31.10.2012 | 19:54
Hið vandmeðfarna hlutleysi.
Sagan geymir ýmis dæmi þess hve vandasamt það hefur oft verið fyrir svonefndar hlutlausar þjóðir að fóta sig í alþjóðlegum viðskiptum. Þá geta ýmis tæknileg formsatriði skipt meira máli en raunveruleg staða viðkomandi þjóðar.
Gott dæmi um þetta er staða Bandaríkjanna fram til 7. desember 1941. Strax árið 1938 var andúð Roosevelts Bandaríkjaforseta á stjórnarfari og athöfnum Hitlers og Mussolini augljós. Hann þreifaði á upphandleggsvöðva Joe Louis í júní 1938 fyrir bardaga hans og Þjóðverjans Max Scmelings og sagði: "Lýðræðið þarf á þessum vöðvum að halda."
Hann reitti Hitler til reiði strax það ár með því að senda honum áskorun um yfirlýsingu Þjóðverja um að lofa því ekki að ráðast á tiltekin ríki, sem talin voru upp á löngum lista.
Á YouTube má sjá Hitler sýna á sér óvenjulega hlið þegar hann dregur bréf Roosevelts sundur og saman í háði fyrir framan hlæjandi Ríkisdagsþingmenn. Áður en yfir lauk átti hann þó eftir að ráðast á meirihluta þessara ríkja.
Um leið og Roosevelt hafði verið endurkjörinn í nóvember 1940 jók hann aðstoð við Breta jafnt og þétt og á YouTube má heyra ræðu Hitlers 11. desember 1941 þegar hann telur upp allt það sem hann taldi Roosevelt hafa gert á hlut Þjóðverja til þess eins að egna til stríðs.
Herseta Íslands frá júlí 1941 hafi Roosevelt talið leiða örugglega til stríðs, en samt hafi Þjóðverjar stillt sig.
Formsatriðin skipta máli. Þannig lögðu Þjóðverjar mikla áherslu á að ná norsku konungsfjölskyldunni og ríkisstjórninni á sitt vald 9. apríl 1940 eins og dönsku konungsfjölskyldunni og ríkisstjórn Danmerkur þann sama dag.
En herskipinu Blucher var sökkt í Oslófirði og norskir ráðamenn sluppu úr landi. Þess vegna lentu Norðmenn í stríði við Þjóðverja en Danir ekki.
Bretar og Frakkar reyndu að koma því svo fyrir í "Operation Wilfred" og "Plan R 4" fyrr um veturinn að þeir hertækju með leifturhraða Narvik, járngrýtissvæðin og járnbrautarflutningaleiðina í Svíþjóð, og að þessar þjóðir sættu sig við þetta sem "fait accompli", gerðan hlut.
Áður höfðu þeir reynt að ná samningum við Norðmenn og Svía um að fá að flytja herlið þarna í gegn til að hjálpa Finnum og að þannig væri hægt að réttlæta þessa aðgerð, að hún væri til hjálpar þjóð, sem ráðist hefði verið á.
Þessu höfnuðu Norðmenn og Svíar og þegar Finnar gáfust upp í mars riðlaðist áætlunin og daginn eftir að sá hluti Wilfredsáætlunarinnar var framkvæmdur að leggja tundurdufl í siglingaleiðina frá Narvik, hernámu Þjóðverjar bæði Danmörku og Noreg.
Í Nurnbergréttarhöldunum var réttlætingu Þjóðverja á hernáminu hafnað og hún sögð hafa verið ástæðulaus. Það finnst mér afar hæpinn úrskurður í ljósi þess sem allir aðilar aðhöfðust og bar augljós merki kapphlaups.
Eftir hernámið réðu Þjóðverjar yfir öllum flutningaleiðum Svía til og frá landinu og þvinguðu þá til að leyfa flutning alls 2,1 milljónar þýskra hermanna frá Narvik yfir á austurvígstöðvarnar. Sættu Svíar ámæli fyrir þetta sem hlutlaus þjóð, en þeim var vorkunn, áttu annars von á því að Þjóðverjar hertækju þessa flutningaleið, rétt eins og Bretar og Frakkar höfðu ráðgert á sínumtíma, en hrakist frá.
Þess má geta að formlega séð gat það verið varasamt að íslenska ríkisstjórnin mótmælti formlega hernámi Breta 10. maí 1940. Ef Þjóðverjar hefðu gert alvöru úr því að ráðast á landið um haustið til að taka það af Bretum hefðu þeir geta réttlætt það með því að segjast vera að koma Íslendingum til hjálpar.
Upplýst hefur verið að á árum Kalda stríðsins voru Svíar þrátt fyrir hlutleysi sitt í leynilegu sambandi og samvinnu við herstjórn NATO vegna varna landsins, en á hinn bóginn urðu Finnar að makka rétt við Sovétmenn og sæta svonefndri "Finnlandiseringu" sem varð alþjóðlegt hugtak yfir hlutlausar þjóðir sem í raun geta ekki framfylgt hlutleysi sínu þótt þeir geri það formlega.
Það ástand að hinar hlutlausu þjóðir Svíþjóð og Finnland sinni senn loftrýmiseftirliti yfir NATO-landinu Íslandi er dæmi um svipað og þegar hin hlutlausu Bandaríki settu hér her á land í júlí 1941 án þess að teljast rjúfa hlutleysi sitt, og þegar hin hlutlausa Svíþjóð var í leynilegu sambandi og samvinnu við herstjórn NATO á árum Kalda stríðsins.
Þörf á loftrýmiseftirliti umdeild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Þó að Svíþjóð hafi opinberlega verið hlutlaus á dögum kalda stríðsins sýna sagnfræðilegar rannsóknir á vegum sænskra stjórnvalda á tíunda áratug síðustu aldar að Svíþjóð átti náin tengsl við mörg bandalagsríki NATO í kalda stríðinu.
Sænskir embættismenn töldu sig hafa fullvissu fyrir því, næstum frá því á upphafsdögum NATO, að ef ráðist yrði á landið hefðu þeir haldbærar öryggistryggingar frá sumum bandalagsríkjunum.
Í þeim skilningi má því segja að Svíþjóð hafi alls ekki verið hlutlaust ríki. Og það hefur lengi unnið í kyrrþey með bandalagsríkjum NATO að ýmsum sameiginlegum öryggismálum."
Saga NATO
Þorsteinn Briem, 31.10.2012 kl. 22:29
11.5.1994:
"Svíþjóð og Finnland hafa nú undirritað samning um aðild að Friðarsamstarfi NATO. Þar með eru aðildarlöndin að samstarfinu orðin sautján.
Þó erlendis sé aðild Svía túlkuð sem endalok hlutleysisstefnunnar er ekki á slíkt minnst heima fyrir.
Við undirritunina sagði Margaretha af Ugglas, utanríkisráðherra Svía, að hugmynd um friðarsveitir gerði friðarsamstarfið sérlega eftirsóknarvert fyrir Svía."
9.6.2009: Finland and NATO sign agreement on defence technology
Þorsteinn Briem, 31.10.2012 kl. 22:35
Í athugasemdum dönsku nefndarmannanna um Sambandslagasamninginn 1918 segir meðal annars:
"Ísland myndi samkvæmt þessu verða frjálst og sjálfstætt land [...] og þannig eins og Danmörk sérstakt ríki með fullræði yfir öllum málum sínum [...]"
Og í athugasemdum dönsku og íslensku nefndarmannanna um samninginn segir meðal annars:
"Um 6. gr. Sjálfstæði landanna hefur í för með sér sjálfstæðan ríkisborgararétt."
"Um 19. gr. Yfirlýsing Íslands um ævarandi hlutleysi hvílir á því að samkvæmt eðli þessara sambandslaga getur annað landið verið hlutlaust þó að hitt lendi í ófriði."
Þorsteinn Briem, 31.10.2012 kl. 22:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.