Vinna þeir, sem eru með bestu hópana af lyfja- og næringarfræðingum?

Fyrir mörgum áratugum gantaðist ég með það á skemmtunum að þeir íþróttamenn næðu lengst sem hefðu bestu lyfjafræðingana á sínum snærum.  Það var á þeim tímum sem íþróttamenn frá austantjaldslöndunum voru eins og sívalir hlunkar í lagin og kappar eins og Ricky Bruch, sænskur kringlukastarik bruddu steratöflur. 

Í mælskukeppni einni fauk þessi setning af vörum mínum og vakti hlátur: "...en eins og Austur-þýska íþróttakonan sagði: Skylt er skeggið hökunni..."  

Maður horfði á mjóa slána, sem virtust helsta eiga heima í millivegalengdahlaupum eða stökkum verða eins og vöðvatröll og taka upp keppni í lyftingum og köstum.

Maður vissi líka um dæmi þess að þessi lyfjanotkun breytti persónuleikum þannig að menn urðu ofbeldisfullir og skapbráðir.  

Þegar Ben Johnson var dæmdur úr leik fyrir lyfjanotkun á OL í Seoul 1988 gat ég grafið gamla djókið aftur upp og líka 1997 þegar Mike Tyson beit bita úr eyra Evanders Holyfields. 

Þá orti Pétur Pétursson, læknir á Akureyri, sem mörgum árum fyrr hafði gagnrýnt lyfjanotkun íþróttamanna harðlega:

Tyson óðan telja má.

Þó tel ég augljóst vera

að bullur þær er bíta og slá

brúki allar stera.  

Mig grunaði að Carl Lewis hefði komist klakklaust í gegnum Ólympíuleikana 1988 af því að hann hefði haft bestu lyfjafræðingana.

Nú viðurkennir Usain Bolt að hann hafi hóp manna í því verkefni að sjá svo um að hann fari ekki yfir strikið varðandi það sem hann neytir. Þess vegna hafi honum ekki hlekkst á í lyfjaprófum en keppinautum hans ekki. 

Ég þarf því að endurskoða setninguna frá 1975: "Þeir iþróttamenn vinna, sem hafa bestu hópa lyfja- og næringarfræðinga í vinnu hjá sér."  

Og þess vegna gæti það komið til álita að þessir sérfræðingar færu líka upp á verðlaunapallana með vinnuveitendum sínum til að taka við verðlaunum fyrir vel unnin störf.  


mbl.is Usain Bolt: Ég er hreinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Annar Holt en hinn er Bolt,
háma í sig stera,
ekki þykir það nú hollt,
með þrusu skegg er Vera.

Þorsteinn Briem, 25.7.2013 kl. 15:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband