1.2.2013 | 10:33
Drepa netið, facebook og skype fleira en myndbandaleigur ?
Það er hugsanlega fleira en myndbandaleigur sem netið, facebook og skype muni drepa eða lemstra verulega. Þrívegis hef ég farið frá Íslandi síðan 1968 til að skemmta Íslendingum í Los Angeles og svipað á við um ýmis fleiri samfélög Íslendinga erlendis.
Sú var tíðin að maður var fenginn til þess að skemmta á fullveldisdaginn 1. des erlendis, en sá dagur missti flugið og dó smám saman, bæði erlendis og líka hér heima.
17. júní átti öruggan sess en er líka á undanhaldi og þorrablótin hafa verið það eina, sem lengi vel hefur haldið velli.
En á dögunum barst sú fregn að Íslendingafélagið í Los Angeles hefði ákveðið að hætta við árlegt þorrablót sitt, sem verið hefur öruggur viðburður þar vestra í áratugi. Ástæðan var lítil þátttaka.
Nú hef ég að því fregnir að fleiri þorrablót, sem hingað til hafa verið fastur liður í lífi Íslendinga erlendis, séu við það að detta upp fyrir vegna minnkandi þátttöku.
Hvað veldur þessu á sama tíma sem Íslendingum hefur fjölgað á mörgum þessum stöðum vegna flutnings úr landi af völdum vaxandi atvinnuleysis hér heima?
Ég læt mér detta í hug netið, facebook og skype.
Facebook hefur að vísu verið stórkostleg lyftistöng fyrir aukin kynni vina og venslamanna en af því gæti líka leitt að þörfin fyrir að hitta hvert annað eða hafa önnur samskipti minnki.
Skype gæti orðið enn frekari dragbítur á að fólk hittist persónulega.
Við þessu er lítið að gera. Þetta er nútíminn og þegar orkan fer að verða dýrari af völdum minnkandi og dýrari orkuframleiðslu í heiminum verður það kannski fjarskiptatæknin þar sem fólk getur hist í skype-þrívídd með víðómi fyrir framan stóra flatskjái, hver í sínu heimshorni, sem tekur yfir.
Þá verður aðeins eftir eitt viðfangsefni, sem gaman verður að sjá hvort verði leyst í framtíðinni: Lyktarsjónvarp.
Þessi bransi er bara dáinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, ég hygg nú að minnkandi aðsókn að þorrablótum felist kannski ekki síst í því að fólk er smám saman að hætta að hafa lyst á þeim óþverra, sem fólk kallar "þorramat". Okkar kynslóð og kannski fólk sem er fætt fram undir miðjan sjötta áratug síðustu aldar, eru líklega þær síðustu sem þrjóskast við að halda áfram að graðga þennan fjára í okkur, en börnin okkar og ég tala nú ekki um barnabörnin, láta ekki véla sig til að láta skemmdan mat ofan í sig. Geymsluaðferðir fortíðarinna á matvælum eru ekki til þess að halda tryggð við þær, enda geta þær verið stórhættulegar heilsu fólks, bæði beint og einnig óbeint, því mestan part eru þetta "matvæli" ef nota má það orð í þessu samhengi, sem fólk ætti alls ekki að láta ofan í sig.
E (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 11:51
Ég sé og heyri fólk tala með þessum hætti sem nafnleysinginn gerir. Þetta er einkennilegt viðhorf og auðvitað bara rangt að þessi matur sé hættulegur eða óhollur.
Súrt, kæst og sigið er herramanns matur fyrir marga og þeir sem ekki hafa smekk fyrir því eiga bara að halda því fyrir sjálfa sig en ekki tala eins og þeir þurfi að hafa vit fyrir öðrum. Sumir virðast þó hafa mikla þörf fyrir að stjórna öðrum, jafnvel þó þeir eigi í erfiðleikum með að stjórna sjálfum sér.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.2.2013 kl. 14:34
Mjög margir útlendingar komu hingað á Reyðarfjörð þegar álverið var í uppbyggingu á árunum 2004-2007. Á Reyðarfirði er elsta samfellda blót landsins haldið og yfirskrift eins þeirra á þessum árum var: "Icelandic damaged food festival".
Fæstir útlendinganna sem komu á blótið höfðu smekk fyrir matnum en öllum fannst þetta athyglisverð og skemmtileg hefð. Sumir þessara útlendinga hafa ílengst hér og koma áfram á blót og sumir þeirra eru jafnvel farnir að kunna að meta matinn, a.m.k. sumt af honum.
Sjálfur borðaði ég ekki hákarl fyrr en ég var orðinn rúmlega þrítugur. Í dag finnst mér mjög ánægjulegt að borða hann einu sinni á ári og kann æ betur að meta hann. Sama má segja um önnur marvæli, t.d. fannst mér ólívur vondar framan af æfi en frábærar í dag.
Smekkur þroskast og lærist en sumt fólk tekur ekki slíka afstöðu til lífsins. Það er meira í því að segja öðrum hvað er rétt og gott.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.2.2013 kl. 14:48
Halló, það er ekkert nýtt að vídíó sé að deyja út, Það er ein vídíó leiga á Akureyri og hún er í leiðinni góður pizza staður og selur dýrafóður og dýraleikföng,
valli (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 19:12
Þorramaturinn er það fjölbreyttur að ég get alls ekki tekið undir það að hann sé allur "óþverri". Og ekki á hann sök á því að 17. samkomur erlendis séu á sömu leið og þorrablótin. Við hjónin höfum eignast 21 barnabarn og vitum ekki til þess að neitt af þeim þyki venjuleg svið og kartöflur, rófustappa eða hangikjöt vera "óþverri".
Ómar Ragnarsson, 1.2.2013 kl. 19:54
Ég tek undir með Gunnari. Við eigum að halda í gamlar og góðar hefðir. Í fréttum að undanförnu hefur komið í ljós að leikskólabörnum hefur almennt líkað súrmaturinn vel. Ég ólst upp við gamlar geymsluaðferðir á mat, reykingu, söltun og súrsun. Ég sakna ekki þess tíma. Að sjálfsögðu er nýmeti það sem við kjósum helst en skemmtileg tilbreyting eins og skötuveisla og þorramatur gefur lífinu lit.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.2.2013 kl. 20:45
Þetta er hárrétt Ómar sem er fæstir vilja viðurkenna en vita af! Það sem Gunnar Th. Gunnarsson fer með rétta ávirðingu "Ég sé og heyri fólk tala með þessum hætti sem nafnleysinginn gerir" Að tala niður þorramatinn eru rangfærslur, það eru ekki öllum kærkomið allur matsseðill þorramatsins en það er óþarfi að taka til orða sem "óþverri"! Þorramaturinn er hnotskurn af mat og geymslu getu matar áður en ískápurinn kom til og eða frystikystan! Þorramatur er hefð! En hefð, hvar sem hún finnst í heiminnum er alltaf tengt við þjóðrembu og eða gamaldags hugsunarháttar! Leiðilegt en satt og borið saman við baráttu breyttra tíma! T.d. baráttu jafnréttis, samkynhneygðar og annarar sjálfsagðra réttinda mannsins til að vera þeir sjálfir en ekki niðurbæld eða barin svín! Nafnleysingjar eru með þeim verstu gúngum sem finnast, þora ekki að standa fyrir því sem þeir segja og meina!
Ingolfur B. Torfason (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 20:50
að hlusta á ykkur berja ykkur á brjóst og hampa ykkar hugrekki fyrir það að vera ekki undir nafnleynd, hah !
ad hominem, annað hvort skiptir það sem sagt er máli eður ei, og skiptir þá engu máli hvort það sé sagt af x x xson , eða !"#$nafnleysu.
annars finnst mér þorramatur flest allur frekar ógeðfelldur, sem og þorláksmessuskatan og borða þetta ekki nema tilneyddur, ef það.
egill vignir stefánsson, svona bara okkar á milli.
ég er greinilega svona hugrakkur nafnleyndar einstaklingur.. iss á ykkur :)
Egill, 4.2.2013 kl. 08:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.