17 prósent kjósenda fengju engan þingmann.

Hvað myndu menn segja ef Vinstri grænir fengju engan þingmann þótt þeir hefðu 12 prósenta fylgi?

Eða að Framsóknarflokkurinn fengi engan þingmann þótt þeir hefðu 13 prósenta fylgi?

Eða að Samfylkingin fengi engan þingmann ef fylgi hennar dalaði um tvö prósent frá því sem það er nú í skoðanakönnun?

Eða að Norðausturkjördæmi fengi engan þingmann?  Norðvesturkjördæmi?  Suðurkjördæmi?

Það yrði auðvitað allt vitlaust.

En staðreyndin er sú, að í nýjustu skoðanakönnuninni mælast fjögur framboð með samtals um 17 prósenta fylgi sem samsvarar 33 þúsund kjósendum, en myndu samt ekki fá einn einasta þingmann samkvæmt þessari skoðanakönnun, vegna þess að ekkert þeirra kemst yfir 5% þröskuldinn, sem er settur fyrir því að framboð komi manni á þing.

Glögglega sést hvað þetta fyrirkomulag er mikil trygging fyrir fjórflokkinn, enda setti hann þennan þröskuld á sínum tíma.

Rökin voru þau að þetta þyrfti að gera til þess að koma í veg fyrir myndun of margra lítilla framboða sem ykju á sundrung á þingi.

Reynslan sýnir hins vegar að þetta hefur ekki komið í veg fyrir það að flokkar klofnuðu á þingi á milli kosninga. Þannig hefur ýmist kvarnast úr eða bæst við þingflokka allra flokkanna á þessu kjörtímabili.

Úr fortíðinni höfum við dæmi um klofning á milli kosninga, Frjálslynda flokkinn, Þjóðvaka,  Borgaraflokkinn, Bandalag jafnaðarmanna, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Alþýðubandalagið, Sósíalistaflokkinn og Bændaflokkinn, auk þess sem einstakir þingmenn hafa alla tíð klofið sig frá flokkunum á kjörtímabilunum, svo sem Stefán Valgeirsson og Eggert Haukdal.

Hinn alltof hái þröskuldur tryggir ekki stöðugleika heldur er ólýðræðislegur og ósanngjarn.

Samkvæmt frumvarpi stjórnlagaráðs verður sá þröskuldur einn að framboð verði að hafa fylgi sem nægir fyrir einn þingmann. Það samsvarar um 1,7% fylgi.

Vegna þess að þingmenn eru miklu færri hér á landi en í nágrannalöndunum er þessi þröskuldur alveg nógu hár.  


mbl.is Stjórnarflokkarnir bæta örlítið við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Ósammála.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.7.2012 kl. 02:15

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sammála Guðrúnu Maríu.

Hrólfur Þ Hraundal, 4.7.2012 kl. 07:43

3 identicon

Ja hérna hér, nú er ég hissa á viðbrögðum við þessari þörfu ádrepu Ómars um aukið lýðræði.  Ég sem hélt að þessi úrelti hugsunarháttur væri á undanhaldi, þ.e. að við ætluðum að láta af þessu valdabrölti og taka upp lausnamiðaða samræðupólitík þar sem öll sjónarmið fá notið sín.  Ekki vantar að í hinum nýju framboðum er hið mætasta fólk með hugsjónir.  Auðvitað sýnist sitt hverjum um einstök mál og ekkert að því, en með eðlilegum vinnubrögðum á þingi ætti að nást skynsamleg niðurstaða um afgreiðslu mála, sama hvaða flokki hver tilheyrir. Heimskulegum eða óraunhæfum tillögum yrði einfaldlega vikið til hliðar og óverðugir fengju sömu meðferð í næstu kosningum.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 08:31

4 identicon

 

Rót vantraustins á stjórnmálum í dag er skortur á endurnýjun flokkakerfisins. Fjórflokkurinn hefur markvisst komið í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun með lögum sem fela í sér að stjórnmálaflokkar þurfi að ná 5% fylgi í Alþingiskosningum til að fá fulltrúa inn á þing. Hár þröskuldur í Evrópsku samhengi. Ríkisframlög renna aðeins til flokka með fulltrúa á Alþingi. Upphæðin sem rennur árlega til einstakra flokka fjórflokksins er á bilinu 50-100 milljónir á ári. Ný framboð fá ekki ríkisframlag til að fjármagna kosningabaráttu sína.  Aðgengi nýrra framboða að fjölmiðlum er mjög takmarkað, þar sem þau eru ekki álitin hluti af flokkakerfinu fyrr en boðað hefur verið til kosninga. Auk þess eru þingmenn utan þingflokka sniðgengnir af fjölmiðlum. Þannig eru fjölmiðlar mikilvægt tannhjól í vél fjórflokksins og valdastéttarinnar. Niðurstaðan er því sú að á Íslandi er ekki hægt að treysta á að niðurstaða Alþingiskosninga verði lýðræðisleg!

Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 11:51

5 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Það er annar þáttur innifalinn í þessu sem er ekki síður mikilvægt að hugleiða og það er hvernig núverandi styrkjakerfi til flokkanna gerir nýjum framboðum óhemju erfitt að komast að. Á meðan ný framboð hafa ekkert fjármagn hafa gömlu flokkarnir úr hundruðum milljóna af skattfé almennings að spila til þess að viðhalda sínum völdum.

Kristbjörg Þórisdóttir, 4.7.2012 kl. 11:55

6 identicon

Ég held að við séum ekki alveg á réttri leið í þessari umræðu. Það er mjög erfitt að auka lýðræði út frá skipan alþingis. Nær væri að efla sveitarstjórnir og héraðsstjórnir til aukinna áhrifa. Þannig yrðu ákvarðanir teknar nær þeim sem málin varða. Alþingi á fyrst og fremst að vera löggjafasamkoma. Með fækkun og stækkun sveitarfélaga (12 - 18) væri mögulegt að beita einstaklingskjöri til héraðs-/bæjarþinga. Það yrði raunveruleg lýðræðisbót og ákvarðanir yrðu færðar nær fólkinu. Þegar alþingismenn þrefa um brú þar eða vega hér eru þeir í rauna að sanna hve ótækt stjórnvaldið er!

Ingi Hans (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 15:06

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

ÍSLENSK SVEITARFÉLÖG Í EVRÓPUSAMBANDINU.

RÚMLEGA ÞRIÐJUNGI af fjárlögum Evrópusambandsins, um 347 milljörðum evra, verður varið til BYGGÐAMÁLA á tímabilinu 2007-2013.

Byggðaþróunarsjóður.

Sjóðnum er ætlað að jafna stöðu einstakra svæða. Áhersla er til dæmis lögð á nýsköpun í þekkingariðnaði og rannsóknum, umhverfismál og samgöngur en sérstök áhersla er lögð á dreifbyggð svæði og erfið.

Samstöðusjóður.

Sjóðnum er ætlað að styrkja ríki sem verða fyrir verulegu tjóni af völdum náttúruhamfara, til dæmis veðurs.

Aðlögunarsjóður.

Sjóðnum er ætlað að styrkja væntanleg aðildarríki og veita þeim aðstoð við að undirbúa og uppfylla ýmis nauðsynleg skilyrði fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

Félagsmálasjóður.

Sjóðnum er ætlað að jafna félags- og fjárhagslega stöðu íbúa í álfunni. Áhersla er lögð á ýmiss konar menntun og að styrkja stöðu hópa sem eiga undir högg að sækja, til dæmis innflytjenda, fatlaðra, ungs og gamals fólks á vinnumarkaði.

Landbúnaðarsjóður.

Sjóðurinn skiptist í tvennt, annars vegar er um að ræða styrki til bænda og hins vegar styrki til dreifðra byggða.

Styrkir til sjávarbyggða.

Evrópusambandið veitir styrki til sjávarbyggða úr sjóði sem heitir European Fisheries Fund og stuðningurinn byggir á fjórum stoðum:

• Aðlögun flotans.

• Fiskeldi, vistvænar veiðar, vöruþróun og markaðssetning.

• Veiðistjórnun og öryggismál.

• Stuðningur við byggðir sem eru að verulegu leyti háðar fiskveiðum og til að stuðla þar að fjölbreyttari atvinnuvegum.

Þorsteinn Briem, 4.7.2012 kl. 15:46

8 identicon

Norðursjórinn er hálfdauður og ein ástæða fyrir hörku Breta í Þorskastríðinu 1973 var sú að þá gengu þeir í EBE. Þeir fórnuðu fiskréttindum og treystu á Íslandsmið sem uppbót sem dygði þeim. Á þeirra heimamiðum hefur verið botnlaus ofveiði í áratugi.

Þegar Danir gengu í EBE voru mótmæli í mörgum höfnum, hvar bátar tóku sig saman og "blésu" allir semeinn.

Vissi þetta einhver hérna?

Næsta....

ESB nær ekki að skila ársskýrslu. Enda ekki fyrir hvern sem er að moða nothæft plagg úr þeim frumskógi sem gögnin eru og regluverkið.

Íslendingum er að mestu heimilt að styrkja sínar byggðir á eigin forsendum, ef einhver mannast til að leggja t.d. frumvarp þar um, - eini þröskuldurinn í frelsi til þess eru alþjóðlegir viðskiptasamningar, t.a.m. EES. Norðmenn hafa þó "komist upp með" alveg lýgilega styrki til að viðhalda byggð.

Þetta er allt í okkar höndum. Ennþá.

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.7.2012 kl. 11:26

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Afli skipa sem veiða í Norðursjó hefur minnkað mikið undanfarna áratugi, rétt eins og íslensk fiskiskip hafa veitt minna af til dæmis þorski, loðnu og rækju en áður.

Við Íslendingar yrðum langstærsta fiskveiðiþjóðin í Evrópusambandinu en þær stærstu eru nú Danmörk, Spánn, Bretland og Frakkland.

Stór hluti af afla spænskra skipa kemur hins vegar úr Miðjarðarhafinu.

Fiskafli skipa í Evrópusambandinu árið 2005


Frakkland
stofnaði ásamt fleiri ríkjum Efnahagsbandalag Evrópu (EEC) árið 1957. Bretland og Danmörk fengu aðild að Efnahagsbandalaginu árið 1973 en Spánn og Portúgal árið 1986.

Afli breskra skipa var um 50% minni árið 2007 en 1973, um 1,2 milljónir tonna árið 1973 en um 600 þúsund tonn árið 2007.

Afli danskra skipa var einnig um 50% minni árið 2007 en 1973, um 1,4 milljónir tonna árið 1973 en um 700 þúsund tonn árið 2007.

Afli spænskra skipa var um 33% minni árið 2007 en 1986, um 1,2 milljónir tonna árið 1986 en um 800 þúsund tonn árið 2007.

Afli franskra skipa var um 30% minni árið 2007 en 1957, um 700 þúsund tonn árið 1957 en um 500 þúsund tonn árið 2007.

Afli portúgalskra skipa var um 40% minni árið 2007 en 1986, um 400 þúsund tonn árið 1986 en um 250 þúsund tonn árið 2007.

FAO - Fiskafli árið 2007 - Country Profiles 24.6.2010

Þorsteinn Briem, 5.7.2012 kl. 11:53

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

AFLI SPÆNSKRA SKIPA HEFUR MINNKAÐ MUN MEIRA EN BRESKRA SKIPA FRÁ ÁRINU 1986.

Árið 2007
var afli breskra skipa um 600 þúsund tonn, um 200 þúsund tonnum, eða 25% minni en þegar Spánn fékk aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu árið 1986.

Og árið 2007 var afli spænskra skipa um 800 þúsund tonn, um 400 þúsund tonnum, eða 33% minni en árið 1986.

Frakkland
stofnaði ásamt fleiri ríkjum Efnahagsbandalag Evrópu (EEC) árið 1957. Bretland og Danmörk fengu aðild að Efnahagsbandalaginu árið 1973 en Spánn og Portúgal árið 1986.

Fiskafli skipa í Evrópusambandinu árið 2005


FAO - Fiskafli árið 2007 - Country Profiles 24.6.2010

Þorsteinn Briem, 5.7.2012 kl. 11:56

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Evrópusambandið er langstærsti markaður okkar Íslendinga fyrir sjávarafurðir og þar búa um 490 milljónir manna sem neyta árlega um 12 milljóna tonna af sjávarafurðum.

Árið 2006 veiddu þjóðir sambandsins um 6,9 milljónir tonna en stærstu veiðiþjóðirnar nú eru Spánn, Danmörk, Frakkland, Bretland og Ítalía.

Ísland yrði stærsta fiskveiðiþjóðin
í Evrópusambandinu og árið 2006 var afli íslenskra skipa tæpar 1,7 milljónir tonna.

Þorsteinn Briem, 5.7.2012 kl. 11:58

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enda þótt ríkin Bretland og Frakkland eigi bæði aðild að Evrópusambandinu á Frakkland ekki hlutdeild í olíuauðlindum Bretlands, sem eru að sjálfsögðu staðbundnar.

Grænland, Færeyjar og Danmörk eru hins vegar í sama ríkinu, enda þótt Grænland og Færeyjar eigi ekki aðild að Evrópusambandinu.

Staðbundinn
þorskur á Íslandsmiðum er mun verðmætari en loðna, sem gengur á milli lögsagna Íslands, Grænlands, Færeyja og Noregs við Jan Mayen.

Norsk skip hafa því fengið að veiða loðnu í íslenskri lögsögu og íslensk skip loðnu í norskri lögsögu.

En að sjálfsögðu fengist mun meira en eitt tonn af loðnukvóta í staðinn fyrir eitt tonn af þorskkvóta.

Skip frá ríkjum Evrópusambandsins hafa lítið veitt á Íslandsmiðum síðastliðna tvo áratugi og fá því engan aflakvóta á Íslandsmiðum, nema þá að íslensk fiskiskip fengju jafn verðmætan aflakvóta í staðinn.

Í aðildarsamningi Noregs og Evrópusambandsins fengu skip Evrópusambandsins að veiða í norskri lögsögu, enda er um sameiginlega fiskveiðiauðlind margra ríkja að ræða í Norðursjó, svo og Eystrasalti og Miðjarðarhafinu, þar sem margar fisktegundir ganga úr einni lögsögu í aðra.

Íslensk varðskip munu áfram sjá um fiskveiðieftirlit á Íslandsmiðum og Hafrannsóknastofnun áfram veita fiskveiðiráðgjöf hér, enda þótt Ísland fái aðild að Evrópusambandinu.

Landhelgisgæslan starfar hins vegar hér á norðurslóðum í samvinnu við breska, norska og danska sjóherinn, sem sér um landhelgisgæslu við Færeyjar og Grænland,

Aðildarsamningi
Íslands og Evrópusambandsins verður ekki hægt að breyta, nema með samþykki Íslendinga.

Bretar, Þjóðverjar, Spánverjar og aðrar Evrópuþóðir fá sinn fisk af Íslandsmiðum, enda þótt Íslendingar veiði fiskinn. Og evrópskir neytendur greiða allan kostnað við veiðarnar, til að mynda olíukaup og smíði íslensku fiskiskipanna, sem langflest hafa verið smíðuð í öðrum Evrópulöndum.

Þýskalandi hefur vegnað vel eftir Seinni heimsstyrjöldina með miklum viðskiptum við önnur ríki en ekki með því að leggja undir sig auðlindir þeirra.

Þorsteinn Briem, 5.7.2012 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband