Stundum þarf svo lítið til að villast.

Allir hafa villst einhvern tíma á ævinni. Jafnvel örstutta stund inni í myrkri inni hjá sér. Ég hef líkast til verið 4-5 ára gamall þegar ég villtist í fyrsta sinn.

Mamma hafði farið til tannlæknis við Óðinstorg og ég átti að bíða á biðstofunni á meðan.

Á þessum árum var ég talinn furðulegur að því leyti að þegar hún var á ferli með mig, til dæmis í heimsókn hjá vinkonu, var ég settur niður á stól eða í sófa og sat þar við kyrr með eigin hugsanir tímunum  saman án þess að segja orð.

En í þetta skipti varð eitthvað til þess að ég labbaði út á götu og gleymdi mér alveg við að skoða mig um þangað til ég áttaði mig á því að ég var rammvilltur.

Þegar svona háttar til er eins og öll hús verði eins og þannig varð það í þessari villugöngu.

Svo hugkvæmdist mér að leggja eitt ákveðið hús á götuhorni á minnið og ganga eins langt og ég komst frá því í ákveðna átt og ég komst án þess að missa sjónar á því.

Síðan gekk ég aftur að þessu hornhúsi og fór á svipaðan hátt í hina áttina.

Svona gekk ég fram og aftur lengi í allar áttir út frá þessu húsi og kom tvívegis að gatnamótum, sem voru mjög lík. Þá ákvað ég að sjá hvort ég kæmist inn í eitthvert hús sem mér fannst líkjast húsinu sem tannlæknastofan var í.

Loksins kom ég að inngangi, þar sem auðvelt var að komast lengra inn í húsið og viti menn: Þetta var þá húsið sem tannlæknastofan var í og örfáum mínútum seinna kom mamma út frá tannlækninum og hélt að ég hefði verið þarna kyrr allan tímann.

Rúmlega 60 árum seinna gerðist svipað atvik á gerólíkum stað og að var eins og ég væri orðinn 4-5 ára á ný og hefði nákvæmlega ekki lært neitt.

Ég var akandi á leið út eftir Fljótsdalsheiði í ljósaskiptunum, kvöldþokan var farin að læðast um alla heiðina eftir að sólin hafði sest og loft byrjaði að kólna og rakamettast, þegar skyndilega blasti við langstærsta hreindýrahjörð, sem ég hafði nokkurn tíma séð.

Hreindýr voru styggari á þessum slóðum þá en nú og fóru strax að færa sig og augljóst að þau myndu hverfa á skammri stund inn í þokuna,  svo auðséð var, að ef ég ætti að ná mynd af allri hjörðinni yrði ég að fara samstundis út úr bílnum með myndavélina og þrífótinn eins og ég stóð, og ég bjóst við að ekki yrði hægt að ná hinni þráðu mynd, nema alveg í upphafi, - bjóst því ekki við að ganga nema smáspöl.

Í þessum flýti gleymdi ég því að farsímarnir mínur voru ekki í vasa mínum, eins og venjulega, heldur lágu saman í hægra framsætinu.

Ég mátti hafa mig allan við að komast í skotfæri við hjörðina áður en að hún kæmist úr sjónfæri og náði þarna loks mynd af langstærstu hreindýrahjörð sem kvikmynduð hefur verið hér á landi, um 800 dýr þegar þau voru talin á myndinni daginn eftir í frétt, sem var afrakstur af eldsnöggu viðbragði, útsjónarsemi með blöndu af flýti og varfærni.

Þokuloftið, sem umlukti þessa risastóru hjörð þessa mínútu, sem hún sást öll, áður en hún gliðnaði og þokan fór að gleypa hana, gerði þetta stutta myndskeið óviðjanlegt.

Rétt í þann mund sem um mínútu langt skot náðist af allri hjörðinni hvarf hún inn í þoku sem skall á og ég áttaði mig á því, mér til mikillar armæðu, að ég var í raun rammvilltur, sá ekki lengur veginn þar sem ég hafði hlaupið út úr bílnum.

Og ekki bara það, bíllinn stóð uppi á vegarbrún, opinn með lyklana í svissinum!

Í svona villu í þoku er illmögulegt að átta sig á því hvernig landið hallar ef það er ekki þeim mun brattara, nema finna læk.

Nú kom þrífóturinn í góðar þarfir. Ég stillti honum upp og gekk í átt frá honum eins langt og ég sá til hans. Gekk þá í eins víðan hring í kringum hann og hættandi var á til að kanna umhverfið, - lagði á minnið ákveðna kletta og steina á einum staðnum, þar til komið var að sama stað aftur í þessum gönguhring.

Þá gekk ég beint að þrífætinum með augun á steinunum og fór síðan með þrífótinn að þeim og gekk nú beint í gagnstæða átt og endurtók hringgönguna, var nú búinn að stækka könnunarsvæðið tvöfalt.

Þetta var agalegt. Búinn að gera ótal fréttir og fara í ótal ferðir og leitir vegna týnds fólks og var sjálfur að klúðra sams konar máli á ömurlegan hátt !

Hafði meira að segja ekki gefið mér tíma til að grípa neina flík með mér. Þetta yrði frétt til næsta bæjar. Kvaddar út björgunarsveitir til að leita að heimskum fréttamanni sem sjálfur var félagi í björgunarsveit !

Því að ef bíllinn fyndist mannlaus og opinn með lyklunum í svissinum og tvo farsíma í hægra framsætinu var víðbúið að menn færu að leita að þessum fjallheimska manni, sem hlaut að hafa villst á heiðinni.

En við þessu var ekkert að gera og aðalatriðið að ana ekki út í þokuna heldur stækka svæðið,  sem ég var að kanna, á skipulegan hátt. 

Þegar ég var í þriðju stækkuninni rofaði allt í einu aðeins til smástund og mér til mikillar gleði sá ég glytta í þjóðveginn, og áður en hann hyrfi aftur í þokumóðuna, tókst mér að komast að honum.

Vissi að ég hafði villst austan við hann og farið í norður, þannig að leiðin lá eftir honum til suðurs að bílnum, sem fljótlega kom í ljós.

Í raun hafði ég verið að leita að sjálfum mér eftir ákveðnu skipulagi þennan tíma sem ég var var villtur, þannig að ég ætti ekki hættu á að villast um langan veg og að því leyti hafði ég farið eftir boðorðinu um að halda sem mest kyrru fyrir nálægt upphafsstað.

Já, það þarf stundum svo lítið til að villast og þá geta mistök, sem virðast smá, orðið svo stór. Bara það eitt að grípa ekki annan farsímann voru arfamistök.

En eftir á huggaði ég mig við það að hafa náð myndskeiði af stærðargráðu, sem aldrei hafði náðst áður, og hefur ekki náðst síðan, - næst kannski aldrei aftur.

Og meðan ég var villtur var ég búinn að sætta mig við það að ef það þyrfti að kalla út leit, myndi ég með því krækja mér í aðra frétt í viðbót við hina ! Segið þið svo að fréttamennska geti ekki kostað fórnir!  

   


mbl.is Gekk berfætt í snjónum á fjallinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Torfbæir og fjárhús voru reist á hólum og þar sem langt var á milli hólanna í mörgum tilvikum urðu margir þar úti á vetrin og dúkkuðu ekki upp fyrr en að vori þegar hlánaði.

Rafmagnsleysi var algengt í Skíðadal á vetrin og hús hurfu oft undir snjó en þegar ég kom þangað fyrst var þar ekkert rafmagn, einungis olíulampar og eldað á gasi.

Þorsteinn Briem, 2.6.2013 kl. 14:47

2 identicon

Góður Ómar.

Að geta gert grín af sjálfum sér og því sem maður hefur lent í,

lýsir þinni persónu best. Alltaf með húmor fyrir lífinu.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 2.6.2013 kl. 17:22

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hreint frábært!

Guðjón Sigþór Jensson, 3.6.2013 kl. 08:25

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þú et hreynt allra besta tenging okkar við landið og þjóðina og hafðu þökk fyrir.

Sigurður Haraldsson, 3.6.2013 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband