2.6.2013 | 21:36
Hermann var ekki í stjórninni 1953-56.
Umfjöllun Guðna Th. Jóhannessonar um þær stjórnir, sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa setið saman í, er hin ágætasta. Þó má gera tvær athugasemdir.
Það er ekki rétt að Ólafur og Hermann hafi setið saman í stjórn 1950-56. Hvorugur gat sætt sig við að sitja í stjórn undir forsæti hins, allt frá 1942 og fram á sjöunda áratuginn.
1947-49 var þriggja flokka stjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar, formanns Alþýðuflokksins, og það lýsti hnútinn í bili,
En hvorki Ólafur né Hermann sátu í þeirri stjórn.
En síðan tók við minnihlutastjórn Ólafs Thors og allt var í hnút í einni lengstu stjórnarkreppu lýðveldistímabilsins veturinn 1949-50.
Þá hófst sex ára samstarfstímabil flokkanna.
Þegar Ólafur myndaði samstjórn flokkanna 1953 gat Hermann því ekki hugsað sér að sitja í þeirri stjórn heldur kaus frekar að vera formaður án ráðherraembættis. Í stjórninni 1950 til 53 var lausnin sú að Steingrímur Steinþórsson varð forsætisráðherra, maður sem var þannig staðsettur í stjórnmálunum að engin "hætta" var á því að hann næði í fremstu röð áhrifamanna.
Þetta var ekki ólíkt því sem gerðist hjá R-listanum þegar Ingibjörg Sólrún hætti, þ. e. fundinn samnefnari sem ekki var of hár.
1950-53 var Ólafur því sjávarútvegsráðherra og Hermann landbúnaðarráðherra.
Með Hermann alveg utan stjórnar eftir 1953 bar sú stjórn dauðann í sér. Stjórnin var fyrst og fremst mynduð til að klára verkefni fyrri stjórnar varðandi uppbyggingu fyrir Marshallféð og vegna ástandsins innan lands í Kalda stríðinu. Um tíma var jafnvel ætlunin að "hernámsflokkarnir" þrír, Sjallar, Framsókn og Kratar væru í stjórn "lýðræðisflokkanna".
En Þjóðvarnarflokkurinn og "þíðan í samskiptum risaveldanna eftir lát Stalíns og lok Kóreustríðsins, breytti ástandi alþjóðastjórnmála og ógnaði fylgi Framsóknar.
Hermann notaði tímann utan stjórnar til að byggja brú á laun í gegnum Finnboga Rút Valdimarsson yfir til "kommanna" og vinstri arms Alþýðuflokksins, sem hópaðist í kringum Hannibal Valdimarsson og Málfundafélag jafnaðarmanna.
Afleiðingin varð vinstri stjórnin 1956-59 undir forsæti Hermanns.
1974 hafði Ólafur Jóhannesson verið mjög áberandi og öflugur í embætti forsætisráðherra og stjórnarmyndunarviðræðurnar gengu erfiðlega af því að margir Sjálfstæðismenn gátu ekki kyngt því að hann yrði áfram forsætisráðherra og efldist enn frekar meðal þjóðarinnar.
Ólafur var með stjórnarmyndunarumboðið en Geir Hallgímsson varð forsætisráðherra og gárungarnir sögðu að Ólafur hefði myndað stjórn fyrir Geir Hallgrímsson og fannst sumum það háðulegt og Ólafi til vegsauka en Geir til minnkunar.
Hvort sem það var ýkt eða ekki má segja að Geir hafi aldrei náð sér almennilega á strik eftir þetta, þótt hann yrði forsætisráðherra, einkum eftir að stjórn hans beið afhroð í Alþingiskosningunum 1978.
Stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens 1980 og síðan það, hvernig Geir lenti síðar í sjöunda sæti í prófkjöri í Reykjavík, lék Geir grátt.
Hann sýndi samt mikla stjórnvisku, framsýni og lagni þegar honum tókst að halda Sjálfstæðisflokknum formlega saman 1980-83, þannig að flokkurinn gat farið samhentur út í kosningar það ár.
Það var að mörgu leyti ekki ólíkt því hvernig Ólafi Thors tókst það sama við myndun Nýsköpunarstjórnarinnar 1944 gegn andstöðu fimm Sjálfstæðisþingmanna.
Stormasamt samstarf í gegnum tíðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn aðhyllist einstaklingshyggju, frjálslyndi, frjálshyggju eða íhaldsstefnu.
Meira kraðak er nú varla til í einum stjórnmálaflokki og samstaðan oft lítil, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn margsinnis klofnað og brot úr flokknum myndað ríkisstjórn með öðrum stjórnmálaflokkum.
Þorsteinn Briem, 3.6.2013 kl. 04:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.