"Krossfestu hann! Krossfestu hann!"

Aðeins fjórum dögum eftir að Jesús fór sigurför inn í Jerúsalem og mannfjöldi hyllti hann og lagði blóm í veg hans var hrópað í margradda kór í sömu borg: Krossfestu hann! Krossfestu hann!

Svo virðist sem sveiflukennd hjarðhegðun af þessum toga hafi ekkert breyst í þúsundir ára.

Kristur hafði sjálfur komið þar að sem hópur manna ætlaði að grýta bersynduga konu til dauðs og mælti þá hin fleygu orð: "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum."  Og aðvörunarorð hans voru skýr: "Dæmið ekki, því að þér munið sjálfir dæmdir verða."

Allt fram á nítjándu öld virtist múgæsing heiftar og haturs njóta sín þegar aftökur voru framkvæmdar opinberlega að viðstöddum fjölda fólks.

Lík Mussolinis og Klöru Petacchi voru hengd upp á fótunum á torgi í Mílanó 28-29. apríl 1945 svo að múgurinn gæti fengið útrás við að svívirða þau. Enn er í minni meðferðin sem Muammar Gaddafi fékk.

Ég hef áður lýst hér á bloggsíðu minni hvernig það var í raun ómögulegt fyrir dómstóla að sýkna sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum vegna þess að það hefði allt orðið vitlaust í þjóðfélaginu vegna þess hve sefjunarkennd og yfirþyrmandi heimting almennings var á því að sjá sakborningana leikna sem allra verst.

Það varð að komast að svo afdráttarlausum sektardómum að dómsmálaráðherrann gæti sagt: "Það er þungu fargi létt af þjóðinni."

Þegar Adolf Hitler hafði sýnt að hann væri "mesti hernaðarsnillingur allra tíma" í "mestu sigurför allra tíma" á hendur Niðurlöndum og Frökkum baðaði hann sig í einhverri mestu tilbeiðslu sem þegnar nokkurrar stórþjóðar hefur sýnt leiðtoga sínum. Sumum kann að finnast það undarlegt, en í raun var ekkert eðlilegra ef litið er til þeirra aðstæðna sem ríktu einmitt þá.  

Aðeins fimm árum síðar var Hitler líklega mest fyrirlitni maður sem sama þjóð hafði nokkru sinni kynnst.

Tugir milljóna manna grétu þegar Jósef Stalín dó, og nánustu samverkamenn hans og "trúarbræður" um allan heim mærðu hann með þvílíkum tilþrifum að eftir verður munað, meira að segja hér á landi. 

Ekki liðu þó nema innan við fjögur ár þar til Nikita Krustjoff svipti hulunni af honum sem einhverjum afkastamesta fjöldamorðingja og harðstjóra allra tíma.

Okkur finnast galdraofsóknir 17. aldar næsta óskiljanleg villimennska en erum ekki í neinni aðstöðu til að kveða upp dóm yfir því sem gerðist við aðstæður, sem ekki er hægt að setja sig inn í.

Nú stefnir í það að meðferð sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum verði smám saman jafn óskiljanleg og galdraofsóknir 17. aldar fyrir þá, sem ekki lifðu þá tíma, þegar þær áttu sér stað.   


mbl.is „Gegnsýrt af hatri og heift“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vissulega er erfitt að setja sig í spor menningar marga áratugi aftur í tímann, hvað þá margar aldir, en þó að tækni og hæfni til að greina hluti vísindalega hafi verið almennt minni í fortíðinni, er samt sem áður enginn munur á þeirri skyldu að skaða ekki aðra.

Sönnunarbyrði og krafa um að sakfella ekki án haldbærra sannana var sú sama 1970 og núna. Þetta byggir á karakter þeirra sem stýrðu rannsókninni en ekki fræðilegri getu þeirra. Siðferðislega vandaður og sterkur einstaklingur býr ekki til blóraböggla þó að fjölmiðlar æsi sig. Það er frekar sjúklegur metnaður og eða mikil vanmáttarkennd í starfi sem rekur menn til að reyna að ná árangri sama hvað það kostar en skortur á vísindalegum aðferðum. Þetta mál rýkur af óstjórn og ósiðlegum vinnubrögðum. Það er ekki hægt að afsaka með tíðarandanum. Hlutirnir fóru hræðilega úr böndunum og ábyrgðin liggur hjá einhverjum rannsakendum og stjórnendum sem gegndu ekki skyldu sinni. Veikleiki og óheiðarleiki. Jafn slæmt þá og nú.

Svanur Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 11.4.2013 kl. 00:05

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Algjörlega sammála Svani. "Óstjórn og ósiðleg vinnubrögð." Blöðin þrýstu ekki á einn eða annan, heldur reyndu að upplýsa. Óupplýst spírasmygl og mannshvarf var ekki nægileg ástæða fyrir rannsóknaraðferðum og pyntingum sem var beitt. Sömu menn notuðu álíka aðferðir mögrum árum síðar hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Sakadómur Reykjavíkur var heldur ekki burðug stofnun undir löggjöf sem leyfði henni að rannsaka og dæma. Sami Dómur ákvað lengd einangrunar og hélt lögmönnum frá sakborningum. Ekki rétt að bendla þennan gjörning við Krist eða endalok Mussolinis og Gaddaffis

Sigurður Antonsson, 11.4.2013 kl. 00:27

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Páll Winkel fangelsismálatjóri veit hvað telur þegar kemur að föngum. Vímuefnameðferð og skólun er ábyggilega það sem breytir mestu. Mannúðleg meðferð fanga sem geta bætt hlutskipti sitt. Er ekki á því að almennigur sé blóðþyrstur, en hann vill sjá úrræði sem duga. Meiri meðvitund um brot og glæpi.

Í Bandaríkjunum er skelfilegt að fylgjast með refsimálum og föngum sem eru meðhöndlaðir nánast eins og dýr. Allar sjónvarpsstöðvar eru uppfullar af efni um skotárásir og fanga. Barátta Obama fyrir hertari byssulögum stendur nú yfir og íbúar krefjast úrbóta. Hann fer borg úr borg og vinnur kappsamlega að þessum málum.

Ekki líður sá dagur að einn eða fleiri lögreglumenn séu skotnir. Blóð rennur stríðum straumum og hræðsla skapast. Sorg fjölskylna og vanmáttur ríkir.

Sigurður Antonsson, 11.4.2013 kl. 00:56

4 Smámynd: Snorri Hansson

Ekki fara eina ferðina enn að koma þjóðar skömm og klúðri nokkurra manna yfir á þjóðina.

Það er sífellt verið að bulla í þessa veru. " Hrunið var þjóðinni sjálfri að kenna" og þar með hinn eðlilegasti hlutur að almenningur greiði Icesafe , skuldasúpur einkarekinna banka og íbúðir sem engin hafði keypt. "Jú sjáðu það fóru  allir að fjárfesta í flatskjá !!" var algeng skíring "algjör múgæsing".   

Glæpsamleg hegðun hóps rannsóknarlögreglumanna  og fréttamenn sem kunnu sér ekki hóf í spuna og kjaftæði er ástæða klúðurssins í Geirfinns og Guðmundarmálinu .Hafi þeir skömm fyrir. Almeningur  eða "múgæsing" kom þar var ekki  orsakavaldur. Hvað sem Ómar vitnar oft í orð ráðherra frá þessum tíma og þótt biskup noti hana í ræðu.

Snorri Hansson, 11.4.2013 kl. 08:57

5 identicon

Smá óviðeigandi að blanda þessum lygasögum um Jesú inn í þessi mál.. Þetta með konuna og sá yðar sem syndlaus er... þetta var sett inn í biblíu löngu síðar, gerðist aldrei í raunveruleikanum.
Krossfestingin er líka mjög vafasöm, gerðist líklega aldrei. Þér til gamans og fræðslu þá ættir þú að lesa guðspjöllin hlið við hlið, bera þau saman, þá munt þú koma auga á lygarnar... það finnst varla verr samræmdari lygasögur en þær sem eru í biblíunni.. en í trúmálum þá telsk slíkt víst sem sannanir :)

Þú byrjaðir á að taka Jesú á þetta... so ;()

DoctorE (IP-tala skráð) 11.4.2013 kl. 13:27

6 identicon

Og hvernig er fréttamatið í Fréttablaðinu þessa daganna?

Á hverri forsíðu af fætur annarri eru menn leiddir fram og boðnir til krossfestingar.

Grímur (IP-tala skráð) 11.4.2013 kl. 15:27

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eftir að hafa starfað með börnum í vetur þá geri eg mér betur grein fyrir hversu mikilvægt það er að hlúa betur að þeim.

Síðast í dag varð eg vitni að æsing milli tveggja drengja úti við, báðum í 1. bekk grunnskólans. Annar vildi „drepa“ hinn og var greinilega mikið niðri fyrir eftir einhvern aðdraganda. Tók eg drenginn inn í frístundaselið þar sem eg starfa og skipaði honum að setjast niður og róa sig.  Hann var nokkrar mínútur að drattast niður af æsingnum, eg var fastur fyrir og kvaðst ekki vilja vita hvaðan hann hefði þvílíkan munnsöfnuð. Sennilega hefur einhver ofbeldismynd hefur hann séð í sjónvarpi eða öðrum miðli. Þegar mér tókst að koma honum „niður“ með fortölum og dálitlum tíma og sitja á strák sínum fór eg að ræða dálítið við hann. Í ljós kom að von var á afa hans að sækja hann. Auðvitað spurði eg strák hvort honum þætti ekki vænt um afa sinn. Svo reyndist vera enda reynast afar og ömmur barnabörnum sínum yfirleitt vel, kannski of vel. Og þar með var björninn unninn: Strákur varð allur rólegri og meðtækilegri. Auðvitað eigum við að bera virðingu fyrir öðrum og þykja vænt um aðra, kannski ekki eins vel og afana og ömmurnar og þó, hvers vegna ekki? Þá vegnar okkur líka betur og öllum líður vel.

Ekki veit eg hvernig fór að lokum þegar eg þurfti að yfirgefa vinnustað. Strákur sat kjurr og beið afa síns rólegri og yfirvegaður en nokkru áður.

Þurfum við ekki að gefa ungdómnum betri tíma og sinna betur?

Ef illa tekst til, þá eru það skólarnir og síðar lögreglan sem elur upp börnin ef foreldrar bregðast uppeldishlutverki sínu. Og þá er voðinn vís og getur endað með skelfingu. Því miður eru allt of mörg dæmi um slíkt.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 11.4.2013 kl. 21:51

8 identicon

Múgur er eins og vín í glasi keisarans. Ef keisarinn vill múginn til vinstri þá hallar hann glasi sínu til hægri, og öfugt. Þetta sagði Jílíus Cesar, og það hefur virkað fram á þennann dag. Svarið er að gera engann keisara, og mennta fólk svo það geti varist þess að verða dropar í glösum valdamanna.

Hafliði Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 12.4.2013 kl. 04:01

9 identicon

Geirfinns og Guðmundarmálið málið minnir um margt á West Memphis 3 Réttarmorðið sem átti sér stað fyrir 2 áratugum í Bandaríkjunum. 

2 ungmenni voru dæmd í lífstíðarfangelsi og Damien Echols var dæmdur til dauða. Málatilbúnaður var með miklum ólíkindum og stenst enga skoðun frekar en  G/G máliinu.

 Bæði málin eru skólabókardæmi um múgsefjun og hvernig falskar játningar verða til.

Með góðra manna hjálp tókst að bjarga Damien Echols frá aftöku,  hann og tveir félagar  eru nú lausir úr 20 ára fangelsisvist. Þeir eru þó enn dæmdir morðingjar og hafa enn ekki fengið uppreisn æru sinnar.

Svipað gildir um G/G málin. Þau eru á leið inn í Sögubækurnar sem dæmi um hvernig þjóðfélag fer á límíngunum. 

Við höfum upplifað okkar galdrabrennur.  

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.4.2013 kl. 19:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband