14.4.2013 | 14:13
Þetta hefur ekkert breyst síðustu árin.
Lýsingin á vinnudögum "fremstu forstjóranna" bendir ekki til mikilla breytinga í vinnuumhverfi þeirra né lífsstíl frá því sem var á dögum slíkra fyrir Hrun.
Enn er í minni frábært viðtal við Hannes Smárason í tímariti í ársbyrjun, sem tekið var í nokkrum bútum, á meðan hann var á leið upp í einkaþotu sína eða út úr henni, og gott ef að hann var ekki í nokkrum þjóðlöndum á þeim tíma sem leið á milli upphafs töku viðtalsins þar til henni lauk.
Ég efa ekki að hæfileikaríkt fólk, vinnusamt og metnaðargjarnt, leggi sig fram í slíkum störfum, fyrirtækjunum og þjóðinni til góðs. Um hitt efast ég, svo ekki sé meira sagt, að ofurlaun þess og ævintýralegir bónusar séu réttlætanleg fyrirbæri, sem og sumt af því sem sóst er eftir að í stórgölluðu fjármálaumhverfi nútímans þar sem bankar fá vald til að búa til stórfelld "verðmæti" sem eru í raun ekki til.
Ég hef stundum vitnað í suma speki þessa viðtals við Hannes Smárason, svo sem um það hvernig með nógu hröðum viðskiptum með fyrirtæki með tilheyrandi kennitöluskiptum og uppspólaðri viðskiptavild um tugi milljarða í hvert sinn var hægt að komast yfir óheyrilega mikil "verðmæti" á undraskömmum tíma, - fyrirbæri sem sprakk síðan með miklu hvelli í Hruninu.
Og lokasetningin um viðfangsefni "fremstu forstjóranna" var gull: "Það hefði engum dottið í hug að gera þessa hluti, sem við erum að gera, nema fólki, sem hefur enga hugmynd um það hvað það er að fara út í."
Skyldi þetta vera svona að einhverju leyti ennþá?
Hvað einkennir fremstu forstjórana? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ert þú ekki stöðugt eins og útspýtt hundskinn út um allar trissur, Ómar Ragnarsson?!
Hvað ert þú með mörg verkefni í gangi núna og hversu mörg þeirra finnst þér líklegt að þú klárir?
Og hefur þú ekki fengið greitt fyrir neitt af þeim verkefnum sem þú hefur lokið?
Það er eðlilegt að forstjórar fyrirtækja sitji ekki alltaf á sama stað, frekar en til að mynda blaðamenn og sjónvarpsfréttamenn.
Þannig fara blaðamenn í Reykjavík nær daglega út í bæ á blaðamannafundi og til að taka viðtöl.
Og fjölmargir þeirra fara að sjálfsögðu oft út á landsbyggðina og til útlanda.
Við tveir sem sáum um sérblað Morgunblaðsins um sjávarútvegsmál fórum til að mynda til Japans, Nýja-Sjálands, Chile, Bandaríkjanna, Kanada og fjölmargra Evrópulanda.
Þar að auki hringdu fjölmargir forstjórar og ráðherrar heim til okkar þegar við vorum "ekki" í vinnunni.
Og við fylgdumst að sjálfsögðu með öllum fréttatímum í útvarpi og sjónvarpi og lásum öll dagblöðin.
Einnig í okkar "sumarfríum".
Þorsteinn Briem, 14.4.2013 kl. 15:07
Það eru lélegir forstjórar sem mæta á fundi og hunsa fundarmenn með því að vera stöðugt í símanum meðan á fundi stendur lesandi/skrifandi tölvupóst, SMS eða bara að lesa MBL.is
sumir eru svo grófir að allir fundarmenn þurfa svo að horfa út í loftið meðan þeir taka "áríðandi" samtöl
Grímur (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 22:17
Ég var ekkert að amast við því í pistli mínum að duglegt fólk, klárt og vinnusamt hefði yndi af því að sinna starfi sínu sem best, sér og þjóðinni til gagns.
Ég dró hins vegar í efa að hinn himinhái launamunur þess og annars fólks, sem vinnur af jafnmikilli ákefð og jafn mikið, væri réttlætanlegur.
Á síðustu árum hafa efasemdir aukist meðal fræðimanna um það að rétt sé það fyrirkomulag að bankar og fjármálastofnanir hafi til þess fullt frelsi til að búa til í raun innistæðulausa peninga og uppskrúfað kerfi, sem stendur síðan á endanum ekki undir sér, heldur hrynur.
Og síðan má velta því fyrir sér hversu miklu það skilar stundum í þjóðarbúið þegar topparnir, sem vinna í nálægð þessa mikla peningamagns, þeytast í einkaþotum, þyrlum og dýrustu fáanlegu bílum út um allt.
Ómar Ragnarsson, 15.4.2013 kl. 01:25
Jamm, það er flottræfilsháttur af verstu sort, Ómar.
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.