7.6.2013 | 21:58
Flottasta jöklasýn veraldar úr þéttbýli.
Þeir eru ekki margir, helstu þéttbýlisstaðirnir á Íslandi, þar sem er jöklasýn. Snæfellsjökull sést í góðu skyggni frá helstu þéttbýlisstöðum Faxaflóa en ekki frá bænum í Ólafsvík. Jökullinn fer minnkandi og stefnir í það að verða svipuð snæhetta og sum erlend eldfjöll.
Frá þéttbýlisstöðu á Suðurlandi sjást jöklar, Eyjafjallajökull og örlítið af Mýrdalsjökli, og Frá Kirkjubæjarklaustri er Öræfajökull áberandi í austurátt.
En Höfn í Hornafirði er eina þéttbýlið í heiminum þar sem stór jökull blasir við með mörgum stórum skriðjöklum og sjálfan Öræfajökul ystan í röðinni, margfalt stærri jökul en Snæfellsjökul og Eyjafjallajökul.
Vatnajökull er kóróna Íslands með samspili eldvirkni og íss, sem á sér enga hliðstæðu í heiminum.
Í Noregi sést smájökullinn Folgafonn frá nokkrum bæjum við Suðurfjörð en hann og fleiri smájöklar í Alpafjöllum og Himalayafjöllum standast engan samanburð við Vatnajökul.
Því fyrr, sem menn nýta sér þetta á Höfn í Hornafirði, því betra, því að með hjöðnun jökla vegna hlýnunar loftslags, mun skriðjöklarnir lækka og styttast og gangi spár eftir, gæti þessi mikilfenglegi stærsti jökull jarðar utan heimsskautasvæðanna verða horfinn að mestu úr augsýn, séð frá Höfn og Öræfajökull að vísu enn tignarlegt eldfjall, en jökullinn á því ekki nema svipur hjá sjón.
Það eru því góð tíðindi að opnuð hafi verið gestastofa þar og ekki seinna vænna að fylgja því eftir.
Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs opnuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
30.8.2012:
"Íslenskir jöklar verða horfnir eftir 150 til 200 ár verði veðurfar svipað og það hefur verið síðustu tvo áratugi.
Snæfellsjökull hyrfi eftir um það bil 30 ár, segir Helgi Björnsson jöklafræðingur.
"Síðustu 17 ár hafa jöklarnir bráðnað með auknum hraða."
Helgi segir að Snæfellsjökull sé aðeins 30 metrar að þykkt að meðaltali en að vísu sé meiri snjór í honum að norðanverðu, allt að 70 metra þykkur.
"Snæfellsjökull rýrnar að meðaltali um 1,3 metra á ári, þannig að það er auðséð að hann þolir ekki slíkt framhald í marga áratugi.
Við missum um það bil einn metra á ári af Vatnajökli, annað eins af Hofsjökli og 1,3 metra af Langjökli en allra mest af jöklunum syðst, Eyjafjallajökli og þessum litlu jöklum sunnanlands. Þar er bráðnunin 1,8 metrar, svipað og meðal mannshæð.
Nú er reiknað með að það hlýni enn frekar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa og það gæti orðið tveimur gráðum hlýrra við lok þessarar aldar en nú er.""
Þorsteinn Briem, 7.6.2013 kl. 23:11
Ég er nú heppinn með útsýnið. - bæði Hekla og Eyjafjallajökull sjást út um eldhúsgluggann, og Þrýhyrningur á milli frá fallegasta sjónarhorni ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 17:24
Tek undir hvert orð.
Mér þótti miður að sýningin um Vatnajökul var tekin ofan á sínum tíma. Nú er það starf hafið að nýju á öðrum stað, gamla safnahúsinu. Æskilegt hefði verið að gestastofan væri nær annarri þjónustu á Höfn, verslun og öðru þar sem ferðafólk sækir einnig.
Guðjón Sigþór Jensson, 8.6.2013 kl. 19:43
Og Skógafoss að hverfa bakvið trén við þjóðveginn.
Björgúlfur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 10.6.2013 kl. 00:57
Hvað ertu á móti trjám Björgúlfur?
Þetta trjáhatur er með öllu óskiljanlegt. Háspennumöstrin trufla miklu meira en nokkur tré.
Guðjón Sigþór Jensson, 12.6.2013 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.