Stærðin skiptir ekki alltaf öllu máli.

Fyrir tæpum 40 árum átti ég þess kost að fara með Agnari Koefoe-Hansen þáverandi flugmálastjóra, Inga Tryggvasyni, formanni samgöngunefndar Alþingis og fleirum í kynnisferð frá Osló norður eftir öllum Noregi með vélum Viderö flugfélagsins til þess að kynnast norsku innanlandsflugi.

Viderö notaði þá De Havilland Twin Otter vélar til þess að þjóna landsbyggðinni.

Þetta var mjög lærdómsrík ferð og í framhaldinu tók við malbikun flugbrauta á Íslandi með fyrirmynd í Noregi og innreið Twin Otter véla, en þegar sú vél kom fyrst á markað næstum áratug fyrr hafði ég hrifist mjög af þessum vélum en fengið þau svör hjá ýmsum, að þær ættu ekki erindi til Íslands.

Annað kom á daginn.

Það er ánægjulegt að heyra að Viderö hefur verið valið besta flugfélag Evrópu og rímar vel við þá þjónustulund, lagni og ástríðufulla ást á fluginu sem mátti skynja þar fyrir 40 árum og virðist lifa góðu lífi nú.  


mbl.is Widerøe besta flugfélag Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Agnar Kofoed Hansen, sá merki maður, lærði til innanlandsflugs hjá Arild Wideröe þegar hann stóð fyrir endurreisn flugs á Íslandi árið 1937. Wideröe byggir á langri hefð og reynslu í flugi, líkt og komin er á hérlendis. Otterinn var burðarásinn í þeirra flugi um langt árabil.

deHavilland Twin Otter nýtur mikillar virðingar í flugheiminum, og er elskuð jafnt af flugmönnum og flugvirkjum fyrir góða flugeiginleika og frábæra hönnun. Framleiðslu hennar var hætt á tímabili, en þar sem engin flugvél gat leyst hana af hólmi í sínum geira, var framleiðsla hafin á ný og gengur vel.

Tegundin nálgast nú fimmtugt og ber aldurinn vel. Ljóst er að hún mun fljúga í áratugi í viðbót.

Hér á landi hefur Otterinn verið notaður í ca. 40 ár, af flugfélaginu Vængjum, Flugfélagi Norðurlands og Örnum. Nú rekur Norlandair þrjár slíkar vélar. Einkum hefur hann verið notaður í innanlandsflugi á minni staði. En hlutverki hans á Grænlandi í rekstri íslenskra flugfélaga, hafa verið gerð allt of lítil skil. Þar hefur verið flogið með allt frá sleðahundum upp í drottningar, og miklar tekjur skapast af grænlandsflugi á Twin Otter fyrir íslenskt samfélag.

jói (IP-tala skráð) 23.9.2012 kl. 11:46

2 Smámynd: Hvumpinn

Þetta er nú allt gott og blessað um Wideröe.  En fréttin er röng í ákveðnum atriðum, á heimasíðu Wideröe segir:
"Widerøe is awarded European Airline of the Year 2012 by the ERA (European Regions Airline Association). The ERA Airline of the Year Award was established in 1991 and aims to recognize excellence and achievements of intra-European airlines. The price is awarded every year on the base of quality, economy and position of the airline."

Þetta eru semsagt verðlaun samtaka "Regions Airlines", smærri flugfélaga sem veita dreifbýlisþjónustu (eins og Flugfélag Íslands á Íslandi).  Þannig að þetta er nú á aðeins smærri skala en blessaður blaðamaðurinn á mbl.is les þetta.  En svona er mbl í dag.

Hvumpinn, 23.9.2012 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband