Ný hugsun á gamals aldri.

Þegar maður er kominn á áttræðisaldurinn lykst allt í einu upp fyrir manni alveg nýtt viðhorf sem maður átti ekki á yngri árum von á að kæmi til sögunnar í ellinni.

Þetta nýja viðhorf, nýja viðmið, nýju aðstæður, geta gefið manni aukið frelsi.

Ég kýs að nefna þetta viðhorf: "Það tekur því ekki" heilkennið.

Öll þekkjum við að í lífinu erum við að bjástra við ýmis viðfangsefni með framtíðina í huga.

Það getur verið margt, svo sem eins og það að reyna að breyta einhverjum atriðum í lífi sínu, svo sem persónulegum göllum.

Síðan gerist það nokkuð skyndilega þegar aldur manns er orðinn nógu hár, að maður sér þessa hluti í nýju ljósi aldursins og hugsar sem svo: Af hverju skyldi maður vera að hafa fyrir þessu? Það tekur því ekki að breyta þessu héðan af.

Þetta er afar þægileg tilhugsun hvað það snertir að með henni getur maður losað sig við áhyggjur eða vesen út af alls konar hlutum og sætt sig ýmsa galla og vankanta.

Ég fékk til dæmis djúpt sár á hausinn í gær við þegar ég gekk undir vænginn á TF-FRÚ eins og ég hef gert í mörg þúsund skipti..

Vængurinn er um átta fermetrar en samt þurfti ég endilega að reka mig á einu ójöfnuna undir honum, örlítinn ventil, sem skagar niður úr honum.

Fyrst hugsaði ég sem svo: Ég verð að fara til læknis og láta hann sauma saman þennan sjö sentimetra djúpa/afsakið, langa skurð. En svo kom alveg ný nálgun: Af hverju að fara að hafa fyrir því að eltast við það þetta gamall?  Það tekur því varla héðan af.

Svo er svo skemmtilegt að vera með stórt ör á skallanum, þegar fólk spyr: "Hvað kom fyrir hausinn á þér?"

Þá segir maður sannleikann: "Ég rak mig upp undir Frúna."

Haukur Clausen tannlæknir átti mótbáru við þessari röksemdafærslu kæruleysisins.

Fjörgamall maður kom til hans og bað hann um að gera við tönn.

"Hörmung er a sjá þetta," sagði Haukur. "Þú ert með svo hræðilegar tennur að það er til skammar. Ég ætla að gera þér tilboð sem þú getur ekki hafnað?"

"Og hvaða tilboð er það?" spurði gamalmennið.

"Þú átt um tvennt að velja" svaraði Haukur. "Kjafturinn á þér er svo skakkur að það er tilganglaust að vera að tjasla upp á eina og eina tönn í einu því að það fer allt strax í sama horfið.

Þess vegna áttu tvo kosti: Að láta mig vera að lappa upp á þig algerlega árangurslaust, - eða, - að þú borgir mér 300 þúsund krónur og ég rétti á þér trantinn og geri svo vel við hann allan, að þú getir smælað framan í heiminn það sem eftir er."

"En af hverju ætti ég að vera að eyða svona miklum peningum í það?" spurði sá gamli. "Ég á kannski það stutt eftir ólifað að það taki því ekki. Hvað vinn ég þá með þessu bruðli?"

"Jú," svaraði Haukur, "þú getur þá huggað þig við það að verða fallegt lík."

  


mbl.is Ekki til neins að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þú ert frábær Ómar á stundum/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 25.6.2012 kl. 23:58

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Axel Jóhann Hallgrímsson, 26.6.2012 kl. 00:01

3 identicon

Er alveg öruggt að skurðurinn hafi verið sjö sentimetra DJÚPUR?  Ansi er höfuðleðrið á þér þá þykkt!  Slapp hauskúpan alveg?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 26.6.2012 kl. 00:11

4 Smámynd: Sævar Helgason

Sjö sentimetra djúpur skurður ofaní hausinn - er langt inn í heilann. Ertu

enn á lífi?

Sævar Helgason, 26.6.2012 kl. 00:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið. Þetta er innsláttarvilla hjá mér. Hann er að vísu djúpur enda stökk blóðu um allan hausinn, en hann var og er sjö sentimetra langur. Leiðrétti þetta.

Ómar Ragnarsson, 26.6.2012 kl. 01:02

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ég skil þig fullkomlega en einkennið "það tekur því ekki" er að mínu mati alltaf rangt.

Ef þú hefur eitthvað sem brennur á þér, eins og til dæmis verndun náttúru eða lífræn ræktun og lítur á allt "made in china" þa má maður aldrei hugsa "að það taki því ekki" heldur blása öðrum íslendindum móð í brjóst! Þá tekur því og börnin okkar og barnabörnin fara að hugsa eins!.......og þú Ómar ;-)

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.6.2012 kl. 02:04

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Vil bæta við allar "færslur" a moggablogginu að það er "seinasta sort að loka öllum kommentum og skrifa samt í hverru viku eitthvað sem hver unglingur, eða krakki um vikuna  það er dagókarfærsla Briget Johnes...(hef sérstaklega Hannes Hólmstein í huga og Björn Bjarnason, en það eru fleiri)

Gaman væri ef einhver gerði könnun á svona mönnum og leggi áherslu á óbirt ummæli?

Svona herrar sem þykjast "yfir okkur " hafin nota skitasðferina að ráðast á manninn og aldrei nálgast umræðuna og mér og nokkrum öðrum finnst að "gentlemen" ráðist aldrei , aldrei á manneskjuna, aðeins málefni og styðja sitt flotta mál með rökum!.....og loka svo á athugasemdir eftir að hafa skotið skítnum út um gluggann.

gaman væri ef þeir 2 Hannes HG og Björn Bj., væru ábyrgir fyrir einhverju? 

Annars eru þeir bara BLÖÐRUR I ISLANDASÖGUNNI

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.6.2012 kl. 02:33

8 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Góður.

Þorkell Sigurjónsson, 26.6.2012 kl. 03:47

9 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Heh...!

Ég hef kynnst einum svona manni einsog þessum sem fréttatengingin fjallar um...

-

Ég var að vinna sem matreiðslumaður á hóteli útá landi sumarið 2000... Og í bænum sem þetta hótel var voru fjögur hundraðára afmæli þetta sumar... Og afmælisbörnin voru náttúrulega öll skyld, en þó mismunandi vel á sig komin...

Sá hressasti var frægur prakkari og var þekktur fyrir að hafa munnin fyrir neðan nefið...

Ég hafði verið fenginn til að "sjá" um veisluna og á leiðinni á veislustaðinn var barna-, barnabarnið hans, ungur maður örlítið yngri en ég, að segja mér frá því í hverju hann hefði lent í um morguninn með karlinn...

"Ég meina... Mér datt í hug að grínast aðeins í karlinum og spurði hann... 'Afi hvað gerðirðu í stríðinu...?'" Sagði afkomandinn við mig meðan hann ók bílnum...

"Ha...?!? Og hvernig tók hann því...?" Spurði ég...

"Það var einmitt málið... Hann leit á mig einsog ég væri hálviti og spurði mig á móti, einsog hann væri að tala við vanvita... 'Hvaða stríði, greyið mitt...?' Og það var einmitt málið... Karlhelvítið er náttúrulega fæddur árið 1900... Þannig að hann hefur verið unglingur í fyrri heimsstyrjöldinni, að nálgast miðjan aldur í þeirri seinni... Og hvað eru búin að vera mörg stríð síðan þá...? Þessu svaraði hann mér á þann hátt að þegar ég áttaði mig á hversu heimskuleg mín spurning var... Þá leið mér einsog hálvita...!!! Haaaaa... Ég ætla að vona að ég verði jafn ern og hann ef ég næ þessum aldri..." Sagði afkomandinn og brosti...

-

Í undirbúningi veislunnar, við að stilla öllu upp, var þetta háaldraða afmælisbarn á sífeldu vappi í kringum mig... Með allskonar spurningar og vildi greinilega nota mig, kokkinn og aðkomu manninn, til að sleppa frá umstanginu "frammi" einsog hann sagði... Gestirnir voru að koma og hver og einn vildi náttúrulega hitta og heilsa uppá afmælisbarnið... Sem ég hafði á tilfinninguni að væri ekkert spenntur yfir þessu öllu saman, enda búin að upplifa eitt stk. hundrað afmælisdaga... Í eitt skiptið eftir að hann hafði heilsað nýkomnum gestum og komið þeim svo útúr borðstofunni undir orðunum að "...kokkhelvítið væri svo hrikalega skapstyggt kvikindi að það mætti alls ekki trufla hann við undirbúningin..." Hann myndi koma út á eftir þegar við værum búnir... "Nei, kokkurinn vill að ég segi honum til um hvernig allt á að vera... Já, smástund í viðbót..." Sagði hann og lokaði borðstofuhurðinni á afmælisgestina... Hann gékk upp að mér aftur þarsem ég var að bisa við risa hnallþóru, fagurlega skreytta rjómatertu og dæsti hálfleiður... Ég ákvað að grínast aðeins í honum til að lyfta honum aðeins upp...

"Nú eru allir að spyrja þig hvað það sé nú það besta við það að vera búinn að lifa svona lengi... Þannig að ég ætla að vera bara heiðarlegur og spyrja þig, hvað er það versta við að vera búinn að lifa svona lengi...? Spurði ég hann og tók plastið af rjómatertunni... Hann kímdi við, leit djúpt í augun á mér og sagði...

"Að hafa ekkert nema sjötuga krakka-gemlinga að rífast við...!"

Hann stakk puttanum í rjómaskreytinguna á tertunni skóf af og stakk svo uppí sig með prakkarablik í augum...

Þetta var maður sem kunni að grípa og njóta augnabliksins...

Sævar Óli Helgason, 26.6.2012 kl. 03:52

10 identicon

Ég get staðfest það að Ómar var kominn í loftið ekki seinna en svona kortéri eftir að búið var að þrífa af mesta blóðbaðið ;)

En þetta var skurður nánast inn að beini, og verður myndarlegasta skreyting þegar fram í sækir. Sést reyndar ekki undir derhúfu.

Það væri gaman að sjá mynd af útganginum, hehehe.

Jón Logi (IP-tala skráð) 26.6.2012 kl. 10:00

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Pistillinn sá arna er nú reyndar skrifaður í hálfkæringi og í alvörunni hef ég reynt hin síðari árin að líta á lífið sem hliðstæðu við 400 metra grindahlaup í þoku, þar sem allt hlaupið verður að miða við að endaspretturinn verði sem bestur.

Mér fannst 400 metra hlaupið skemmtilegast í gamla daga af því að það er eins og lífið, byrjar og endar á sama stað, - af moldu ertu kominn o. s. frv. 

Í svona hlaupi verður að hafa allt hlaupið í huga frá upphafi til enda, ekki ofkeyra sig og heldur ekki að fara of hægt, og hægt er að hrasa hvenær sem er. 

Þessu hef ég lýst bæði í sjónvarpsviðtali og blaðaviðtali sem og þeirri hugsun, sem við Íslendingar eru því miður sneyddir, að miða allt við sína kynslóð og núið en ekki hagsmuni  og frelsi milljóna ófæddra Íslendinga. 

Ég hef leitast við að andæfa gegn þessari græðgi og skammsýni og aldrei meira en á endaspretti ævi minnar. 

Ómar Ragnarsson, 26.6.2012 kl. 20:22

12 identicon

Taktu endasprettinn á löngum tíma vinur, - við þurfum á mönnum eins og þér að halda.

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband