Ljós í myrkrinu, - veikindi verða til gagns.

Hún er átakanleg og mögnuð, sagan af ungu móðurinni sem dó skyndilega úr hjartaáfalli, en hægt var að bjarga barninu, sem hún gekk með með bráðakeisararskurði.

Tvö ljós voru þó í myrkrinu, björgun barnsins og það, að þetta tilfelli var hægt að nota til lærdóms fyrir lækna og hjúkrunarlið.

Þriggja mánaða tímabil vorið 2008 gekk ég í gegnum minnisstæð veikindi þar sem ljósið í myrkrinu var það, að þegar ég var beðinn um að vera verklegt "prófverkefni" vegna þess hve notadrjúgt tilfelli mitt gæti orðið, sló ég til og sá ekki eftir því.

Þessi sjúkdómsraun gæti þá orðið til góðs eftir allt.

Ég þurfti lítið að gera, aðeins liggja í rúmi uppi á Borgarspítala, láta skoða mig og svara einföldum spurningum, en auðvitað þannig að það væri eins og ég vissi ekki sjálfur af hverju veikindin stöfuðu.

Læknanemarnir sáu strax að ég var með svo mikla gulu, að augun voru dökkgul. En það reyndist ekki auðvelt fyrir þá að finna út, af hverju gulan stafaði, og misjafnt var hve lengi þeir voru að komast á slóðina, fóru jafnvel út af henni.

Þótt ég væri með ofsakláða, búinn að missa 16 kíló og 40% af blóðinu eftir næstum þrjá mánuði án þess að geta sofið, linaði það líðan mína að vera kominn í hlutverk í nokkurs konar spennandi vísbendingaspurningaþætti, þar sem léleg frammistaða þátttakenda gæti orðið þeim dýrkeypt eða dýrmæt eftir atvikum.

Flestir nemarnir komust á rétta leið í spurningunum með því að nota ályktunarhæfni og spyrja réttu spurninganna í sem réttastri röð.

Athyglisverðast var það hve ályktunarhæfni reyndist mikilvægari en mikil utanbókarþekking og að mikilvægt var var að ofmeta ekki mikla þekkingu.

Einn neminn óð strax af stað í því að þylja upp úr sér langar romsur af því sem hann kunni og var fullur af einstaklega miklu sjálftrausti, en fór fyrir bragðið út af réttri leið og leiddi sig sjálfur í ögöngur.

Alger andstæða hans var annar nemi, kona, sem var ekkert að flýta sér, heldur gaf sér góðan tíma til að íhuga hvert svar mitt, áður en næsta spurning var valin.

Þessi nemi virtist ekki hafa nærri eins mikil býsn af utanbókarlærdómi á hraðbergi og "besservisserinn" á undan, en komst þó best allra að réttri niðurstöðu um orsakir gulunnar og sjúkdómgreining hennar ver þessi:

Sjúklingurinn hafði þurft að taka inn mikið magn af sýklalyfinu Augmentin til að drepa illvíga sýkingu í risastóru graftarkýli í baki.

Lifrin þoldi ekki svona mikið magn af þessu ofursterka sýklalyfi og hætti að virka, upp kom svonefndur lifrarbrestur og afleiðingin af því var svonefnd stíflugula.

Vegna þess að lifrin virkaði ekki lengur vann hún ekki úr fitu og ýmsum öðrum efnum, sem fóru út í blóðið sem varð "aurugt" ef svo má segja.

Afleiðingin varð ofsakláði sem kom í veg fyrir svefn.

Engin svefnlyf eða deyfilyft var hægt að gefa til að lina kláðann og vanlíðanina, af því að lifrin réði ekki heldur við þau.

Ef þetta ástand hélt áfram nógu lengi var hætta á að sjúklingurinn gengi af göflunum og yrði "Kleppsmatur".

Það sem ruglaði suma nemana í ríminu, einkum þann sem fannst hann kunna mest, var það að gula getur stafað af ýmsum orsökum.

Konan, sem sýndi mesta yfirvegun og ályktunarhæfni brilleraði á prófinu, sýndi, að minnst hætta yrði á því í starfi framtíðarinnar að hún myndi gera læknamistök, heldur ætti í vændum farsælan og árangursríkan starfsferil. 


mbl.is „Lítið líf sem mátti bjarga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar fékk þar óverdós,
og eiturgulan mátu,
í myrkri var sem leifturljós,
í lækna stórri gátu.

Þorsteinn Briem, 6.7.2013 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband