23.9.2012 | 19:36
Heindýr flutt hálft útbyrðis í smáflugvél.
Það er vandaverk að flytja dýr með flugvélum. Af því hef ég tvöfalda reynslu og afar dýrkeypta. Að minnsta kosti er það ekkert grín að fljúga með hreindýr, sem hangir hálft út úr flugvélinni á flugi!
Í fyrra skiptið vildi kona nokkur hafa hund sinn með sér í flugi á TF-FRÚ frá Akureyrarflugvelli. Mér var sagt að tryggilega væri gengið frá því að hundurinn gerði neitt af sér, dýralæknir hefði deyft hann vel og hann yrði bundinn með sérstöku bandi niður í aftursætinu við hlið konunnar.
Hundurinn var sem dauður væri þegar flugtak hófst en um leið og flugvélin lyftist frá jörðu lifnaði hann svo hressilega við að ekkert varð við hann ráðið. Hann urraði og gelti eins og óður væri og auðséð var að hann myndi losa sig úr viðjum, auk þess sem hann réðist að eiganda sínum á þann hátt að ég tók krappa beygju og lenti hið snarasta.
Um leið og ég hafði gert það lak hundurinn niður og lá á ný sem dauður væri. Heimtaði konan þá að ég reyndi aftur en ég hafði fengið nóg og vísaði þeim úr vélinni. Ákvað að fljúga aldrei aftur með rándýr á borð við hund og hef staðið við það.
1986 var ég beðinn um að fljúga með hreindýr frá Reykjavík til Djúpavogs, sem hafði verið á 200 ára afmælissýningu í Reykjavík. Þetta var ekki rándýr, heldur afar meinlaust og gæft dýr, sem hafði verið allra eftirlæti á sýningunni, og hefði ekki verð sýnt þar nema vegna þess að ég lét til leiðast að fljúga með það aðra leiðina.
Vélin var TF-HOF, minnsta gerð af tveggja hreyfla með finm sæti sem ég átti þá, og voru öll farþegasætin tekin úr vélinni svo dýrið kæmist fyrir.
Hreindýrið var deyft og lagt niður á gólfið, sett í poka, og bundið svo kyrfilega að þæð gæti með engu móti gert óskunda.
En annað kom á daginn. Yfir sunnanverðum Vatnajökli fór dýrið að sprikla og á einhvern óútskýranlegan hátt, tókst því að krækja klauf á öðrum fætinum í innri hluta húrs á farangurslúgu aftast í vélinni, þannig að lúgan opnaðist og dýrið fór smám saman að þrýstast út um lúguna, enda spriklaði æ ákafar eftir því sem stærri hluti þess fór útbyrðis.
Þetta gat varla gerst á verri stað, því að alllangt var að fljúga inn á næsta flugvöll, sem var Fagurhólsmýri. Ég varð skelkaður vegna þess að flugvélin lét illa vegna þess að iðukastið af hreindýrinu truflaði loftflæðið yfir stjórnfletina á stélinu.
Á leiðinni til Fagurhólsmýrar flaug ég meðfram þjóðveginum og framhjá bæjunum Kvískerjum og Hnappavöllum, og má ímynda sér hvernig fólkinu á jörðu niðri varð við þegar það sá flugvél fljúga framhjá með hálft hreindýr hangandi út úr vélinni!
Léttir minn var mikill þegar hent var heilu og höldu, hert á bindingum dýrsins og þannig gengið frá farangurslúgunni að ekki væri nokkur möguleiki á að hún hrykki aftur upp.
Ég var þeirri stund fegnastur þegar hreindýrið var komið út úr vélinni á Djúpavogi og hef staðið við þann dýra eið sem ég sór sjálfum mér þá, að flúga aldrei framar með dýr eftir reynslu sem svo sannarlega var dýr.
Ljón flutt með flugvél | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvaða óheppni er þetta! Var samferða hundi um daginn í lítilli vél, og enga þurfti deyfinguna. Tek þó fram að hundurinn var frá mér ættaður og alinn upp við flug.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 23.9.2012 kl. 21:26
Þetta er fyndið, núna!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.9.2012 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.