26.6.2012 | 20:14
Hamast á öfugum enda?
Allt frá þeim tíma þegar ýmis lönd tóku upp áfengisbann fyrir einni öld hafa menn verið að læra, hægt og bítandi, nokkur helstu lögmál í baráttunni við fíkniefnavandann.
Smám saman kom í ljós að algert áfengisbann var vonlaust í framkvæmd og gerði því miður illt verra.
Áfengið og áfengisnautn voru einfaldlega of útbreidd til þess að hægt væri að ná neinum árangri og sjaldan hafa glæpaforingjar átt jafn mikla dýrðardaga og þá.
Reynslan hefur leitt af sér ýmsar þversagnir. Til dæmis er það viðurkennt hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) að bætt aðgengi að áfengi hefur vaxandi neyslu í för með sér.
Það er í samræmi við þekkt fyrirbrigði hjá AA og við meðferð fíkniefnasjúklinga að stór hluti af árangri við lækningu þeirra er að þeir haldi sig frá þeim stöðum og aðstæðum þar sem neysla er í gangi.
Um allan heim er reynt að hamla gegn fíkniefnavandanum með því að leita að framleiðendunum og framleiðslustöðunum og uppræta framleiðsluna. Upp í hugann koma nöfn landa eins og Kólombíu og Afganistans þar sem voldugir fíkniefna"barónar" og framleiðendur beita glæpum og valdi til að halda sínu.
Ekki er að sjá að árangur lögreglu á þessum svæðum hafi dregið úr neyslunni hjá þeim þjóðum, sem fíkniefnin streyma til.
Það vekur upp spurninguna um það, hvort verið sé að hamast á öfugum enda, því að augljóst er að það sem viðheldur til dæmis framleiðslunni í Mið- og Suður-Ameríku er eftirspurnin í Bandaríkjunum.
Ef unnt væri að minnka eftirspurnina myndi framleiðslan dragast saman af sjálfu sér í samræmi við lögmálið um framboð og eftirspurn, sem hvergi ætti að vera betur þekkt en í "landi frelsisins."
Enn hef ég ekki orðið var við dæmi um að neytendur áfengis og annarra fíkniefna hafi mistekist að ná sér í þau.
En á móti kemur að of auðvelt aðgengi hvetur til neyslu.
Í þessum efnum virðist veruleikinn vera flóknari en svo að einhlít svör gefist. Þó er vitað að fræðsla, forvarnir og sköpun ákveðins mórals hefur mikið að segja og er árangur í að minnka reykingar gott dæmi um slíkt.
Algert bann á tóbaki er líkast til óframkvæmanlegt og hamast á öfugum enda ef það yrði reynt, -forvarnastarf og takmarkanir líklegri til árangurs.
Spyrja má hvort þeim fjármunum, sem til dæmis Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir eyða í stríð við fíkniefnaframleiðendur í fátækjum ríkjum væri betur eytt í forvarnastarf heima fyrir.
Fíkniefnastríðið er tapað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála þessu. Svo fer líka mikil orka og mikið af peningum í að gera fíknefnaneytendur að glæpamönnum. Tala nú ekki um þegar fangelsisstarfsemi er orðin að gróðastarfsemi, eins og í usa, þar sem fyrirtæki sem reka fangelsi eru á hlutabréfamarkaði og hlutabréfaverð ræðst af því hversu margir eru í fangelsi. Menn ættu miklu frekar að eyða peningum og orku í forvarnir og að hjálpa fíknefnaneytendum.
Bjöggi (IP-tala skráð) 26.6.2012 kl. 20:42
Kínverjar eru sagðir hafa "misst" tvær kynslóðir í ópíumið þökk sé Bretum sem neiddu Kínverja í framleiðslu og neyslu... Segi og skrifa það... Tvær kynslóðir...!
Til að losa þjóðina undan áþján eyturlyfsins var neysla ópíums í Kína gerð ólögleg, og refsingin...?
Dauðadómur...!
Það voru s.s allir drepnir sem ekki gátu hætt... Þannig losnuðu Kínverjar sig við eitrið á mjög svo árangursríkan og skjótan hátt...
-
Ég er að sjálfsögðu ekki að mæla með þvílíkum aðferðum en ef "stríðið er tapað" þá er eina leiðin fyrir okkur að eyða tangarhaldi glæpamanna á neyslunni til að fá að sjá raunverulegt neyslumynstur neytenda... Og fjölda þeirra... Áður en við förum í aðgerðir og forvarnir gegn neyslunni sjálfri...
-
Eftirfarandi er gömul hugmynd, ekki mín heldur heyrði ég hana innan úr löggæslugeiranum á sínum tíma, en ég læt hana flakka hér svo einhverjar pælingar um lausnir komi hérna fram sem hægt verði þá að skjóta í kaf...
Hassið verði gert löglegt...!
Um söluna fyrir markaðinn sjá svo lyfjafræðingar og apótek sem tengd eru miðlægum gagnagrunni...
Til að geta keypt eiturlyfið verður neytandinn svo að sýna skilriki og gefa upp kennitölu... Og þar með má viðkomandi neytandi kaupa ákveðið fyrirfram ákveðið magn en bara einusinni á sólahring... En bara á sinni kennitölu...!
-
Þetta er svosum hugmynd... En þá var spurningin um öll hörðu efnin... Amfetamín, Kókaín o.sv.fr...
Og svo var reynslan ekki neitt sérstaklega góð af því þegar apótekarar fengu einir að selja áfengi... Það varð víst eitthvað rugl útaf því, með fullri virðingu fyrir þeirri stétt...
-
Menn hafa allavega verið að pæla í þessu... En ég veit að sá stjórnmálamaður sem myndi mæla fyrir einhverju svonalöguðu gerði víst lítið meir sem stjórnmálamaður... Slík er heiftin gegn málefninu/flokknum í þjóðfélaginu...
En eitthvað verðum við að gera því með þessu áframhaldi gætum við stækkað öll núverandi fangelsi um fjórfallt og samt náð að fylla þau öll af ræktendum, neytendum og seljendum... Og hvað á þá að gera við hina glæpamennina...?
Sævar Óli Helgason, 26.6.2012 kl. 21:30
Mikið er ég orðinn leiður á því þegar menn tala um neyslu áfengis í sömu andrá og neyslu fíknaefna eins og tóbaks, kókaíns, amphetamína, læknadóps etc. Þetta er skólabókadæmi um þröngsýni þeirra, sem sjaldan eða aldrei hefa komið út fyrir landsteinana og kynnst menningu annara þjóða. Vínmenningin er alvöru menning, já, alvöru menning í ótal mörgum vínræktarlöndum. Og að borða góðan mat án góðra vína, finnst mér vera plebbaskapur, kulturleysi, hallærislegt. Ekki ósvipað því að kunna ekki að meta klassíska tónlist, en hlusta bara á dægurlög, pop. Mín vegna mega slíkir menn drekka dýsætt cola með steikinni eða fisknum, en það er hallærislegt, viss fátækt í sálinni. Þeir sem predika slíkt eru öfgamenn, ekki ósvipaðir trúarofstækismönnum, plebbum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.6.2012 kl. 21:54
Haukur. Ég get ekki lesið neitt út úr því sem þú skrifaðir annað en að þú sért rosalega þröngsýnn. :-) Þér finnst ég semsagt plebbi því ég borða steik án áfengis? Ég hef ekki lesið neitt þröngsýnna í svolítinn tíma núna.
Baráttan við fíkniefni kemur snobbinu þínu ekkert við. Vínmenning er góð og gild en áfengi er í grunninn eitur og þú verður fullur því líkaminn er að afeitra sig. Áfengi er fíkniefni, að halda öðru fram er einfaldlega kjánalegt þegar menn vita að áfengi er í grunninn eitur sem líkaminn höndlar illa.
Vínmenning er tilbúinn hlutur sem mannfólkið bjó til. Ég skil ekki hvernig það gerir áfengi síður að fíkniefni heldur en önnur fíkniefni.
Áfengi er í lagi í hófi, eins og flestar vínmenningar gera ráð fyrir, ekki satt? Sum fíkniefni eru líka í lagi í hófi, ekki öll þó. Núverandi stefna gegn fíkniefnum augljóslega virkar ekki. Það er engan veginn hægt að koma upp með fullkomna stefnu en hlutirnir geta vart orðið verri en þeir eru í dag...
Ég vil bæta við þetta að ég drekk ekki og neyti ekki annarra fíkniefna (nema koffíns). Ég hef aldrei notað ólögleg fíkniefni svo ég er ekki að reyna að "lobbýa" þeirri skoðun á fólk að allt eigi að fljóta í fíkniefnum, enda finnst mér það heldur ekki góð lausn.
Kristinn (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 15:21
Segðu þeim á Vogi, Haukur, að vínið sé allt annars eðlis en hin fíkniefnin og eigi því ekki heima meðal þeirra. Segðu þeim fíklum, sem hafa orðið að fara í meðferð vegna fjölbreytilegrar neyslu margra vímuefna, að allt annað eigi við um áfengið en hin efnin.
Segðu þeim að sú niðurstaða rannsókna á fíkniefnavandanum að vínið valdi mestum skaða sé röng.
Vínið veldur að vísu mestu tjóni vegna þess að það er algengasta fíkniefnið en heildarútkoman er sú sama.
Ómar Ragnarsson, 27.6.2012 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.