Smáleiðrétting: Eir er hjúkrunarheimili og ég er ekki þar.

Vegna þess að fólk les stundum bara fyrirsagnir mætti halda að ég sé nú kominn á hjúkrunarheimilið Eir þegar sagt er: "Ómar Ragnarsson fluttur á Eir."  

Aðeins ein stofnun á landinu heitir þessu nafni, "Hjúkrunarheimilið Eir" og það er hjúkrunarheimili eins og nafnið bendir til með fullri hjúkrun að sjálfsögðu eins og á spítala.

Ég sá hins vegar síðast hjúkrunarfræðing á sýningu minni í Landnámssetrinu síðastliðinn laugardag, og það var meira að segja fyrrverandi hjúkrunarfræðingur.  

Eins og þegar sprelllifandi rithöfundur einn sagði að fréttir af andláti hans væru ýktar má segja um þessa fyrirsögn um að ég sé kominn í kör á hjúkrunarheimilinu Eir, að hún sé ýkt, svo ekki sér meira sagt, enda kemur allt annað fram í fréttinni, sem verður að teljast lítil frétt, að maður flytji úr einni leiguíbúð í aðra.

Hér í blokkinni er að vísu flest fólkið komið yfir miðjan aldur en hér er líka yngra fólk, enda hafa íbúðirnar verið leigðar út án tillits til aldurs.

Síðar í fréttinni kemur hið rétta fram, að þetta eru Eirborgir en ekki Eir. Nema menn haldi að flutningurinn á Gálgarokki á dögunum í Neskirkju hafi verið helfró í andarslitrunum, eins og þegar hani flýgur hauslaus, þegar búið er að höggva af honum hausinn.

Það er hins vegar hagsýni fólgin í því að stytta flutningsleiðir með því að búa hérna og vera viðbúinn því að fara sem stysta leið héðan láréttur þegar þar að kemur yfir á hjúkrunarheimilið Eir og þaðan sem stysta leið láréttur yfir í Gufuneskirkjugarð.   

Þetta minnir mig á fyrirsögn hér í gamla daga sem var svona: "Boltinn sprakk og Fram vann."

Þótt leitað væri með logandi ljósi í fréttinni sjálfri var þar ekki orð að finna um sprunginn bolta. En Fram vann.   


mbl.is Ómar Ragnarsson fluttur á Eir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki getur Ómar meir,
allvel ber þó aldur,
hann er nú með Auði Eir,
orðinn næstum kaldur.

Þorsteinn Briem, 7.11.2013 kl. 23:39

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll Ómar.

Geiri í Gufunesi sagði einnig að heimreiðin væri rétt nógu löng til að ná alla leið.... Hvergi var minnst á stutt eða langt í því efni einungis að ná heim, hvað sem tautar og raular.

Sindri Karl Sigurðsson, 7.11.2013 kl. 23:41

3 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Get nú sullað saman einni limru svona fyrir ný fluttann manninn:

Hraunið Ómar bítur

hans tími er kominn sem slíkur

hlutskipti á Eir

hlýtur æ meir

honum Geira ekkert er líkur

Sindri Karl Sigurðsson, 7.11.2013 kl. 23:58

4 identicon

"... Nema menn haldi að flutningurinn á Gálgarokki á dögunum í Neskirkju hafi verið helfró í andarslitrunum, eins og þegar hani flýgur hauslaus, þegar búið er að höggva af honum hausinn."

Ha. ha. ha. ha.,   

Takk fyrir upplyftinguna í morgunsárið Ómar !   

ps. Ég sá í fréttum "Gálgahraunsrokkið" og gat ekki betur séð en að hausinn sæti sem fastast á sínum stað ;-)

ps. 2   Mig minnir að hafa séð það í heimsmetabókinni að maður nokkur í Ameríku hafi afhausað hænu (líklega í kring um 1925) en hún lifði áfram nokkuð góðu lífi. Karlinn gaf henna hnetur um strjúpann og fór með hana í síningaferðir um Bandaríkin.  Hænan kafnaði að lokum þegar ein hnetan stóð í henna!    Þessa dæmisögu (sé þetta dæmisaga) verður hver að túlka eins og vill.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.11.2013 kl. 08:25

5 identicon

Svo að fólk sem les bara fyrirsagnir en ekki fréttina sjálfa er líklegra til að lesa blogg? :)

sveinn ólafsson (IP-tala skráð) 8.11.2013 kl. 12:58

6 identicon

Sæll Ómar.

Ég ger ómögulega skilið þennan misskilning því ég veit ekki hvað þú ert að leiðrétta.

Held ég að svo sé um fleiri.

Hvernig væri nú að segja alla söguna svo maður skilji? Eða er þetta einhver einkahúmor?

Kveðja

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 8.11.2013 kl. 13:35

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðréttingin mín við fyrirsögn "fréttarinnar", "Ómar Ragnarsson fluttur á Eir" og ég setti hana fram, því að margir lesa bara fyrirsagnir og fyrirsagnir eiga að segja hið rétta.

Leiðréttingin sést í fyrirsögn bloggpistils míns. Eir er hjúkrunarheimili og hvorki var ég fluttur þangað né flutti ég þangað.

Eirborgir, þar sem ég bý nú, er ekki Eir, og Eirborgir eru ekki hjúkrunarheimli.

Ómar Ragnarsson, 8.11.2013 kl. 16:04

8 identicon

Steini yrkir ótt og títt'

ýmsar skrítnar bögur

á klósettinu er altaf hlítt

þar er fægilögur

ATHS (IP-tala skráð) 8.11.2013 kl. 18:29

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

ATHS, öðru nafni Þorvaldur S og enn öðru nafni Æri-Tobbi.

Þorsteinn Briem, 8.11.2013 kl. 18:35

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í gærkvöldi heyrði ég vitnað í það sem Indriði G. Þorsteinsson sagði þegar hann var ritstjóri Tímans: "Góð frétt á aldrei að líða fyrir sannleikann."

Ómar Ragnarsson, 9.11.2013 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband