26.8.2012 | 21:57
Við Besti leituðum mest og best.
Einhvern tímann í kringum áramótin 1979-80 spilaði Stjörnulið mitt góðgerðarleik í Laugardalshöll. Albert Guðmundsson var fastamaður í liðinu í hálfan annan áratug.
Þegar leiknum var lokið voru tveir menn mest að flýta sér, ég og Albert. Albert þurfti að flýta sér niður á þing til að taka þátt sérstaklega mikilvægri og tvísýnni atkvæðagreiðslu en ég að fara í loftköstum suður í Keflavík til að skemmta þar og koma síðan sem hraðast til baka til að skemmta í Reykjavík.
Én nú kom babb í bátinn. Albert fann hvergi nærbuxur sínar og upphófst áköf leit þar sem ég leitaði að sjálfsögðu manna mest og best vegna tímahraksins sem ég var í.
Buxurnar fundust ekki og varð Albert að fara án þeirra í atkvæðagreiðsluna.
Þegar ég kom heim um miðnæturskeið var Helga komin upp í rúm en ég flýtti mér að fara úr til að leggjast örþreyttur til svefns.
Í miðjum klíðum hrópaði hún upp yfir sig: "Í hvaða nærbuxum ert þú eiginlega?" "Nú auðvitað mínum" svaraði ég.
"Nei", svaraði hún. "Þær eru ekki nærri því svona víðar. Hvað hefur eiginlega komið fyrir?"
"Ætli það hafi ekki slitnað teygjan," svaraði ég.
"Kanntu annan," svaraði hún. "Þetta er líkara tjaldi en buxum."
Nú rann upp fyrir mér ljós: Þetta voru nærbuxur Alberts, þær sömu og ég hafði leitað mest og best allra manna að fyrr um kvöldið.
Albert hafði orðað það að hann myndi bjóða sig fram til forsetaembættisins. Ég hringdi í hann og sagði honum hvað gerst hefði, en spurði hvort ekki væri rétt að bíða með það að skila buxunum þangað til eftir forsetakosningarnar.
"Af hverju?" spurði hann.
"Jú, sjáðu til", svaraði ég. "Ef þú verður kosinn mun koma að því að erlendir sendiherrar muni koma til að afhenda þér trúnaðarbréf sín við hátíðlega athöfn. Þá ætla ég að vera þeirra á meðal og afhenda þér nærbuxurnar."
Í kringum 1990 fór Sigurveig Jónsdóttir í myndatökuferðalag með hestamönnum norður Kjöl. Kvikmyndatökumaður var Bergsteinn Björgólfsson, alltaf kallaður Besti og er afar snöggur og góður hagyrðingur.
Í náttstað á Kili skall á niðaþoka og kom í ljós að einn hestinn vantaði. Varð úr að Besti bauðst til að fara og leita að honum. Hann fór út í gerðið þar sem hestarnir voru, beislaði einn þeirra og reið út í þokuna.
Leið nú og beið og fóru menn að óttast um að Besti hefði villst og hefja þyrfti leit að honum og þar með að tveimur hestum auk hans.
Áður en til þess kæmi birtist Besti þó, öllum til mikils léttis og ekki síður fögnuðu menn því að hann hafði fundið hestinn og sat meira að segja á honum.
"En ég fann ekki hestinn, heldur gafst upp í tíma úr því að það var alveg vonlaust í svona þykkri þoku að finna nokkurn skapaðan hlut," svaraði Besti.
"En þú situr samt á honum" sögðu þeir.
"En þetta er hesturinn sem ég beislaði í gerðinu og fór á til leitarinnar," svaraði Besti, og varð þar með augljóst að hann hafði aldrei týnst.
Hann leit niður á hestinn, sem hann sat á, og mælti þessa vísu af munni fram:
"Klárinn, sem ég er kominn á hér
er sá klárasti sem ég þekki:
Hann faldi sig milli fótanna á mér
svo ég fann hann barasta ekki."
Getur eitthvað "toppað þetta"? Jú, þriðja sanna sagan hljóðar svona:
Fyrir nokkrum árum fór ég fljúgandi frá Akureyri til Egilsstaða og lenti í afar erfiðu dimmviðri. Jökuldalurinn var fullur af þoku en ég fann leið suður hjá Sænautaseli upp með Hafrahvammagljúfri, rétt slapp yfir Kárahnjúkastíflu, sem þá var í smíðum, og komst lágt suður með Hálsinum. Þar hafði ég reiknað með að gætu verið vindaskil og rof í þokuna og reyndist svo vera þannig að ég gat flogið austur í Fljótsdal og til Egilsstaða á tilsettum tíma.
Þar tók ég gamlan Samurai jeppann og brunaði af stað áleiðis til Kárahnjúka.
Þegar ég er á leið upp á Fljótsdalsheiði sá ég að sjúkrabíll og lögreglubíll voru á leið á eftir mér upp sneiðingana og fóru mikinn.
Ég hringdi í RUV á Egilsstöðum og var tjáð að bílarnir væru á leið í flugsslysstað fyrir innan Kárahnjúka.
Mér brá mjög, enda var flugveðrið erfitt og varasamt og aðeins fyrir hundkunnuga, en á hinn bóginn varð ég að sinna fréttamannsskyldum mínum, - var með allar kvikmyndagræjur mínar með mér og gat því bæði hjálpað til að finna flugvélarflakið, tekið óhjákvæmilegar fréttamyndir í leiðinni og verið langt á undan öllum öðrum fjölmiðlum.
Auk þess félagi í Landsbjörgu og því líka að huga að skyldum björgunarsveitarmanns við leit að flugvélarflakinu. Kveið fyrir því að koma að því af því að líklegast var þetta einhver vina minna í hópi íslenskra flugmanna.
Hófst nú mikill hraðakstur suður heiðina en þá var hringt frá Flugmálastjórn og spurt hvort ég hefði orðið flugvélar var á leið minni frá Akureyri til Egilsstaða. Ég kvað nei við, enda hefðu flugskilyrði verið mjög slæm og ekki fyrir ókunnuga, - spurði hvort flugvélin hefði hrapað í blindflugi eða misst afl og hvort þeir gætu sagt mér hvaða vél þetta hefði verið svo að ég gæti leitað að henni.
"Við vitum ekki hvaða flugvél þetta getur hafa verið", sögðu þeir, "en fengum upphringingu frá Kárahnjúkum þess efnis að menn hefðu séð flugvél flogið suður Hjalladal þar sem hún hefði virst hrapa handan við hæð, horfið og týnst og hugsanlega steypst ofan í Jöklu.
"Hvernig flugvél var þetta?" spurði ég. "Einshreyfils háþekja, blá og hvít" sögðu þeir.
"Þá hefur þetta verið ég," svaraði ég, því að ég flaug einmitt yfir hæðina fyrir sunnan stífluna fyrir rúmri klukkustund og lækkaði flugið niður í dalinn þar fyrir innan áður en ég flaug til austurs inn á Vestur-Öræfin og út til Egilsstaða. Það passar við það sem þeir sögðu um að flugvélin hefði horfið á bak við hæð."
Leitin var nú slegin af en til varð þessi vísa um þessa einhverja óvenjulegstu fréttaferð ævi minnar:
Á ofsahraða um illan veg
ók ég, fréttaþyrstur.
Í eigið flugslys æddi ég
og ætlaði að verða fyrstur!
Ætli þetta sé ekki dæmalaust á heimsvísu?!
Tók þátt í leitinni að sjálfri sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Með betri bloggum, takk fyrir.
Páll Jónsson, 26.8.2012 kl. 23:44
Sjaldan hlegið jafn oft að einni bloggfærslu...
P.Valdimar Guðjónsson, 27.8.2012 kl. 00:02
Þessar sögur toppa allt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.8.2012 kl. 00:06
Það var kona sem kölluð var Lína
og kom alla leiðina frá Kína
Hún hætti öllu gjálfri
og hóf leit að sér sjálfri
því henni var hún alveg búin að týna.
leirburður dagsins
Júlíus Valsson, 27.8.2012 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.