Verður RUV lagt niður eins og Þjóðhagsstofnun á sínum tíma?

Vigdís Hauksdóttir sagði um daginn í sömu andrá að hún væri í aðgerðahópi við að hagræða og skera niður í ríkiskerfinu og að fréttaflutningur RUV væri dæmi um það að óeðlilega mikið fjármagn færi í RUV.

Fyrr hafði forsætisráðherrann kvartað yfir því sama og talað um "loftárásir" RUV á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana.

Nú er svo að sjá að Björn Bjarnason gangi enn lengra í bloggpistli sínum, því hann talar um að ástandið né nú orðið þannig að það sé "spurning hvort ríkisútvarpið lifi."

Hann rekur það að á þeim tíma sem hann var í ríkisstjórn, meðal annars sem menntamálaráðherra, hafi Framsóknarmenn staðið vörð um RUV þegar hljómgrunnur hefði verið innan Sjalla um að leggja það niður. Nú séu Framsóknarmenn hins vegar komnir á þessa skoðun og það breyti stöðunni.

Teljist málið komið á þetta stig verður ekki lengur um það að ræða hvort RUV verði svipt fjárframlögum í refsingarskyni fyrir meinta hlutdrægni í fréttaflutningi, heldur virðist hreinlega um það að ræða að leggja það niður, líkt og Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma.

Hún hafði áður verið sökuð um vinnubrögð sem ekki féllu í kramið og eftir að búið var að bera á hana sakir í því efni var hún hreinlega lögð niður. Spurningunni um það hvort Þjóðhagsstofnun lifði var einfaldlega svarað með því að drepa hana.

Óneitanlega er svipur með þessum tveimur málum, ekki síst þegar ráðherra, sem var í stjórninni, sem drap Þjóðhagsstofnun, stillir málinu upp á þennan hátt.  

 


mbl.is „Spurning hvort Ríkisútvarpið lifir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef fréttastofa ríkisútvarpsins er léleg, er þá ekki rétt að veita í hana meiri fjármunum? Kanski mætti leggja af rás2 enda nóg annað  í boði í útvarpsléttmetisgeiranum.

Trúlega verður þó alltaf hamlandi í rannsóknarfréttamennskunni á ríkisútvarpi, hlutdrægnisásakanir 4.flokksins sem svo aftur er með puttana í því.

Góð fréttamennska verður samt aldrei stunduð án fjármagns og einmitt á tímum "ókeypis" netfrétta er mikilvægt að hafa sjálfstæðan ríkisfréttamiðil sem getur kafað ofan í málin en vitnar ekki bara í næsta fréttamiðil eða lepur upp fréttatilkynningar stórfyrirtækjanna!

Þannig að Vigdís ætti kanski að auka fjármagn til fréttastofu ríkisútvarpsins til að bæta vinnubrögðin ef hún telur þau ekki nógu góð!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.8.2013 kl. 14:46

2 identicon

Það horfir varla nokkur maður undir 60 á sjónvarp lengur. (sem sér miðil.)

ég hef ekki horft á ruv í 10 ár.

eini gallinn sem ég sé við að losna við ruv er að það fer þá í einkahendur og sennilega allir neyddir til að halda áfram að greiða fyrir það og án efa hækkar verðið. :)

sveinn ólafsson (IP-tala skráð) 17.8.2013 kl. 14:54

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Já hvernig væri það Bjarni Gunnlaugur að þið sem viljið hafa þessa stöð settuð meiri fjármuni í hana og kannski bara borguðu hana að öllu leyti en ekki láta aðra gera það fyrir ykkur?

Jósef Smári Ásmundsson, 17.8.2013 kl. 15:36

4 Smámynd: Hrafn Arnarson

Það er hægt að læra af sögunni. það voru dýrkeypt mistök að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Greiningardeildir hinna einkavæddu sáu nú einar um að meta efnahagsástandið. Davíð var þeirrar skoðunar að það myndi nægja. Reyndin varð önnur. Greiningardeildirnar voru lítið annað en auglýsingastofur fyrir banka sem voru reknir sem vogunarsjóðir. Þjóðin er að borga þann reikning og mun gera um áraskeið. Ef Ríkisútvarpið verður lagt niður mun einkafjármagnið ráða för. Allir miðlar verða háðir hagsmunum eigenda sinna. Rekstur verður miðaður við arðsemi fjármagns. Slíkt er beinlínir hættulegt lýðræðinu. Í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi eru reknar opinberar sjónvarps-og útvarpsstöðvar. Það er ekki tilviljun.

Hrafn Arnarson, 17.8.2013 kl. 15:49

5 identicon

Fátt hefur gert mér eins billt við og nýlegt tal um að leggja niður í raun eina sameiginlega fjölmiðil þjóðarinnar, þó langt sé frá að mér líki hann vel. Ef í staðinn kæmi einkavinavæddur fjölmiðill að vanda sumra íslenskra stjórnvalda fer enn frekar um mann. Mikil efling RÚV virðist brýn svo því verði fært að rækja sínar upplýsinga- og menntunarskyldur gagnvart þjóð sem vegna vöntunar flestra á nægilegri tungumálakunnáttu er að mestu háð fátæklegri íslenskri fjölmiðlun (í víðasta skilningi: blöð, bækur, sjónvarp og internet). Að flestir íslenskir kjósendur eru fagnar örtungu - ástand sem er í sjálfu sér alls óábyrgt - skýrir sennilega margt um afstöðu til ýmissa mála hér og ekki síst hvað varðar sjálfsmynd og tengsl við umheiminn.

Magnús Magnússon (IP-tala skráð) 17.8.2013 kl. 16:58

6 identicon

"...eru fangar örtungu-", hlýtur þetta að vera. Góð ummæli hjá Magnúsi. 

Fyrir litla þjóð sem hefur fram til þessa vakið athygli fyrir frábærar bókmenntir, sem og góða mynd- og jafnvel tónlist, er sterkur sameiginlegur fjölmiðill ómissandi.

Ekki viljum við að RÚV verði LÍÚ sjoppa, eins og gamli góði Mogginn er orðinn. Og verði stjórnað af elliærum psychopath. 

Engin stofnun, ekki einu sinni Háskóli Íslands, hefur í eins ríku mæli og RÚV því hlutverki að gegna að varðveita íslenska tungu, "það eina sem veitir oss óskoraðan rétt til sjálfstæðs menningarlífs", eins og snillingurinn Helgi Hálfdanarson skrifaði.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.8.2013 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband