Rímar við umsagnir erlendra sérfræðinga.

Niðurstaða sérfræðingahópsins, sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðs, er að gera nær engar efnislegar breytingar við frumvarpið en lagfæra orðalag og gera svonefndar "lagatæknilegar" tillögur.

Eina umtalsverða efnislega breytingin er varðandi þjóðkirkjuákvæðið og er á þann sjálfsagða veg að fara eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og leggja til að núverandi þjóðkirkjuákvæði haldi sér.

Ég stóð heilshugar að þeirri útfærslu, sem var í frumvarpi okkar og hef ekki skipt persónulega um skoðun á því.

En ég stóð líka heilshugar að þeim ákvæðum um beint lýðræði, sem eru ein af meginstoðum umbótanna, sem frumvarpið ilmar af. Það má því segja, að í lyktum þjóðkirkjuákvæðisins felist kannski fyrsta dæmið um það að meirihluti kjósenda hafni ákveðnu atriði í lagasetningu, og sem unnandi aukins og beinna lýðræðis sætti ég mig við þann dóm.

Sumir kunna að segja, að sérfræðinganefndin hefði átt að umorða þjóðkirkjugreinina í samræmi við nýjar aðstæður frá því 1874, þegar þjóðkirkjan var eini trúarhópur landsins sem var "evangelisk lútersk".

Slíkt verk gæti orðið erfitt og umdeilanlegt og því er hugsanlegra hreinna, eins og var að heyra í Speglinum áðan, að láta bara núverandi grein halda sér.   

Þeir erlendu sérfræðingar um stjórnarskrár, sem hafa kynnt sér nýju stjórnarskrána, hafa gefið henni góða einkunn. Stór hluti nýmæla í nýju stjórnarskránni eru líka til orðin eftir yfirferð yfir það besta, sem stjórnarskrár annarra ríkja hafa fram að færa og hefur verið "álagsprófað" þar.

Það er því ekki óeðlilegt að sérfræðinganefndin íslenska færi ekki fram tillögur umtalsverðar breytingar á frumvarpinu ef þjóðkirkjuákvæðið er undanskilið.

Á fyrsta fundinum í fundaröð Háskóla Íslands völdust frummælendur sem helst hafa gagnrýnt stjórnarskrána. Það hefur vakið athygli mína að svo virðist sem fjölmiðlar og aðrir hafi ekki áhuga á að heyra álit önnur en þau sem geta skapað hasar.

Þannig mun Ragnhildur Helgadóttir til dæmis vera sá fræðimaður í stjórnskipunarrétti sem best er menntuð, en aldrei virðist talað við hana. Svanur Kristjánsson er ekki heldur kallaður til til þess að efla skoðanaskipti.

Á þessum fundi skein glögglega í gegn sú undirrót gagnrýni frummælendanna og var raunar sögð berum orðum, að þeir sjálfir hefðu átt að vera kallaðir til verksins en ekki Þjóðfundurinn, stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð.

Mætti tína til mörg atriði sem voru beinlínis röng hjá þeim, svo sem að aðeins einn stjórnmálafræðingur hefði verið kallaður til við verkið. Voru þó nokkrir stjórnmálafræðingar í ráðinu, en þeir greinilega ekki taldir standast kröfur elítunnar.

Þeir rökkuðu allt ferli aðdragandans niður og svo er að sjá að ferlið sé aðalatriðið í þeirra huga fremur en stjórnarskráin sjálf


mbl.is Lítið um efnislegar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á mbl.is er vitnað í Valgerði Bjarnadóttur sem segir:

"Hópurinn heldur sig innan þess umboðs sem þau fengu, heldur sig við grundvöll Stjórnlagaráðsins og efnisatriði tillagna þess".

Á vísi.is er haft eftir Birgi Ármannssyni: "Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í nefndinni, segir að sérfræðingahópurinn hafi starfað eftir þröngu umboði meirihlutans í nefndinni. Hópurinn hafi hins vegar lagt fram athugasemdir við frumvarpið í sérstöku skilabréfi".

Er ekki full snemmt að fagna traustsyfirlýsingunni?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 19:52

2 identicon

Þakka skildi að þetta er ekki alvitlaust enda búið að eyða í þetta hátt i 2 milljörðum

en hvað bætir þetta lífskjör almennings

styttast raðirnar við mæðrastyrksnefnd og fjölskylduhjálpina

vær ekki nær fyrir stjórnvöld að sinna þeim málefnum

sæmundur (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 22:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var búið að gefa það í skyn af gagnrýnendum frumvarpsins að greinar þess og kaflar stæðust ekki innbyrðis, það myndi ekki standast lagatæknilegt álagspróf o. s. frv.

Ekki voru þó nefnd nein dæmi um það nema hvað það var fullyrt að landsbyggðarþingmönnum gæti fækkað niður í ellefu, sem var alrangt, vegna þess að að ákvæði var um að hverju landsbyggðarkjördæmi væru tryggð að minnsta kosti nógu mörg þingsæti til þess að tala kjósenda að baki hverju þeirra væri ekki lægri en meðaltalið á bak við öll 63 þingsætin.

Sérfræðinganefndin hafði fullt umboð til þess að finna lagatæknilega vankanta og leggja til úrbætur. Gagnrýnendurnir töluðu um stórvægilega ágalla í þessu efni sem hefðu þau efnislegu áhrif að frumvarpið væri ónýtt en sérfræðinganefndin fann ekkert slíkt.

Ómar Ragnarsson, 12.11.2012 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband