25.2.2013 | 01:42
"Hinir fáu".
Ein frægasta ræða Winston Churchills þegar orrustan um Bretland stóð sem hæst fjallaði um "hina fáu", "the few".
"Aldrei í átakasögu mannkyns hafa svo margir átt svo fáum mikið að þakka" sagði Churchill og átti þá við það hve fáir þeir ungu flugmenn voru sem höfðu mannað bresku orrustuflugvélarnar.
Þjóðverjar áttu nóg af flugmönnum, því að í sex ár höfðu þeir ræktað "grasrótina", svifflug og flug á litlum flugvélum.
Þegar íslensk flugstarfsemi margfaldaðist eftir stríðið með land- og loftvinningum íslensku flugfélaganna var öflugt grasrótarflug með sífjölgandi litlum flugvélum forsenda þess að hægt væri að manna hraðstækkandi flugflotann og tryggja að við Íslendingar hefðum hina vaxandi atvinnugrein með gjaldeyristekjum sínum að fullu á okkar hendi.
Flugliðar eru hátekjufólk, sem byggir færni sína á góðri menntun og gefur þjóðarbúinu drjúgar tekjur meðan það hefur lögheimili sín hér á landi.
Það eru því vond tíðindi hvernig íslenska grasrótarflugið hefur dregist stórlega saman á síðustu misserum.
Litlum flugvélum í umferð hefur fækkað um helming, mest vegna stóraukins skrifræðis, og gæti jafnvel haldið áfram að fækka enn frekar.
Við þessu þarf að bregðast og ætti að vera auðveldara fyrir okkur hér úti á eyju langt norður í höfum heldur en þjóðir í hinni þéttbýlu Evrópu, þar sem ein lítil einkaflugvél getur á dagstund flogið yfir milljónaborgir fimm til sex löndum.
Skrifræðið, sem sýnist kannski nauðsynlegt á þeim slóðum, þar sem hægt er að fljúga á smáflugvél frá Dover yfir sundið til Frakklands, Belgíu, Hollands, Þýskalands og Lúxemborg og til baka á milli morgunverðar og hádegisverðar, á ekki við hér á landi, þar sem flugleiðir liggja yfir óbyggðir eða dreifbýli og vélunum er aldrei flogið yfir neitt annað land.
Í krafti landfræðilegrar sérstöðu verður að vinna að því að fá sanngjarnar undanþágur.
Aukin eftirspurn eftir flugmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.