9.7.2013 | 09:27
Það er svo svalt af því það er svo hlýtt!
Þegar svöl suddaþoka lagðist yfir í gær og lá síðan aftur yfir í morgun mátti vafalaust heyra setningar eins og þessa: "Mikið ætlar þetta sumar að verða leiðinlegt, dimmt, vætusamt og kalt".
En orsök þokunnar er hins vegar þveröfug: Það er svo hlýtt!
Hvernig má það vera?
Jú, ef farið er inn á vedur.is og valið númer 5, flugveður, kemur í ljós að í 5000 feta hæð, 1500 metrum, er 8 stiga hiti, sem er 6 stigum hlýrra en að meðaltali um hásumar.
Það samsvarar því ef allt er með felldu, að við sjávarmál sé um 17 stiga hiti. En því miður er sjórinn minnst 7 stigum kaldari en hið raka og hlýja loft, og þess vegna þéttist rakinn og verður að lágþoku.
Og enn meiri eru hlýindin ef ofar dregur. Í 10 þúsund feta hæð, 3000 metrum yfir sjávarmáli, er hitinn 3 stig! Þar ætti að vera talsvert frost ef allt væri nálægt meðaltalinu.
Ástæðan fyrir þokunni er eins og áður sagði sú að hafið er svalt, varla meira en 10 stig suðvestanlands, og hlýtt og rakt loftið, sem berst til landsins úr suðvestri yfir hafið, þéttist og verður að þoku þegar það snertir hið raka haf og einnig raka jörð eftir miklar rigningar undanfarnar vikur.
Þess vegna er svona svalt af því að það er svo hlýtt !
Heiðskírt í höfuðborginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það aldrei hefur Ómar skítt,
ætíð er hjá honum hlýtt,
leiðin hans þó löngum grýtt,
lífið það er aldrei frítt.
Þorsteinn Briem, 9.7.2013 kl. 14:24
Góður sem oftar, Steini Briem.
Það aldrei hefur Ómar skítt,
ætíð er hjá honum hlýtt,
leiðin hans þó löngum grýtt,
lunch-ið það er aldrei frítt.
Væri þetta hallærislegt? Kv.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 22:10
Gæsaglappa,
gerði skot,
þurs í þrot,
lappabrot,
hólmsins grjóta,
veggja ljóta,
krot.
Þorsteinn Briem, 10.7.2013 kl. 02:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.