20.8.2013 | 20:22
Miðstökkið er lykillinn.
Það er ekki að undra að 17 ár skuli vera síðan síðast var stokkið lengra en 18 metra í þrístökki.
Lengdin samsvarar því að meðallengd hvers stökks sé 6 metrar, en það er ekki neitt áhlaupaverk að stökkva tvö 6 metra stökk á eftir fyrsta stökkinu, enda er það ekki gert.
Fyrsta stökkið hlýtur óhjákvæmlega að verða lengst og allt fram yfir miðja síðustu öld stukku menn eins og Ferreira Da Silva rúmlega 16 metra, en þá var fyrsta stökkið rúmlega 6,50 metrar, miðstökkið tæplega 4,50 og síðasta stökkið um 5,50.
Þegar Vilhjálmur Einarsson var við æfinga í Svíþjóð og stökk 15,83 metra þar, taldi sænski landsliðsþjálfarinn að Vilhjálmur gæti lengt heildarstökkið með því að halda fyrsta og síðasta stökki jafnlengi og fyrr en lengja hins vegar miðstökkið.
Vilhjálmur fór að þessum ráðum, og í stað þess að stökkva firnalangt og hátt fyrsta stökk eins og Da Silva og fylgja eftir með tiltölulega lágu og stuttu miðstökki til að eiga hraða fyrir síðasta stökkið, stökk Vilhjálmur fyrsta stökkið lægra en "flaut" vel áfram til að halda hraðanum og "flotinu" fyrir lengra miðstökk með hárri hnélyftu, sem aftur var nýtt til að fylgja vel eftir í síðasta stökkinu.
Allir bestu þrístökkvarar nútímans stökkva á þennan hátt og forðast að lyfta sér svo hátt til flugs, að hraðinn drepist við að koma niður eftir fyrsta stökkið.
Bretinn Edwards var dæmigerður fyrir þetta þegar hann braut 18 metra múrinn, hraðinn og rytminn í gegnum allt stökkið var jafnvel enn mikilvægara en hrár stökkkraftur.
Það er unun að horfa á góðan þrístökkvara og ég hef alltaf haldið mikið upp á þessa grein.
Það er eins og þeir bestu upphefji þyngdarlögmálið þegar þeir líða áfram eða "fljóta" á ofurhraða í gegnum stökkin.
Vilhjálmur Einarsson nýtti sér vel mikinn hlaupahraða sinn, sem kom vel í ljós þegar hann var eitt sinn fenginn til að hlaupa í skarðið í 4x100 metra boðhlaupi í landskeppni við Dani og lenti á móti fljótasta Dananum, sem öllum til undrunar hafði varla við Vilhjálmi!
Hraðinn nýttist honum hins vegar ekki í þrístökki án atrennu, þar sem stökkkrafturinn sjálfur skiptir mestu.
Þannig átti Jón Pétursson hástökkvari og kúluvarpari, sá ótrúlegi íþróttamaður, Íslandsmetið í þeirri grein og stökk rúmlega 10 metra.
Tamgho stökk yfir 18 metra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.