"You ain´t seen nothing yet!"

Óhappasyrpa úr rallakstri sem birt er á mbl.is er af tiltölulega vægum óhöppum, miðað við það sem nálgast má á YouTube og víðar.

Ef farið er víðar inn í myndir með stikkorðunum "crash" - "rally" - "WRC" er hægt að segja við þá sem horfðu á óhappasyrpuna á mbl.is: "You ain´t senn nothing yet".

Einn af fremstu rallökumönnum heims er Jari-Matti Latvala, kornungur og djarfur Finni sem þegar hefur sannað það flestum öðrum fremur hvað felst á bak við gamla samheiti yfir finnska ökumenn, "Finnarnir fljúgandi."

Latvala hefur verið í einhverju af efstu sætunum í heimsmeistarakeppninni undanfarin ár, og var í öðru sæti 2010. Það þarf mikið til að veita snillingum eins og Sebastian Loeb keppni.  

En þrátt fyrir ungan aldur, aðeins 28 ára, hefur Latvala þó flestum fremur flogið út af veginum og er óhapp hans í Portúgalska rallinu 2009, sem er hluti af heimsmeistarakeppninni,  sennilega svakalegasta óhapp sem nokkur rallökumaður hefur sloppið ómeiddur frá.

Árið eftir féll hann líka úr keppni í sama ralli, og á að baki óvenju litríkan óhappaferil en einnig glæsilega frammistöðu oft á tíðum, - annars hefði hann ekki verið í  keppnisliði Ford og á þessu ári hjá Volkswagen.

Óhappið 2009 má sjá á ýmsum stöðum á netinu, svo fræg er það að endemum, en fyrirfram er best að athuga fyrst lengd myndskeiðsins, því að 24 sekúnda útgáfan er of stutt.

"Jari-Matti Latvala Spectacular crash..." eru líklega bestu aðgangsorðin til að komast inn á myndina af þessu, og myndskeiðið verður að vera minnst 1:10 mín til að aðdragandinn sjáist. 

Á myndavél inni í bílnum sést að Latvala ekur hrikalega hratt og djarft uns honum mistekst uppi á hæð einni, fer untan í barð vinstra megin og veltur í loftköstum yfir veginn og vegrið hægra megin, en þaðan taka við tugir veltna niður 200 metra háa snarbratta skógivaxna brekku.

Kraftaverk má telja að Latvala og félagi hans skyldu geta gengið ómeiddir út úr bílflakinu.

Sjálfur lenti ég tvívegis í veltu á mínum ferli í gegnum 38 röll, og þau óhöpp sönnuðu fyrir mér gagn bílbelta og öryggisbúnaðar.  

Við bræðurnir, Jón og ég, tókum þátt í einu ralli sem var liður í heimsmeistarakeppninni, Sænska rallinu 1981, og það var óviðjafnanleg lífsreynsla. Það sem skaut manni mestan skelk í bringu var ekki snjóþekjan og hálkan, heldur nálægð hinna fjölmörgu áhorfenda og ekki síður hin stóru tré, sem voru hvarvetna við vegbrúnina.

Ég átti erfitt með að venjast þessu, einkum nálægð áhorfendanna.

En tilhugsunin um Jari-Matti Latvala sem hefur sigrað tvisvar í þessu ralli, segir mér hvílíkar taugar og tilþrif þessi ungi fljúgandi Finni hefur.


mbl.is Óhappasyrpa úr rallkeppnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband