19.8.2012 | 21:18
Upplífgandi, hin danska hefð á Akureyri.
Hér áður fyrr var um það rætt að á fáum stöðum á Íslandi hefðu dönsk áhrif orðið jafnmikil og á Akureyri.
Eimdi lengi eftir af þessu, til dæmis í orðanotkun. Brjóstsykur var bolsjör, gangstéttir voru fortóv, svalir voru altan, vítaspyrna var stroffí, aukaspyrna fríspark, talað var um að eitthvað væri vanskillegt og þegar hlutir voru skorðaðir af eða raðað í kringum þá, var talað um að spila eitthvað af.
Haukur Heiðar Ingólfsson, undirleikari minn, er borinn og barnfæddur Akureyringur og alinn upp á Oddeyrinni af foreldrum, sem komnir voru af léttasta skeiði. Haukur upplifði því í uppeldi þeirra lokin á hinni dansklituðu Akureyri og ýmsa góða siði, tengda henni, svo sem snyrtimennsku og nákvæmni sem aðrir landsmenn margir mættu taka til fyrirmyndar.
Við Haukur höfum gaman af að varðveita í okkar tali ýmislegt frá fornri tíð, til dæmis harðan norðlenskan framburð á einstaka orðum eða að bölva upp á Akureyrsku, svo sem "andskotans djöfuls bölvaður..."
Í gær tókum við lítið hljómborð Hauks með í bílnum austur á Hellu til að hafa það til taks til vara sem undirleikshljóðfæri á Töðugjöldum á þar, og þegar við vorum að ganga frá hljómborðinu í bílnum svo að sem best færi um það, "spiluðum við það af" eins vel og örugglega og hægt var.
Í hinni yfirþyrmandi innrás enskunnar inn í íslenskt mál er það orðið ágætt mótvægi að varðveita eitt og eitt atriði af þeim dönsku áhrifum, sem nú eru að líða undir lok.
Þannig fannst mér alltaf notalegt þegar Bjarni Fel notaði óhræddur orðið að "kiksa" um það fyrirbæri þegar menn hittu ekki boltann sem best svo að skotið eða sendingin geiguðu.
Yfir þetta danska orð "kikse" er nefnilega ekki til neitt íslenskt orð, sem lýsir fyrirbærinu eins vel.
Danskur sunnudagur á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Dönskusletturnar í íslensku eru sem sagt betri en þær ensku.
Þorsteinn Briem, 20.8.2012 kl. 12:17
Sú var tíðin að danskar messur tíðkuðust á Akureyri. Fyrir vikið var töluð danska á sunnudögum á Akureyri.
Vel mætti hugsa sér að endurvekja þann tíðaranda.
Þegar minnst er á Akureyri þá má geta þess að þegar höfnin var upphaflega byggð voru fengnar gamlar fallbyssur frá Danmörku, framhlaðningar frá tímum seinna Slésvíkurstríðsins. Þessi fallstykki (framhlaðingar) voru úr sænsku eðalstáli en aldrei notaðar í hernaði að vitað sé en fengu friðsamlegt hlutverk á Íslandi sem bryggjupollar í upphafi 20. aldar. Í stríði Dana við Prússa 1864 ákváðu Svíar að veita Dönum hernaðaraðstoð í formi afhendingar nokkura hundruða fallbyssna. En þegar byssurnar komu loksins til Kaupmannahafnar var stríðið búið, og gjörtapað fyrir Dani.
Þegar höfnin á Akureyri var endurbyggð fyrir um 30-40 árum voru tveir fyrrum bryggjupollar snurfusaðir, byggðir vagnar í stíl fyrri tíma og þannig fyrir komið í Safnagarðinum á Akureyri.
Enn má sjá gömul fallstykki. Í Borgarnesi má í Brákarey eru 7 fyrrum fallstykki sem steypt hafa verið í bryggjuna.
Íslendingar eru snillingar að endurnýta stríðstól til borgarlegra nota. Það eru ekki aðeins fallbyssur sem eru notaðar sem bryggjupollar, heldur höfum við notað ýmiskonar farartæki á borð við trukka til flutninga á fólki og varningi yfir varhugaverðar ár og vegleysur. Við notum einnig sérútbúna báta frá dögum Víetnamstríðsins um hálfrar aldar gamalla til að sigla með ferðafólk um Jökulsárlón.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 20.8.2012 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.