Jókst harkan smám saman?

Þá fjóra vetur sem ég var í M.R. var svonefndur Gangaslagur, ein af mörgum gömlum hefðum skólans, árlegur viðburður.

Gangaslagurinn minnti um sumt á bandaríska ruðninginn hvað snerti aðgangshörku þeirra, sem áttust við, sjöttu bekkinga annars vegar og neðri bekkinga hins vegar. En þrátt fyrir þetta eðli þessa fyrirbæris minnist ég þess ekki að í neitt skipti hafi menn meitt sig svo umtalsvert væri, né heldur að sýnst hafi hætta á því.

Og ekki heyrði maður að orðið hefðu slys í slagnum áratugina á undan.

Þátttaka í Gangaslag var engin skylda og flestir voru í raun áhorfendur eða gættu sín vel. Maður skipaði sér framarlega eða aftarlega eftir eigin vali og bar sjálfur ábyrgð á því.

Þegar lesin er lýsing á Gangaslagnum 2009 sýnist mér í fljótu bragði að miklu meiri harka og áhætta hafi verið tekin í honum en var á minni tíð.

Þá vaknar spurningin hvort þetta hafi verið að gerast smátt og smátt ár frá ári eða hvort þetta fór allt í einu úr böndunum 2009.  Þeirri spurningu geta þeir einir nemendur svarað sem voru í skólanum á árunum 2006-2009.

Á minni tíð voru kennarar og yfirstjórnendur ekkert að skipta sér af Gangaslagnum, enda óhægt um vik vegna þrengslanna í stigaganginum. Ég held varla að breyting hafi orðið á því.

Eftir atvikið 2009 skilst mér að Gangaslagurinn hafi verið lagður niður. Gallinn við hann hefur sennilega verið sá að ekki voru nógu nákvæmar reglur um fjölda þátttakenda og leyfilega hegðun hvers og eins.

Að minnsta kosti var þetta ekki þannig þegar ég var í skólanum heldur bjargaðist þetta alltaf á þann hátt að þátttakendur voru meðvitaðir um að það væru takmörk fyrir hörkunni, þótt engar reglur giltu þar að lútandi.

Ég játa að í minningunni var Gangaslagurinn ein af mörgum skemmtilegum og hressandi "tradisjónum" skólans sem gerði skólavistina ánægjulegri og eftirminnilegri.

Nú er hann úr sögunni og verður líklega ekki hægt að endurvekja hann, ekki einu sinni með því að setja um hann strangar og ítarlegar reglur. Þá er bara að taka því.

P. S. Mér var send ábending í athugasemd hér fyrir neðan þess efnis að nokkur alvarleg slys hefðu orðið árin á undan, m. a. 2005 og 2006. Miðað við það sem var hér áður fyrr er sennilegt að harkan hafi verið að aukast smám saman og ef til vill án þess að tekið væri eftir, eins og oft vill verða þegar hlutir breytast mjög hægt á mjög löngum tíma.


mbl.is Ákvað sjálfur að taka þátt í „gangaslag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Í úrskurði Hæstaréttar segir að það verði metið stjórnendum skólans til gáleysis að hafa ekki bannað þennan slag í ljósi þess að nokkur alvarleg slys hafi orðið í slíkum gangaslag, meðal annars 2005 og 2006.

Rektor hafi viljað gera það 2006 en fyrir þrýsting frá skólafélagi nemenda var sú ákvörðun dregin til baka með skilyrðum um frekari afskipti af hálfu skólans við framkvæmd slagsins. Þeim hafi þó ekki verið fylgt eftir sem skyldi.

Féllst Hæstiréttur því á það að ekki hafi verið gripið til nægra ráðstafana til að koma í veg fyrir augljósa hættu á að nemendur slösuðust."

Þorsteinn Briem, 19.12.2012 kl. 20:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þökk fyrir þessar upplýsingar, Steini, og ég nefni þær kannski í p.s. við pistilinn.

Ómar Ragnarsson, 19.12.2012 kl. 22:58

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Eru skólar á Íslandi ekki til þess gerðir að veita börnum og unglingum nytsama menntun í tryggu umhverfi, og án skaðlegra ofbeldis-slagsmála? Á hvaða fornaldarstigi er skólareglukerfið á Íslandi?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.12.2012 kl. 01:00

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Því miður hefur ofbeldisdýrkun verið langvarandi í MR. Þegar eg var í MH á árunum 1968-72 var einelti og ofbeldi nánast óþekkt. Sennilega var skólalífið allt frjálslegra, húsnæðið þokkalega rúmgott einkum þegar á leið.

Mjög líklegt er að þrengslin í MR skapi þessa innbyggðu spennu sem losnar eins og skyndilegur jarðskjálfti og ofbeldið dafnar. Að þessu leyti finnst mér MH hafa verið mun betri skóli en MR með frábærum kennurum. MR þótti „fínni“ en fyrir hvað? Kannski ofbeldið?

Guðjón Sigþór Jensson, 20.12.2012 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband