19.12.2012 | 13:54
Þegar virkjanirnar áttu að "bjarga öllu."
Á níunda áratugnum var það eitt heitasta landsmálið að fara í Blönduvirkjun til þess "að bjarga byggðunum." Um svipað leyti var því haldið fram að reisa yrði álver í Eyjafirði til að "bjarga Akureyri" og hertist sá söngur mikið þegar markaður fyrir norðlenskar iðnaðarvörur hrundi með falli Sovétríkjanna.
Röksemdirnar, sem voru notaðar, voru þær sömu og enn eru notaðar, meðal annars vegna virkjana í Skaftárhreppi og víðar í Suðurkjördæmi: "Við þurfum mannaflsfrekar framkvæmdir" til þess að "bjarga byggðunum."
Bæði nú og þá er þess ekki getið að enda þótt hinar "mannaflsfreku framkvæmdir" skapi þúsundir starfa á meðan á framkvæmdum stendur, verða jafn mörg þúsund atvinnulausir þegar framkvæmdunum lýkur.
Þetta máttu virkjanasinnarnir á Norðvesturlandi ekki heyra nefnt á sínum tíma og svo mikið þótt liggja við um að virkja Blöndu að því var hafnað að hafa lónið af skaplegri stærð, heldur ákveðið að hafa það sem allra stærst og með sem mestum umhverfisspjöllum.
Rétt var það, að í nokkur ár virkaði þessi "skómigustefna", eins og ég kalla hana, fyrir norðan. Ótrúlegustu menn keyptu sér vörubíla og reyndu að sjálfsögðu að hagnast eins mikið á hinum "mannaflsfreku framkvæmdum" og hægt var. Það var bara eðlilegt.
En hitt gleymdist að á meðan þetta ástand varaði hafði það ruðningsáhrif sem stöðvaði alla framþróun á öðrum sviðum, því að allir voru svo uppteknir við að spila virkjunarspilið.
Þegar frá leið hafði þetta neikvæð áhrif eins og linnulaus fólksfækkun ber vitni um.
Álverið í Eyjafirði kom aldrei og ætla hefði mátt að þar með rættist spáin um að Akureyri yrði búin að vera.
En í staðinn fyrir að fá "skaffað" álver til þess að "bjarga Akureyri" leituðu menn á önnur mið, meðal annars með því að stofna háskóla.
Þrátt fyrir allan sönginnn um að Norðausturlandi yrði ekki bjargað nema með álverum og virkjunum og þrátt fyrir það að þetta "bjargráð" vantaði þar, kom í ljós í Hruninu að þetta svæði var eina svæðið úti á landi þar sem ekki varð fólksfækkun.
Nú syngja sumir þingmenn Suðurkjördæmis sönginn um "mannaflsfrekar framkvæmdir" sem einar geti "bjargað byggðunum" í kjördæminu.
Þeim væri hollt að íhuga hvaða árangur þessi stefna færði íbúum á Norðvesturlandi og hvaða ráð það voru sem "björguðu Akureyri" eftir að "mannaflsfrekar framkvæmdir" vegna álvers og virkjana duttu upp fyrir og menn héldu að nú væri allt glatað.
Vilja efla atvinnulíf á Norðurlandi vestra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Álversumræðunni í Eyjafirði skaut upp í kjölfar samdráttar ca 1980 og varð til þess að framlengja Eyjafjarðarkreppuna vel fram yfir 1990.
Álverstalið drap nýsköpun í dróma, einstaklingar og fyrirtæki héldu að sér höndum og biðu eftir patentlauninni.
Það var mikil lyftistöng þegar bæjarstjórn Sjalla lýsti því yfir að þeir væru ekki á höttunum á eftir álveri í Eyjafjörðinn -menn gátu þá einhent sér að "einhverju öðru" (eins og að verða gjaldþrota í verkefnum við Kárahnúkavirkjun (Slipptöðin og Arnarfel)).
Þetta hefur gengið eftir og Akureyri og Eyjafjöður er sá hluti landsbyggðarinnar sem heldur sjó með fjölþættara atvinnulífi en annarstaðar.
Sýnist að Húsvík þjáist nú af sömu áldrómasýki og þjáði Akureyringa á níunda áratugnum.
Þar verður aldrei byggt álver og ein kísilbræðsla mun setja sveitarfélagið á hausinn vegna dýrrar hafnargerðar og ónógra hafnargjalda af slíkri starfsemi.
-Þeir binda þvi vonir við það að fá tvær kísilfabrikkur til að vega upp óhagkvæmni hafnar.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 19.12.2012 kl. 14:27
hVAÐ MEÐ - AÐ SETJA UPP FLEIRI REFABÚ- FRAMLEIÐA MEIRA AF ÞVÍ SEM LANDIÐ HEFUR- EINS OG HVEITI- ALLSKONAR VISTVÆN MATVÆLI ? EN - NEI- ÞAR FÁ ÞINGMENN EKKI MILJÓNIR FYRIR MILLIGÖNGU UM FRAMSAL AUÐLINDA OKKAR !!
Erla Magna Alexandersdóttir, 19.12.2012 kl. 19:04
Já, er ekki nálægt því alveg öruggt að við munum fæða gervalla heimsbyggðina með hveitirækt á næstu áratugum? Fylgir það ekki hækkandi hitastigi? Verst að þá fækkar þeim sem munu kaupa loðfeldi.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 19.12.2012 kl. 19:27
Þetta er að verða rosalega þreytt hjá þér Ómar að ráðast stanslaust á eina starfstétt í landinu.
Marteinn Sigurþór Arilíusson, 19.12.2012 kl. 20:24
Þessi stjórnmálastefna að bæta atvinnuástandið með fjölgun álvera minnir óneitanlega á tíma Stalíns. Þeir sem eru á móti eru þaggaðir niður.
Hefi einu sinni þurft að fara inn í álver vegna starfa sem leiðsögumaður. Ekki fannst mér það góður vinnustaður. Afhenta þurfti skilríki með segulröndum eins og kreditkort því segulsvið í þessu bræðsluvíti var það sterkt, að eyddi öllu. Fyrst etta sterka segulsvið eyðileggur kreditkort, hvernig fer það með heilsufarið?
Sennilega hafa engar rannsóknir farið fram á þessu sviði enda yrði niðurstaðan ekki hvetjandi til að byggja fleiri svona stassjónir.
Góðir stundir en helst án álvera.
Guðjón Sigþór Jensson, 20.12.2012 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.