10.7.2013 | 10:34
Upplifunarþátturinn vanmetinn.
Okkur Íslendingum hefur lengi yfirsést að útlendingar sjái landið okkar með öðrum augum en við sjálf og hafi þar af leiðandi aðrar óskir en við.
Þannig fullyrti roskinn og reyndur ferðaþjónustumaður frá Austurlandi fyrir nokkrum árum, að útlendingar hefðu engan áhuga á að skoða víðerni, hraun, sanda og eldfjöll á austanverðu landinu, heldur vissi hann það af hálfrar aldar reynslu að Hallormsstaðaskógur væri lang merkilegasta náttúrufyrirbærið þar og hefði langmesta aðdráttaraflið.
Þangað ættum við að beina erlendum ferðamönnum og reisa sem flestar virkjanir á hálendinu og gera þar "snyrtileg miðlunarlón" eins og einn þingmaður orðaði það.
Hvern hefði órað fyrir því fyrir rúmum áratug að fjöldi ferðamanna kæmi hingað nokkrum árum síðar til að skoða venjuleg hús í Norðurmýrinni í Reykjavík?
En þessir ferðamenn komu samt hingað til að skoða vettvang sögu Arnalds Indriðasonar.
Því fylgir ákveðin upplifun að lesa áhrifamikla bók eða horfa á áhrifamikla kvikmynd.
Sömuleiðis að kynnast sagnaslóðum úr sögu landsins eftir að hafa lesið um viðburði fyrri alda, svo sem sögu Fjalla-Eyvindar og Höllu og koma á þá staði þar sem þau bjuggu.
Ferðamenn hrífast af stöðum með minjum um lífsbaráttu og lifnaðarhætti fyrri kynslóða, svo sem Mesa Verde í Klettafjöllunum. Á Íslandi eru margir slíkir staðir, svo sem minjar um verbúðir á afskekktum stöðum.
Mér þótti talsvert um vert að finna þann stað í Eifel-fjöllum þar sem Hitler stóð í byrgi sínu 10. maí 1940 og stýrði ekki aðeins þaðan einstæðri herför inn í Niðurlönd og Frakkland, heldur ærðist af bræði við fréttirnar af því að Bretar hefðu hernumið Ísland og fyrirskipaði að gerð yrði áætlunun um innrás Þjóðverja til að taka landið af Bretum.
Sérstakar Game of Thrones-ferðir til Íslands eru því fullkomlega eðlilegar og bara eitt dæmi um þá möguleika, sem íslensk ferðaþjónusta hefur til að uppfylla óskir erlendra ferðamanna, sem mörgum okkar finnst óskiljanlegar af því að við horfum á allt frá eigin þrönga sjónarhorni.
Game of Thrones ferðir til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
10.7.2013 (í dag):
"Íslenskt landslag var áberandi í annarri og þriðju þáttaröð Game of Thrones en útlit þáttanna hefur fengið mikið lof.
Hér á Íslandi hafa tökur meðal annars farið fram í nágrenni Vatnajökuls, Snæfellsjökuls og Mývatns.
The Traveling Viking og Iceland Travel settu ferðirnar í sölu á mánudaginn var og að sögn Rósu Stefánsdóttur hjá Iceland Travel hafa viðbrögðin farið fram úr öllum vonum.
Hún segir að aðdáendahópur þáttanna sé stór og hugmyndin hitti því beint í mark.
Ferðirnar verða einungis í boði yfir vetrartímann svo ferðamennirnir fá stemninguna "handan veggsins" beint í æð með leiðsögumanni sem vísar þeim um svæðið."
"Ferðir Discover the World um Suðurland eru einnig til þess gerðar að fólk kynnist svæðinu "handan veggsins" en verða með töluvert öðru sniði.
Þar keyra ferðamennirnir sjálfir um á bílaleigubíl eftir leiðbeiningum og heimsækja staði eins og Vatnajökul, Jökulsárlón, Skóga og Seljalandsfoss, svo og Bláa Lónið."
Tvenns konar Game of Thrones ferðir hér á Íslandi
Game of Thrones ferðir Iceland Travel og The Traveling Viking
Game of Thrones ferðir Discover the World um Suðurland
Þorsteinn Briem, 10.7.2013 kl. 14:07
"Bláa lónið" þykir nú betri íslenska en "Bláa Lónið" en Þórhildur Þorkelsdóttir er strax orðin frábær blaðamaður, þannig að ég mæli með því að hún fái kauphækkun.
Þorsteinn Briem, 10.7.2013 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.