"Þýska hefðin" hófst 1954.

1954 var ungverska landsliðið langbesta knattspyrnulandslið heims og hafði verið það árin á undan, ekki tapað 32 landsleikjum í röð.

Urðu Ólympíumeistarar 1950.  

Sætasti sigur Ungverjanna var þegar þeir fóru í frægðarför til Bretlands og völtuðu yfirn enska landsliðið 6:3 á Wembley, en ekkert lið utan Bretlandseyja hafði unnið Englendinga á heimavelli fram að því .

Gild mörk Ungverja hefðu getið orðið fleiri, því að sóknir Ungverjanna voru svo hraðar að ranglega var dæmd á þá rangstaða.

Rétt fyrir HM unnu Ungverjar Englendinga 7:1 í Búdapest.

Þegar Vestur-Þjóðverjar héldu til Sviss (sjá ath.semd við villu, sem hefur verið leiðrétt) á HM 1954 voru þeir að byrja að rétta úr kútnum eftir að hafa verið í skammarkrók meðal þjóða heims vegna voðaverka nasista.  En þeir þurftu mjög á því að halda að sanna sig og sýna að þeir hefðu snúið við blaðinu, höfðu ekki fengið að vera með á HM 1950.

Í undanriðli lentu þeir á móti Ungverjum og voru rótburstaðir, 8:3. Engum datt þá í hug að þeir ættu neina von á frama í keppninni.

En þýska seiglan sá til þess að í lokin lentu þeir í úrslitaleik við Ungverja og unnu einn óvæntasta sigur í sögu íþróttanna, 3:2, og urðu heimsmeistarar.

Þessi atburður fékk heitið "undrið í Bern" og sagnfræðingum ber saman um að enginn einn atburður hafi haft jafn mikil áhrif á álit og komandi uppgang í Vestur-Þýskalandi og HM-bikarinn 1954.  

Þarna var lagður grunnur að "þýsku hefðinni" sem svo sannarlega blasti ljóslifndi við á sjónvarpsskjánum í leik þeirra við Portúgali á EM í kvöld.

Portúgalir áttu fleiri færi og tvö skot þeirra glumdu í markstöngunum. En Þjóðverjar skoruðu eina mark leiksins og það var allt sem þurfti.

Það verður gaman að fylgjast með þeim á Evrópumeistarmótinu eins og svo oft áður, ef þýska hefðin blómstrar áfram.


mbl.is Þjóðverjar lögðu Ronaldo og félaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

HM-1954 var haldið í Sviss

guru (IP-tala skráð) 10.6.2012 kl. 01:00

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk. Svona er að fletta ekki upp gögnum um mál, sem manni finnst maður þekkja út í hörgul. Leiðrétti þetta.

Ómar Ragnarsson, 10.6.2012 kl. 01:12

3 identicon

Sæll Ómar og takk fyrir fróðlega samantekt. Það gleður mig mikið að sjá í sjónvarpi í dag að loksins njóta Þjóðverjar sannmælis. Ég hef alltaf dáðst að dugnaði þeirra og skipulagi sem ásamt miklum baráttuvilja og auðvitað hæfileikum hafa skilað þeim svo oft í verðlaunasæti. Í áratugi mátti ég horfa á sparkspekingana tala um England og Englendinga sem líklega sigurvegara og eða þá Hollendinga en það var undantekning ef t.d. Englendingar gerðu nokkuð af viti eftir 1966. En Enski boltinn er vinsæll og Íslandi og margir sem halda með þeim þess vegna. Það hefur alltaf verið kristaltært í mínum augum að Þjóðverjar hafa stórgott og duglegt lið í nánast öllum keppnum ef ekki öllum. Eins og þú bendir á eru þessi úrslit engin tilviljun. Ekki áratugum saman. Var það ekki fyrrverandi fyrirliði Englendinga Gary Lineker sem lýsti fótbolta svona. ,, Fótbolti er einn knöttur, tuttugu og tveir leikmenn, einn dómari og tveir línuverðir og Þýskaland vinnur,,!

Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 10.6.2012 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband