19.8.2013 | 10:11
Getur veikburða fjölmiðlun ráðið við þetta mál ?
Ein af afleiðingum Hrunsins var sú að fjölmiðlun á Íslandi veiktist til muna við það að fækka varð fjölmiðlafólki stórlega og að margir þeirra, sem sagt var upp og fóru af þeim vettvengi voru meðal öflugasta fjölmiðlafólksins.
Í sumum tilfellum var þetta þrautreynda og góða fjölmiðlafólk vel launað og vinnuveitendur þess töldu sig neydda til að ráða mun lakar launað fólk í staðinn, jafnvel tvo fyrir einn, sem þó var hæpið að dygði til að vinna upp þá færni, þekkingu og reynslu sem hinn brottrekni hafði.
Fyrirhuguð sjöföldun laxeldis við Ísland kallar á vandaða og ítarlega rannsóknarblaðamennsku sem leiðir fram öll helstu atriði og álitamál á þessu sviði.
Er það rétt að hundrað laxveiðiám hafi verið lokað í Noregi vegna áhrifa laxeldis? Af hverju var þeim lokað? Hvert er virði hverrar slikrar ár? Hvert er virði laxeldisins? Hvert rennur ágóðinn?
Er höfð í heiðri sú meginregla að ef vafi leikur á um eitthvað á þessu sviði, skuli náttúran látin njóta vafans?
Hingað til hefur því miður reglan hér á landi verið sú að náttúran njóti ekki vafans heldur þveröfugt.
Á tímabili var í ráði að skipta íslenska kúastofninum út fyrir mun afurðameiri norskrar kýr.
Það leit vel út í margra augum en niðurstaðan var sú að gæðin skiptu meira máli en magnið og að íslenska kýrin fengi að vera áfram einráð á þessu landi. Ég er í hópi þeirra sem fannst það góð lausn.
Er sjöföld aukning, tíföld aukning eða þaðan af meiri aukning laxeldis í sjókvíum stórmál eða smámál? Getur veikburða íslensk fjölmiðlun ráðið við að upplýsa þetta allt?
Stóraukið laxeldi hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Mér virðist að sú breyting hafi orðið helst
í kjölfar hruns að flestum hafi orðið ljóst
að fjölmiðlun er fyrst og síðast markaðssetning;
matreiðsla. Sýnist að af sjálfu leiði að hugtökin rétt og rangt;
sannleikur og lygi skipti þar engu máli.
Húsari. (IP-tala skráð) 19.8.2013 kl. 11:29
Mikið rétt. Eitt af því sem þarf að ræða er hvort eldislax sé heilsusamleg fæða. Margir sérfræðingar vara við neyslu hans. Svo mikið er víst að hann er fjarri því að vera sambærilegur við villta laxinn sem gæti úrkynjast við blöndun við eldislax. Slíkir blendingar hafa fundist nýlega í Elliðaánum.
http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/06/14/vara-vid-neyslu-a-eldislaxi/
Ásmundur (IP-tala skráð) 19.8.2013 kl. 14:18
Sjógengin lax úr ám er ólíkt bragðbetri. Fituafsprengdur eldislax er af eitthvað sem blaðamenn gætu velt upp á yfirborðið og krufið. Efast þó um að það sé hlutverk þeirra nema eftirspurn sé fyrir hendi, einhver vilji borga fyrir samantektina.
Löggjafinn hefur búið til umhverfið þar sem umræðan á að fara fram. Hann hefur sett RÚV á toppinn með axlabönd og belti, nefskatt og auglýsingar. Þar fer nær engin umræða fram á sumardögum, en á veturna í þröngum hópi. Skrítið að "hægri" menn hafi búið til þennan graut.
"Fríblaðið" skekkir valmyndina. Hugrakkir blaðamenn í fámennisþjóðfélagi eru sem betur fer að upplýsa og bera á borð athyglisverðar fréttagreinar eins og DV í dag. Þar er lesandinn að kaupa aðgang án styrkja og eftirgjafar.
Við búum laxinum umhverfi, ólíkt makríl og aðþrengdum frjálsum blaðamönnum. Viljum við hafa stóra óspillta laxastofna í okkar ám eða hrekjast eins og Norðmenn og loka ánum? Góð spurning sem á bæði við um fjölmiðlamenn og villta laxinn.
Sigurður Antonsson, 19.8.2013 kl. 20:51
Það er kannski ekkert skrýtið að fáir vilji ræða um sjógenginn lax. Allir vilja veiða og borða hann. Þaulreyndir blaðamenn eru venjulega ekki lengi að koma upp á yfirborðið með helstu staðreyndir um villta laxinn. Sá fóðurfitaði er meira einangraður. Orri Vigfússon var með blaðagrein um laxinn fyrir nokkrum dögum, en oft vilja góðar greinar týnast í blaðahafinu.
Undanfarnar vikur hef ég átt þess kost að ganga upp með Þjórsá, tugi km. bæði efst og neðst. Víðernið við ósa hennar er eitt af undrum Íslands, nær ósnortið. Þar gengur upp stærsti villti laxastofn í Evrópu. Þar er einnig að finna, álftir, skúm, gæs og lóm.
Á efri hlutanum er háfjallafegurð, ótal fossar og jöklar í baksýn. Nær óspillt náttúra sem ferðamenn sækjast mest í að sjá. Nú þegar dagur styttist verða þessar perlur með sínu lífríki enn áhugaverðari.
Sigurður Antonsson, 19.8.2013 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.