Hvers vegna "lítilvægt formsatriði" um mikilvæg stjórnarmálefni?

Hvers vegna skyldi vera kveðið á um það í stjórnarskrá að fjalla um mikilvæg stjórnarmálefni á ríkisstjórnarfundum?

Og hvers vegna skyldi þessu vera svona háttað bæði í 17. grein núverandi stjórnarskrár og líka í 87. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár?

Af því að það er hluti af kröfum um vandaða stjórnsýslu að skylda ríkisstjórnir til þess að taka sameiginlega á mikilvægustu málum hvers tíma.

Ríkisstjórnin er verktaki Alþingis, fulltrúa þjóðarinnar, og það verður að gera þær kröfur um hana að hún sinni sameiginlega mikilsverðustu málum, bæði með því að fjalla um þau og marka heildstæða stefnu og aðgerðir í þeim.

Vandi fjármálakerfisins og efnahagslífsins voru lang mikilsverðustu málefni ársins 2008 og eðlilegt að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að sinna þessum vanda öðrum málum fremur.

Það er engin afsökun að svona verklag hafi viðgengist lengi og raunar má spyrja, hvernig það mátti til dæmis gerast vorið 2003 að tveir ráðherrar ákváðu síðdegis einn dag að Íslendingar yrðu í sérstökum þjóðahópi meðreiðarsveina sem viljug þjóð til að ráðast með her inn í fjarlægt land.

Þetta var tvímælalaust mikilsvert málefni varðandi utanríkisstefnu þjóðarinnar.

Stjórnlagaráð var einhuga um að hafa ákvæði um þetta áfram inni, enda var það eitt meginstefið í samningu nýrrar stjórnarskrár að bæta stjórnsýslu og gera ákvæði um hana og ábyrgð stórnvalda skýrari og skarpari.

Þess má líka geta að í frumvarpi stjórnlagaráðs eru ákvæði um Landsdóm felld niður.

Ég var sammála því og vil ítreka þá skoðun mína, sem ég hef haft í meira en 50 ár og hefur styrkst í ljósi reynslunnar síðustu misseri, að vegna smæðar þjóðarinnar og innbyrðis tengsla þingmanna sé ekki gerlegt að leggja það á þá að fara með ákæruvald í málum, sem varða ráðherraábyrgð, heldur skuli fara með þau í samræmi við almenn og bætt lög um þau efni.  


mbl.is „Aðrir hefðu verið sýknaðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stjórnmálamenn hafa litið á ríkisstjórn lýðveldisins sé ekki fjölskipað stjórnvald. Í því liggur vandinn. En Landsdómur er ósammála. Sjá annars: http://blog.eyjan.is/tsv/2009/12/11/best-geymda-leyndarmalid/

Badu (IP-tala skráð) 23.4.2012 kl. 19:51

2 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Átti að ákæra Geir fyrir að Samfylkingin treysti ekki öllum sínum ráðherrum að fara með trúnaðarmál.?

Ragnar Gunnlaugsson, 23.4.2012 kl. 20:08

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get alveg fallist á það að ástæðan til þessa verklags íslenskra forsætisráðherra og oddvita í ríkisstjórn geti verið sú pg hafi oft verið sú að mál séu viðkvæm og því verði að tryggja að ekki "leki" neitt út.

En ef menn vilja að þetta sjónarmið eigi að ráða áfram eiga menn að fara í það að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um þetta.

Það yrði að mínum dómi afturför í stjórnarháttum og á skjön við þann lærdóm af Hruninu að skortur á festu og ábyrgð hafi verið orsakavaldar.

Í blaðamannastétt er trúnaðarskyldan grundvallaratriði þegar hennar er þörf og stjórnmálamenn eiga líka að geta tamið sér slíkan aga.

Reyndar er slikt iðulega gert á vissum sviðum, til dæmis í utanríkisnefnd Alþingis, og því ætti það alveg eins að vera hægt á vettvangi ríkisstjórnar.  

Ómar Ragnarsson, 23.4.2012 kl. 22:48

4 Smámynd: Landfari

Þetta mál með bankana er alveg sérlega viðkvæmt gagnvart leka.

Minnsta vísbending, bara að rætt sé um möguleika á falli, getur ein og sér leitt til falls banka.

Nú veit ég ekki hvað margir höndla með fundargerðir sem skrifaðar eru um ríkistjórnarfundi en þykist vita að það séu fleiri en ráðherrarnir.

Landfari, 23.4.2012 kl. 23:46

5 identicon

Ágætur pistill, þó  þversögn í því, annars vegar að benda á réttmæti þess að dæma Geir fyrir að taka ekki mikilvægt mál á dagskrá stjórnarinnar og á hinn bóginn að véfengja tilverurétt þess sama dóms og dæmdi svo réttilega.  Hvernig annars má koma lögum yfir þá ríkisstjórn sem ekki fer eftir stjórnarskrá?

Ekki heyrðist mér fara mikið fyrir því í reiðilestri Geirs í gær að hann hafi verið hræddur um að fundargerðin læki út eða því um líkt og þess vegna ekki haldið fundi vanda fjármálakerfisins.  Hans rök voru þau að þetta væri lítilvægt smáatriði (mikil óvirðing gagnvart stjórnarskránni þar) og að þetta væri hefð frá 1918. Væntanlega það að trassa að taka mikil væg mál á dagskrá ríkisstjórnar.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.4.2012 kl. 06:52

6 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður veltir því fyrir sér hvar sú vitleysa eigi að enda, að ætlast sé til að ráðherrar fari eftir stjórnarskránni.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.4.2012 kl. 08:59

7 identicon

Flestir sanngjarnir viðurkenna að form fundahalda eru lítilvægt formsatriði.

Fyrir utan að fundir eru frekar til þess fallnir að leggja línur og plön, en til ákvarðana.

Gaman að því að þú nefnir byrjun Íraksstríðsógæfunnar 2003.

Hvernig var ákvarðanatakan nú fyrir miklu styttri tíma varðandi aðild Íslands að Líbýustríðinu?

Hvaða fundur var haldin áður en Alþingi átti að samþykkja Icesave án þess að hafa séð pappírinn sem var laumað inn á fréttastofu RUV?

jonasgeir (IP-tala skráð) 24.4.2012 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband