kvikmyndum og blaðaljósmyndum. Útvarpið var nýtilkomið og þar var hann líka og hélt því áfram sem forsætisráðherra 1932 og eftir það sem þingmaður.

Líkast til hefur enginn Íslendingur orðið þekktari í fjölmiðlum á þessum árum en Ásgeir og þótt hann sæist sjaldnar þegar frá leið mundu allir eftir glæsimenninu á Þingvöllum.

Bjarni Jónsson, sem hlaut litlu minna fylgi en Ásgeir1952 var stundum daglega í útvarpinu þegar útvarpað var jarðarförum, eins og þá tíðkaðist.

Kristján Eldjárn hefði verið nær óþekktur meðal þjóðarinnar 1968 ef Sjónvarpið hefði ekki verið nýtilkomið þá og hann með einn hinn vinsælasta af tiltölulega fáum sjónvarpsþáttum þá.

Varla er hægt að hugsa sér betra dæmi um sjónvarpsstjörnu sem nýtur þess þegar haldið er fram á vettvang stjórnmálanna, því að kosning æðsta embættismanns þjóðarinnar flokkast undir stjórnmál.

Vigdís Finnbogadóttir var nýbúin að heilla þjóðina í frönskukennsluþáttum í Sjónvarpinu 1980, Guðlaugur Þorvaldsson var stundum daglegur gestur á skjánum sem ríkissáttasemjari í stanslausum vinnudeilum þess tíma og Albert Guðmundsson þekktu allir úr íþróttum, sem borgarfulltrúa og afar áberandi þingmann og þátttakanda í nýlegri stjórnarmyndun.

Ólafur Ragnar Grímsson var þjóðþekktur úr öllum fjölmiðlunum sem aðsópsmikill stjórnmálamaður, flokksforingi og ráðherra og langþekktastur að því leyti af öllum frambjóðendunum 1996.


mbl.is Kristín ætlar ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband