Bara talað um Icesave, - ekki Kárahnjúka.

Öll umræðan í aðdraganda forsetakosninganna um málskotsréttinn snýst í kringum Icesave 2 og 3.

Fyrir liggur að það vó þungt að fyrri samningurinn snerist um mál, sem hefði haft áhrif mörg ár fram í tímann. Það vó þungt í mínum huga þegar ég skrifaði undir áskorun til forsetans um að vísa málinu í þjóðaratkvæði sem og það óréttlæti að hver íslenskur skattborgari ætti að borga 25 sinnum meira en hver skattborgari í Bretlandi og Hollandi.

En enginn minnist á frumvarpið um Kárahnjúkavirkjun 2003, þar sem Alþingi og núlifandi kynslóð tóku stærstu ákvörðun sem tekin hefur verið varðandi hagsmuni milljóna Íslendinga sem eiga eftir að lifa í landinu um aldir.

Enginn hefur spurt frambjóðendurna hvað þeir myndu gera andspænis hliðstæðum ákvörðunum í orkumálum.

Hvað mig snertir persónulega þegar ég fylgist með kosningabaráttunni til að geta myndað mér skoðun, er það, að ég bíð eftir því að fá að vita um afstöðu frambjóðendanna til slíkra stórákvarðana, - hvort þau myndu fara að eins og Vigdís Finnbogadóttir lýsti yfir að hún hefði gert varðandi svo afdrifaríka og óafturkræfa lagasetningu á borð við lög um dauðarefsingu eða eyðingu stórfelldra náttúruverðmæta.

Það eina sem ég hef enn í höndunum er höfnun Ólafs Ragnrs á að nota málskotsréttinn 2003 og það að mér skilst á Herdísi Þorgeirsdóttur að hún myndi fara að á svipaðan hátt og Vigdís hefði gert.

En ég bíð eftir því að fá afdráttarlaus svör opinberlega frá frambjóðendunum.

Ég vil fá að vita hvort Ólafur Ragnar sé sama sinnis og 2003 og hvað hinir frambjóðendurnir myndu gera varðandi slík mál, eða hefðu gert í sporum Ólafs Ragnars 2003.

Með réttu er rætt um hve stórt mál ESB-aðild eða ekki ESB-aðild sé.

Færeyingar og Grænlendingar fengu þó undanþágu þess efnis að standa utan bandalagsins og ríki geta gengið úr því alveg eins og inn í það.

En engin kynslóð framtíðarinnar getur fengið undanþágu frá þeirri tortímingu náttúruverðmæta, sem núlifandi kynslóð gekkst fyrir.

Enginn frambjóðandi hefur tekið sér hugtakið "jafnrétti kynslóðanna" í munn. Heldur ekki hugtakið "sjálfbær þróun." Enginn þeirra hefur heldur verið spurður um það. Er þó sjálfbær þróun undirstaða þess að mannkynið geti þrifist á jörðinni.  

Vigdís Finnbogadóttir taldi mál sem vörðuðu algerlega óafturkræfa gerninga þess eðlis, að þegar hún upplýsti um þessa hugsun sína, minntist hún ekki á að einhver ákveðinn fjöldi áskorana væri atriði í því máli.

Enda engin leið að vita fyrirfram hve margir úr hópi milljóna ófæddra Íslendinga myndi verða í hópi slíkra áskorenda.

Með hugsun sinni, sem Vigdís orðaði opinberlega var hún á öðru og hærra plani en umræðan er nú, þegar tiplað er í kringum langafdrifaríkustu undirskrift nokkurs forseta íslenska lýðveldisins og það hvað frambjóðendurnir myndu gera í svipuðum sporum.

Þetta er dæmigert fyrir skammtímahugsunina og rányrkjuhugsunina, sem skóp græðgisbóluna, hrunið og það að halda áfram á svipaðri braut.  


mbl.is Ósammála um 26. greinina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Kárahnjúkar eru líka að skila glymrandi hagnaði er það ekki?

Kristinn Pétursson, 8.6.2012 kl. 00:50

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það er ekki heil brú í þessu uppleggi Org með 26.grein. það er náttúrulega erfitt að festa fingur á hvað hann er stundum að meina enda afneitar hann oft því sem hann sagði í gær o.s.frv.

En svo er að skilja á honum, stundum, eins og hann ætli ekki að beita greininni nema hann sé 100% viss um að viðkomandi lög séu felld.

það upllegg er þá alltöðruvisi en flestir núna telja að beiting ákvæðisins merki. Eða að Org sé búinn að ,,virkja" ákvæðið o.s.frv.

Í rauninni er hann hálfpartinn að segja, eða innihaldið er það, að ef forseti sjái sér hag til vinsælda með beitingunni - þá muni hann beita ákvæðinu. það er ekkert endilega að ákveðinn fjöldi undirskrifta dugi samkvæmt orðum hans.

það er ekki heil brú í þessu. En hitt er annað að Org getur þakkað icesaveskuldinni margt og mikið. Tilkoma og histerían kringum þessa blessuðu skuld bjargaði honum gjörsamlega eftir hrunið þar sem vinsældir hans voru í rúst.

Að mínu mati er upplegg hans á 26.greininni misnotkun á henni. Hann er að misnota stjórnarskrána.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.6.2012 kl. 01:09

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef þjóðin hefði verið látin kjósa um Kárahnjúka þegar andstæðingar framkvæmdanna fóru hamförum í fjölmiðlum, gagnrýnislaust og raunar með stuðningi af hálfu fjölmiðlana, þá hefði frumvarpið verið fellt með naumum meirihluta.

Eftir að "réttar" upplýsingar komu fram um framkvæmdina þá snerist dæmið við í skoðanakönnunum og mikill meirihluti þjóðarinnar var hlyntur framkvæmdunum.

Ertu virkilega að halda því fram Ómar, að Kárahnjúkar hefðu ekkið orðið að veruleika ef þjóðin hefði kosið um það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.6.2012 kl. 02:22

4 identicon

Þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa afdrifaríku framkvæmd hefði sjálfsagt orðið til þess að fólki hefði verið kynnt þetta svæði almennilega og hvað raunverulega var verið að áforma. Um framkvæmdina og afleiðingar hennar hefðu orðið vitrænni umræður og þá hefði enginn átt að velkjast í vafa um þá gríðarlegu eyðileggingu sem hún hefði og myndi hafa í för með sér.  Hið sama hefði gilt um efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðina. (Lausnamiðuð samræðupólitík Gunnar). 

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 8.6.2012 kl. 08:40

5 Smámynd: Sandy

Hvað voru mörg þúsund undirskriftir sem voru sendar forseta í sambandi við Kárahnjúka?

Forsetinn hefur margoft sagt að hann noti ekki málskotsrétt nema ríkur þjóðarvilji sé til staðar og fari þess á leit að efnt verði til þjóðaratkvæða.

Sandy, 8.6.2012 kl. 10:41

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kárahnjúkavirkjun skilar ekki meira "glimrandi hagnaði" en það að forstjórinn hefur opinberlega sagt að hann sé allt of lítill.

Í yfirlýsingu Vigdísar Finnbogadóttur um notkun hennar á málskotsréttinum minnist hún ekki á að það hefði verið skilyrði að svo og svo margar undirskriftir bærust henni.

Enda engin leið að áætla hve margar undirskriftir myndu berast frá milljónum Íslendinga sem eiga eftir að sæta ofríki núlifandi kynslóðar.

Enginn forsetaframbjóðandi hefur minnst orði á það hlutverk forseta að vera ekki aðeins umboðsmaður núlifandi Íslendinga, heldur allra ófæddra Íslendinga.

Enginn frambjóðendanna hefur minnst á hugtakið "jafnrétti kynslóðanna."

Ómar Ragnarsson, 8.6.2012 kl. 10:56

7 identicon

Góður Ómar!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.6.2012 kl. 11:01

8 identicon

Jamm Ómar.

En hvað þýðir eiginlega "jafnrétti kynslóðanna".

Er það lausn kratanna núverandi valdhafa að veita núverandi kynslóð svo ríflega úr sameiginlegum sjóðum helst án framleiðslu áþreifanlegra verðmæta þannig að eftirlifandi kynslóðir geta lítið annað en þrælað fyrir vöxtum útlendra fjármagnseigenda, EÐA

...er að nýta skynsamlega landsins gæði, breyta þeim í verðmæti sem geta staðið undir núverandi útdeilingu gæða og svo áfram um komandi framtíð?

(Virkjun núna skilar fyrst miklum arði eftir nokkra tugi ára.  ..Þannig er ekkert betra komandi kynslóðum en einmitt að virkja núna, strax.).

jonasgeir (IP-tala skráð) 8.6.2012 kl. 11:52

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jafnrétti kynslóðanna felst í tvennu:

1. Að forðast rányrkju eins og til dæmis þá stefnu, sem nú er í gildi að dæla mesta mögulega magni jarðvarma upp úr jörðinni og klára hann á nokkrum áratugum þannig að komandi kynslóðir standi frammi fyrir því að við höfum hrifsað allan ávinninginn til okkar.

Í stað þess ætti að skipuleggja orkunýtinguna þannig að fara miklu hægar í sakirnar og tryggja að innstreymi vatns og endurnýjun varmans verði í heildina jafn mikil og það, sem tekið er, - þ. e., að orkan verði endurnýjanleg og standist kröfur um sjálfbæra þróun.

2. Að hver kynslóð nýti landið þannig að nýtingin komi ekki í veg fyrir að kynslóðir framtíðarinnar hafi val um að nýta landið á sinn hátt.

Ómar Ragnarsson, 8.6.2012 kl. 13:00

10 identicon

Svei mér ef við erum ekki bara sammála, ..svona að mestu.

En mig langar þó að leggja aðeins meira til málanna.

Skuldaþrælar erlendra fjármagnseigenda hafa ekki val. 

Það er einfaldur sannleikur sem þarf að huga mjög vel að svona um leið og því er komið á framfæri að það er afskaplega mikið af hita í jörðinni okkar ágætu.

jonasgeir (IP-tala skráð) 8.6.2012 kl. 13:09

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jón Ásgeir eða Jónas Geir,

"... helst án framleiðslu áþreifanlegra verðmæta ..."

Verðmæti þurfa að sjálfsögðu ekki að vera áþreifanleg.


Mesta útflutningsverðmæti okkar Íslendinga er fólgið í þjónustu.

Þjónusta er jafn mikilvæg og framleiðsla og án þjónustu væri hér engin framleiðsla.

Og mun fleiri starfa við þjónustu en framleiðslu.


En Sjálfstæðisflokkurinn heldur að verðmæti sé eingöngu fólgið í því sem áþreifanlegt er, því sem hann getur kysst og kjassað, til að mynda þorskinn.

En þorskunum fjölgar ekki endalaust í sjónum og ekki er heldur hægt að virkja hér út í það óendanlega.

Og mun meira vit væri í að vinna fiskinn hér heima en flytja hann óunninn í stórum stíl til útlanda, sem skapar þar þúsundir starfa, svo og að smíða sem mest hér úr því áli sem við Íslendingar framleiðum í erlendum álverum, í stað þess að fjölga þeim.

Þorsteinn Briem, 8.6.2012 kl. 13:37

12 identicon

The classical U.N. definition, published in the world body's 1987 Brundtland report, put it this way;

"development that meets the needs of the present without compromising the ability of future generations to meet their own needs." 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.6.2012 kl. 14:13

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sko, varðandi það hvað herrann þarna á Bessastöðum telur þurfa varðandi synjun hans eða vísun í þjóðaratkvæði - þá skal fólk hlusta á hvað hann er að segja. Hann er að segja það sem eg bendi á í stuttu máli í innleggi nr. 2. Hann er að segja að bænaskrár einar og sér dugi ekki. Eða undirskriftir. Hann er að segja að öfl eða samtök vítt og breitt um samfélagið þurfi að þrýsta á forseta. þ.e. að forseti virðist vera að segj að hann þurfi að meta það svo að nánast 100% öruggt sé að málið verði fellt.

þetta er allt annað upplegg en fólk telur að þessi ,,virkjun" málskotsréttar þýði.

það var eiginlega synd að sjallar skyldu ekki hafa þjóðaratkvæði um fjölmiðlalögin. Ef þeir hefðu bett sýnum própagandapípum - eg er ekkert viss um að þau hefðu verið felld. Alls ekkert viss um það.

En eins og með icesaveskuldarmálið, þá auðvitað var það eðli máls óvinsælt þó nauðsynlegt hafi verið að loka þeim afmarkaða hluta hrunsins með samningum. Tal forseta útfrá þessuskuldarmáli jafngildir að í hvert skipti sem kemur upp óþægilegt og óvinsælt mál - þá eigi forseti að leika einhvern sprelligosa til að kaupa sér vinsældir. það er ótrúlegt að hlýða á slíkt ábyrgðarlaust tal af forseta að vera. En líklega þakkar ÓRG fyrir icesaveskuldina á hverju kvöldi. Hann keypti sér endurnýjanðar vinsældir með tilkomu nefndrar skuldar.

En almennt um undirskriftir og Kárahnjúka - að þá var náttúrulega engin facebúkk og engir undirskriftalistar á netinu. Voru allt aðrir tímar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.6.2012 kl. 00:05

14 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Bottom læn: Að það virðist vera almenn trúa núna, að undirskriftalistar eða bænaskrár til forseta tryggi þjóðaratkvæði. það er misskilningur. ÓRG er að segja allt annað. Ástæða þess að hann er farinn að segja allt annað núna en mátti hugsanlega skilja á honum á tímabili er líklegast sú, að hann fattar að sennilega verði auðvelt að henda upp einhverjum listum á facebúkk og netinu og fá nánast 1/2 þjóðina til að skrifa undir næstum hvað sem er.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.6.2012 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband