12.11.2012 | 08:42
Jólin löngu komin - og liðin hjá?
Allt frá því í september hafa dunið auglýsingar yfir landsmönnum þess efnis að "jólin komi" á ákveðnum stöðum, til dæmis á ákveðnum tónleikum. Eða að jólin komi alls ekki nema á viðkomandi tónleikum, það verði engin jól hjá þér nema þú farir fyrst á þessa eða hina tónleikana.
Í október var bætt í. Síðan þá hafa dunið daglega í eyrum auglýsingar um að jólin séu komin á hinum og þessum verslunarstöðum. "Jólin eru komin í ...."er það sem blífur.
Jólin koma greinilega ekki lengur á heimilum fólks eða í hugum þess. Nei, þau koma í þessari versluninni eða hinni, eru reyndar þegar komin og sums staðar fyrir nokkrum vikum.
Og þá er spurningin: Eru jólin þá ekki komin og farin, - liðin hjá? Eða eru engin takmörk fyrir auglýsingamennskunni þar sem Jesúbarnið er horfið og "jólatraffíkin" orðin aðalatriðið, allt frá því í september?
Íslensk tónlist jólagjöfin í ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já, Ómar. Þetta auglýsingaskrum er komið út í algjörar öfgar. Undanfarna daga hefur mér einnig orðið hugsað í þessa veru sem þú reifar hér. Ekkert hefur samt heyrst í kirkjustofnunum eða biskupsstofu um þessi mál. Þaðan mættu samt gjarnan koma athugasemdir um það að að minnsta kosti kristin jól í tilefni fæðingar Jesúbarnsins sem þú minnist á hefjist formlega ekki fyrr en kl. 18:00 á aðfangadag og kirkjuklukkur látnar hringja þau inn stundvíslega þá, 24. desember. Formlegur undirbúningur jólanna, jólafastan eða aðventan, hefjist hins vegar fyrsta sunnudag í aðventu kringum mánaðarmótin nóvember-desember. Það eru því einhver önnur jól sem fyrirtæki, verslanir eða aðrir veraldlegir aðilar hamast við að auglýsa þessa daga löngu fyrir aðfangadag. Það eru "jól" verslunarinnar. Þar virðist, eðli málsins samkvæmt, meira hugað að því að selja hvers kyns varning og þjónustu fremur en leggja áherslu á þann huglæga tilgang með jólagjöfum sem gjarnan ætti að vera ríkjandi í hugum gefenda þeirra. Sá göfugi tilgangur kærleika manna í millum og andagtar krefst ekki einhvers lágmarks verðs á varningi úr búðum.
Kristinn Snævar Jónsson, 12.11.2012 kl. 10:29
Ég viðurkenni fúslega að fyrir þjóð, sem þarf að þreyja svart skammdegi og umhleypingasamt veður er það gott fyrir andlega heilsu að gera sér dagamun og hleypa lífi, birtu og yl inn í tilveruna.
En kapphlaupið um að geta fyrstur auglýst: "Jólin eru komin í Byko" eða hvar það nú er, er næstum brjóstumkennanlegt og stuðlar að því að fletja svo út þessa hátíð, að hún verði að langvarandi, innihaldslitlu og hugmyndasnauðu sölustreði, sem nálgast áþján. .
Ómar Ragnarsson, 12.11.2012 kl. 10:44
Sammála því að auglýsingaskrumið er algjört. En þessi hátíð ljóss og lita kemur á hárréttum tíma, þetta er líka hátíð þeirra sem ekki eru kristnir, þetta er einmitt sá tími þegar hænan snýr sér við og fer að skrefa aftur inn í ljós og birtu sumarsins. Það tekur enginn frá okkur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2012 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.