6.12.2012 | 20:38
Áhugaverð umræða um eftirnöfn.
Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að taka ætti upp þann sið á Íslandi að hver manneskja kenni sig við móður en ekki föður. Rökin fyrir því eru einkum tvenns konar: Annars vegar praktist rök varðandi það að móðerni er eðli máls samkvæmt miklu ótvíræðara en faðerni og þrátt fyrir DNA tæknina er hún aðeins notuð í örfáum undantekningartilfellum til að gulltryggja faðernið.
Hin rökin hafa snúið að því að það sé merki um hið gamla karlaveldissamfélag að kenna börn aðeins til föður og lykti af karlrembu.
Nýlega viðraði ég þessi rök við vin minn og heyrði þá gagnrök frá honum sem ég hafði ekki heyrt áður, sem sé þau, að föðurnafnasiðurinn sé réttlætanlegur til þess að vega upp á þeim forréttindum, sem það er fyrir lífsfyllingu og hamingju kvenna að mega njóta líkamlegra yfirburða sinna gagnvart því að ganga með börn og ala þau á brjósti.
Þegar ég kom fram með gagnrök varðandi það yfirgengilega misrétti sem konur heimsins mega þola varðandi kjör, tekjur, menntun, eignir, völd og stöðu haggaði það ekki skoðun vinar míns.
Og raunar má færa að því rök að kjaramunur og stöðumunur kynjanna sé sérstakt viðfangsefni sem eigi að takast á við án þess að blanda því saman við atriðið eins og nafngiftir.
Oft er gott að heyra sem fjölbreyttust sjónarmið í rökræðum af þessu tagi og gaman væri að vita hvað lesendum þessarar bloggsíðu finnst.
Eins og er ríkir jafnrétti að lögum um það hvort fólk er kennt við móður eða föður og kannski er það nóg. Samt finnst mér enn að það megi vel breyta núverandi sið.
Fyrstur til að taka eftirnafn konunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar Jónínuson hljómar ekkert illa; http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/349553/
Þetta er frekar valfrjálst hérlendis skv. mannanafnalögum (nr. 45/1996, 8. og 9. gr.). Að kenna sig við föður er hins vegar rótgrónara í menningunni. Kannski breytist það með tímanum.
Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.12.2012 kl. 21:32
Til gamans má geta að fyrir nokkrum árum (kannski 30 árum eða eitthvað) var lögum breytt í Færeyjum. Þar gilti lengst af ættarnafnahefð. Svo var lögum breytt í átt að íslenskum lögum. Í dag þurfa færeysk börn ekki að bera ættarnafn heldur geta þau verið kennd við föðurnafn. Ég veit ekki hvort færeysk börn mega vera kennd við móðurnafn. Ég hef að minnsta kosti aldrei séð nafn á Færeyingi kenndum við móður sína.
Það er pólitísk yfirlýsing í Færeyjum hvort barn ber ættarnafn eða föðurnafn. Þeir sem aðhyllast danska sambandsríkið halda sig við ættarnafnið. Þeir sem aðhyllast aðskilnað frá Danmörku kenna sig við föður. Eivör er til að mynda Pálsdóttir. Þá vitum við að foreldrar hennar (og hún sjálf) eru aðskilnaðarsinnar (loysing, eins og það heitir á færeysku).
Jens Guð, 6.12.2012 kl. 23:01
Hér á Íslandi skiptir kennitala manna miklu meira máli en nöfn þeirra. Þannig hef ég síðastliðna tvo áratugi aldrei verið spurður að því hérlendis hvað ég heiti.
Afgreiðslufólk gónir á tölvuskjáinn og spyr: "Hvað er kennitalan þín?" En aldrei: "Hver er kennitalan þín?"
Þannig getur maður sem skírður hefur verið Jónas sagt að hann heiti Guðmundur án þess að það valdi honum nokkrum vandræðum.
Og prestar hér munu áreiðanlega spyrja við hjónavígslur: "Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga kennitölu þá sem hjá þér stendur?"
Þorsteinn Briem, 6.12.2012 kl. 23:59
Mér finnst það góð hefð að nota föðurnafnið því það ítir undir ábyrgðartilfinningu hjá föðurnum. Einmitt vegna þess að það er mikið ótvíræðara hver er faðir barnsins. Þá er þó allavega búið að merkja barnið einhverjum föður. Ef hefðin væri á hin veginn gengi það eiginlega gegn jafnréttinu því þá hefði faðirinn enn minni tengingu við barnið.
Smári (IP-tala skráð) 7.12.2012 kl. 14:26
Einhverju sinni deildu þjóðkunnir menn um ætterni sitt og töldu sig báð vera komna frá síðustu byskupunum í Skálholt. Fullyrti annar maðurinn að hann væri kominn í beinan karllegg en hinn gegnum kvenlegginn þannig að hann væri göfugri. Hinn maðurinn var Jón Þorláksson verkfræðingur og síðar þingmaður og ráðherra. Taldi hann að þó svo karllegurinn þætti eitthvað fínni þá væri kvenleggurinn öruggari! Að svo búnu varð hinn maðurinn sem ekki verður nafngreindur kjaftstopp.
Jón var sagður hafa verið óvenjuorðheppinn og farsæll í sínu starfi.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 7.12.2012 kl. 22:06
Enginn telst Gyðingur nema móðurleggurinn sé öruggur.
En...í dag er ekkert mál að staðfesta með DNA. Nema að mannalæknar séu komnir langt afturfyrir hrossaræktendur....
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.