Pallbíllinn, - tákn hins ameríska lífsstíls.

Í kjölfar olíukreppu 1973 og aftur 1979 af völdum óróa í Miðausturlöndum tóku Bandaríkjamenn við sér og settu umfangsmikil lög um minni eyðslu og skárri útblástur bifreiða í landinu.

Í kosningabaráttunni 1980 lofaði Ronald Reagan því að með nýtingu nýrra olíulinda í Ameríku skyldu Bandaríkjamenn verða óháðir innflutningi á eldsneyti og varð þetta innistæðulausa loforð einn þáttur í sigri hans yfir Carter ásamt miklum persónutöfrum og kjörþokka.

En ákvæðin um minni eldsneytiseyðslu virkuðu þar til á tíunda áratugnum þegar bílaframleiðendur sáu leið til að komast fram hjá þeim. Það gerðu þeir með því að koma á markaðinn með pallbíla, sem buðu upp á aukin þægindi og voru hluti af ísmeygilegri bílatísku þar sem hugtakið SUV, Sport Utility Vehicla, hreif hugi kaupenda.

Pallbílarnir voru nefnilega undanþegnir þegar tekið var meðaltal af eyðslu bílanna sem verksmiðjurnar framleiddu.

Á þessum árum komu fram ömurlega hannaðir smábílar eins og Ford Pinto, Chevrolet Vega að ekki sé nú talað um AMC Pacer og Gremlin, sem höfðu það hlutverk eitt að draga niður meðaltalseyðsllu þeirra gerða sem féllu undir eyðslu- og mengunarákvæðin.

Ástæðan fyrir því að pallbíllinn var á svipuðum stalli í Ameríku og kýrin í Indlandi var sú að pallbíllinn er tákn hins ameríska draums hagvaxtar, frelsis, framleiðslu og neyslu.

Um aldamótin voru komnir fram pallbílar með ítrustu þægindum, jafnvel pallbíllinn Cadillac Escalade EXT! 

Nú á að reyna aftur það sem Bandaríkjamenn geta vel ef þeir vilja, minnkað eyðsluna og mengunina um helming, en nú átta þeir sig á því að þeir geta ekki undanskilið pallbílana algerlega eins og gert var fyrrum.

Því er drattast til að setja pallbílana inn í reikninga en þeim samt ívilnað mjög. Það sýnir hvað þetta tákn ameríska draumsins er enn á háum stalli.

Í gróðabólunni sem kennd er við 2007 tileinkuðum við Íslendingar okkur ameríska pallbílinn meira en nokkur önnur þjóð utan Ameríku og hann mun setja áberandi svip á bílaflotann okkar á næstu árum, útlendingum mörgum til undrunar.

En svipað hefur svosem gerst áður. Þegar við kepptumst við að eyða stríðsgróðanum sem hraðast á árunum 1946 og 47 komum við okkur upp amerískasta bílaflota heims utan Ameríku.

Á hann gláptu erlendir gestir og þegar ég var í sex vikur í Kaupmannahöfn sumarið 1955 héldu Danir að ég væri að ljúga þegar ég sagði þeim frá hlutföllunum í íslenska bílaflotanum, sem höfðu ekkert breyst frá 1947.


mbl.is Obama vill helmingseyðslu 2025
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Munurinn á bílaframleiðslu USA og Þjóðverja snýst um skattheimtu og hraðatakmörk.

Í Þýskalandi er hámarkshraði hár og eldsneyti dýrt og markaðurinn gerir því kröfur um sparneytna og hraðskreiða bíla. Slíkt er geysileg áskorun fyrir bílaframleiðendur og þessar hörðu kröfur áratugum saman valda því að Þjóðverjar eru skör hærra í sinni bílaframleiðslu en allir aðrir.

Á sama tíma hafa Kanar búið við lágt eldsneytisverð og lágan hámarkshraða -bílarnir bera því glöggt merki og eru almennt ekki keyptir utan heimalandsins nema þá á Bandarískum hernáms/áhrifasvæðum!

Vörugjöld og skattar sem byggjast á útblæstri munu virka sem frekari svipa á framleiðendur um að smíða eldsneytisnýtnari bíla. Þetta sést tam á því að nýjir (aðallega Þýskir)bílar eru gjarnan 6-8 gíra þar sem lækkun á útblásturskatti og aukin hagkvæmni vegur þyngra en hærri framleiðsukostnaður á flóknari gírkössum.

Það er með öðrum orðum lang hagstæðast að stýra umhverfis og mengunarmálum með buddunni í stað regluverks um útblástursmengun sem getur orðið jafn vitlaus og á tímabili í USA þegar á gamaldags blöndungsvélar var sett reimdrifin loftdæla sem pumpaði lofti inn í pústgreinina til að þynna eitraðan útblásturinn... -og kostaði mun meiri bensínnotkun og þ.a.l. meiri mengun...

-Íslenskir jeppakallar aftengdu þessar dælur og notuðu til að dæla lofti í dekkin ;)

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 21:59

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Bruðl hefur því miður oft verið einkenni margra sem vilja slá um sig! Minnisstæð er mér ritdeila í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum þar sem skúffubílakona deildi hart við stjórnarmann Spalar vegna gjaldsins í Hvalfjarðargöngunum. Sú deila fannst mér lágkúruleg og bílakonunni til skammar. Hún gat ekið um á venjulegum fólksbíl í stað skúffubílsins síns sem virtist vera henni sem stöðutákn.

Við sem höfum viljað fara varlega og spara er oft refsað fyrir með því að borga fyrir skussana.

Líklegt er að ofuráhersla Bandaríkjamanna á lúxus og stærri bíla hafi komið þeim í koll með þróun hagkvæmari bíla. Nú er bílaiðnaður þeirra ekki nema svipur hjá sjón, atvinnuleysi í gömlu bílaborginni Detroit orðið mjög alvarlegt og fólk leitar annað.

Ameríski draumurinn snýst upp í andhverfu sína.

Staddur á Smyrlabjörgum í Suðursveit.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 29.8.2012 kl. 07:43

3 identicon

Hér er öllu snúið á haus eins og venjulega. Sparsömustu bílar miðað við þunga og burðargetu eru Amerískir og hafa verið um langan tíma , enda ströngustu reglur þar um að fynna í Bandaríkjunum. Eyðslusóðarnir eru Allir frá Evrópu og Asíu og þar toppa allt Bens og Audi. Sjá bílagreinar  Leós mbl.

Fáir hafa skaðað meir  náttúru Íslands en fyrirmindir ralldellu og utanvegaaksturs. Að ekki hangi líka við þá fyrirmind að óbyggðaflugvallagerð. Ef einhver skuldar afökun þá.

Sem betur fer er ralldellan svotil dauð eftir að íþróttafréttamennskan snéri sér að öðru og merkilegra.

Kári H. Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 09:33

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sparneytnustu bílarnir eru með dísilvélum sem Kaninn vill ekki sjá.

"Miðað við þunga og burðargetu", eins og Kári segir, þýðir það að þriggja tonna amerískur pallbíll með yfir 300 hestafla vél er álitinn hagkvæmastur að mati hans.

Hann telur líka að samtals 10 kílómetrar af merktum og völtuðum melum til nota fyrir flugvélar í óbyggðum, sem hverfa um leið og hætt er að valta þær og merkingarnar teknar, stórskaði náttúru Íslands.

Á sama tíma er allt í lagi að hafa 24 þúsund kílómetra af vegaslóðum í óbyggðum, sem að meiri hluta til er ómögulegt að jafna út af því að þær grafast niður en það gera flugbrautirnar ekki.

Ég hef sem dæmi um þetta birt mynd af brautinni við Veiðivötn þar sem ekki er hægt að sjá neinn mun á melnum, utan og innan brautar, en meðfram brautinni liggur einn af tuga kílómetra slóðum á Veiðivatnasvæðinu, sem hafa grafist hálfan metra niður í gegnum viðkvæman hálendisgróðurinn.

Síðan eru 10 km af algerlega afturkræfum lendingarbrautum lagðar að líku við 2400 sinnum lengri vegaslóða, sem að stórum hluta eru ekki afturkræfar.

Það er í lagi að menn fullyrði eitthvað vegna þess að þeir viti ekki betur. En við menn eins og Kára er vonlaust að sýna fram á staðreyndir málsins í máli og myndum. Hinu ranga er samt haldið áfram og bætt í.

Síðan er fróðlegt að sjá því haldið fram að rallakstur hafi skaðað náttúru Íslands meira en flest annað og því haldið fram og því logið að ég hafi hvatt til utanvegaaksturs eða stundað hann.

Enginn hefur birt fleiri myndir og umfjallanir um skaðsemi utanvegaaksturs en ég en samt vill Kári snúa því öllu á haus.

Ómar Ragnarsson, 29.8.2012 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband