25.12.2013 | 02:22
Ég hugsa, þess vegna er ég.
Ofangreind vísdómsorð vefjast oft fyrir mörgum. "Bókvitið verður ekki í askana látið" sögðu þeir sem áttu erfitt með að meta nein verðmæti nema út frá efnislegum mælikvörðum eins og þyngd.
Þessi lífsskoðun og þetta gildismat lifir enn furðu góðu lífi hjá okkur nútímamönnum vegna þess að enda þótt nú sé það svo sár skortur á efnislegum gæðum og örbirgð hjá lang flestum, sem verður til þess að mammon og gull hans verður að höfuðatriði og leiðtoga lífsins, skiptir raunverulegurskortur ekki lengur máli, heldur verður eftirsóknin í auð og völd slík að hún kann sér engin takmörk og finnst alltaf skorta eitthvað.
Höfuðatriðið er þessum hugsunarhætti er að "hugarórar", "tilbúningur", "skáldskapur" og "listir" séu ekki mælanleg með efnislegum mælikvörðum og því að engu hafandi.
Tonnin og megavöttin séu hins vegar áþreifanleg og af því að skáld og aðrir listamenn "framleiddu" ekki neitt mætti skilgreina þá sem afætur og ónytjunga og bagga á þjóðinni.
Ef einhver hefði sagt þeim, sem sögðu á sínum tíma að bókvitið yrði ekki í askana látið, að til væri ósýnilegt og óáþreifanlegt fyrirbæri sem gæti flutt hljóð,myndir og orku á ljóshraða um heim allan ef það væri beislað, hefði sá, sem hefði sagt þetta, hafa verið talinn fullkomlega geggjaður.
Þetta gerði rafmagnið þó síðar en þá var sá hluti þess sem býr til orku og efnisleg gæði tekinn inn í átrúnaðinn á tonnin og megavöttin sem hjálpa til við að búa tonnin til.
Mótív Kjarvals, andlit og álfabyggðir, sem hann sá í grjóti, mosa og grasi, og voru hluti af list hans, sem varð til í Gálgahrauni, eru gerð að athlægi eftir því sem unnt er eins og nýjasta umfjöllun í erlendum og innlendum fjölmiðlum ber vitni um.
Sagan aldanna sem hraunið angar af, göngustígarnir og mannvistarleifarnar, eru líka lítils metin hjá efnistrúarmönnum.
Ástæðan er sú, að gildi þeirra hughrifa sem hraunið veitir, stendur í vegi fyrir og stangast á við hagsmuni valdaafla sem sjá ekkert huglægt gildi í hrauninu, heldur aðeins viðfangsefni fyrir jarðýtur og mannvirkjagerð.
Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, frumkvöðull þeirrar náttúruverndarhugsunar, sem hafði legið í láginni síðan á dögum Sigríðar í Brattholti og friðlýsingar Þingvalla, velti upp samanburði á verðgildi unaðsstunda og megavattsstunda, en í augum dýrkenda efnisgæða er hægt að meta megavattsstundina í krónum, eftir því hve mikilli framleiðslu í tonnum hún getur áorkað, en unaðsstundin er hins vegar verðlaus, af því að enga þyngdar- magneiningu er hægt að nota á hana.
Sigurður taldi að enda þótt unaðsstundin, hrifningarstundin, væri hugarástand og því óáþreifanlegt, væri fráleitt annað en að viðurkenna gildi hennar.
Hugarástand fólks er nefnilega dýrmætt fyrir hamingju mannsins og lífsnautn. Ef við hugsum ekkert og njótum einskis unaðar hrifningar eða hugarástands, erum við einskis virði.
Við njótum unaðar hugarástandsins, sem fylgir jólunum, en þó er hvergi hægt að þreifa á jólunum eins og málmstykki, sagan af Jesúbarninu og öll tónlistin og ljóðin, sem gerð hafa verið um hana, vega ekki gramm á vigt efnisgæða.
Þjóðsagan um Tungustapa í Hvammssveit er mögnuð og dramatísk saga, sem hrífur huga þess sem heyrir hana eða les. Lagið og ljóðið um Kirkjuhvol gera það sömuleiðis.
Þó hefur enginn þreifað á álfi, álfakóngi eða álfadrottningu þar um slóðir. Hugarástand þess, sem stendur og virðir fyrir sér stapann og sér fyrir sér opnar dyr álfakirkjunnar, er raunverulegt og gefandi, þótt hvergi sé hægt að þreifa á því með berum höndum.
Þeir, sem hæða og spotta slíkt, myndu að sjálfsögðu fagna því ef hægt væri að finna tilefni til þess að bjóða út það verk að ryðja stapanum um koll með jarðýtum, ef einhver gæti grætt á því peninga.
Eftir að Arnaldur Indriðason skrifaði glæpasöguna "Mýrin" kom fjöldi erlendra ferðamanna til Íslands og fór um Norðurmýrarhverfið til þess að lifa sig inn í vettvang sögunnar.
Var hún þó óumdeilanlega skáldsaga og persónur hennar höfðu aldrei verið til, heldur aðeins hugarfóstur frábærs listamanns.
Um Gálgahraun liggja alls sjö göngustígar með nöfnum, sem gera fólki kleift að ímynda sér og lifa sig inn í aðstæður fólksins, sem gekk um þessa stíga fyrr á öldum. Það var lifandi fólk á sínum tíma en ekki hugarfóstur skálds.
Að því leyti eru þessar slóðir með raunverulegra fóður fyrir hrífandi hugarástand en Norðurmýrin.
Það er alveg sama hve gott líkamlegt ástand okkar er, - ef andleg líðan okkar er slæm, drepin í dróma eða dauð og köld án snefils af ímyndunarafli, er líkamlegt og efnislegt ástand okkar einskis virði.
Við hugsum. Þess vegna erum við.
Þetta er jólaandinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð jólahugleiðing hjá þér, Ómar minn, og er að sjálfsögðu alltaf í fullu gildi.
Gleðileg jól!
Þorsteinn Briem, 25.12.2013 kl. 05:43
Gleðileg Jól Ómar!
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.12.2013 kl. 07:54
Sumir virðast sjá list í hagnaði. Gleðileg jól Ómar og fjölskylda.
Guðlaugur Hermannsson, 25.12.2013 kl. 09:03
Innilegustu jóla og nýárskveðjur til þín og þinna Ómar. Bestu þakkir fyrir skemmtileg skrif á árinu.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 25.12.2013 kl. 09:38
Ég er þeirrar skoðunar að máltækið "Bókvitið verður ekki í askana látið", sé misskilið af flestum.
"Actions speak louder then words" segir enskt máltæki og er af sama meiði held ég og vísar til þess að það þarf að gera hlutina en ekki nóg að hugsa eða lesa og læra um þá.
Eða eins og segir í texta í lagi með þeim bræðrum Halla og Ladda: "Það þýðir ekki að sitja heima og lesa".
Gleðileg jól.
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.12.2013 kl. 14:17
Þegar ég last „Orðræða um aðferð“ vissi ég ekki að Descartes hafði verið frumkvöðull vestrænnar vísindahyggju. Þó sást fljótt í bókinni hvernig hann hafði reynt að axla eða áframhalda starfi Leonardo Da Vinci meðal annars með ítarlegum og frábærum rannsóknum á starfsemi líkamans.
Þá hafði hann tileinkað sér rökhyggju og stærðfræði en þó hann væri ekki sérstakur stærðfræðingur var hann óumdeilanlega natinn, samviskusamur og vann mjög kerfisbundið.
Þetta sést vel í bókinni og þegar maður ber hana saman við rit samtímans og hvernig hún var ein margra rita sem ýttu Kaþólskri veraldarhyggju til hliðar og upphóf upplýsinguna og vísindahyggjuna þá er hún tímamótarit og Descartes frábær heimspekingur, sérstaklega með tilliti til þess hve upplýsingin hefur fært okkur nær *mennskunni* sem Gunnar Dal var mikill baráttumaður fyrir.
Sjálfum fannst mér Descartes missa marks þegar hann reyndi að afsaka sig í augum kirkjunnar. Auljóst var hverjum sem las að hann var meðvitaður um bannfæringaræði kirkjunnar og vildi ganga í augun á henni. Aðal vopn hans var að sýna fram á að með rökfræði sinni - sem enn er hornsteinn vísindahyggju - vildi hann sanna tilvist Guðs. Og mistókst.
Sá sem þetta ritar er trúmaður og áhugamaður um vísindi jafnt sem heimspeki og þótti mér grunnhyggið af svo djúpvitrum manni að reyna að sanna eitthvað sem ekki á að sanna.
Því trú sem verður sönnuð er engin trú. Eins og Biblían kennir um trú þá er hún „fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“. Að þessu sögðu er ég mér vel meðvitaður að því aðeins vex maður og þroskast í „hinu óséða“ að maður kunni að efast og þá bregðast við efa sínum með gagnvirkri innri samræðu.
Rétt eins og sagt er að vísindin útskýra það sem áður þótti galdrar.
Það sem mér finnst hér skemmtilegt er hvernig sjá má hluti frá mörgum hliðum samtímis, vera í mótsögn við sjálfan sig og um leið vera heill. Heiðinn?
Takk fyrir frábæran pistil Ómar. Það mættu fleiri vera jafn dugandi og færir og þú í að halda á lofti og berjast fyrir því sem þjóð okkar og mennsku er dýrmætast.
Sjálfur veit ég að ég er, því ég skynja það.
Gleðileg jól
Guðjón E. Hreinberg, 25.12.2013 kl. 14:32
Fallegur pistill. Efnishyggjan er vítt og breitt og vegar stöðugt salt við skynsemina, sjaldnast er jafnvægi - yfirleitt hallar á skynsemina. Mæli með grein Gunnars Smára í Fréttatímanum 20.-22. des. þar sem fjallað er um fallvaltleika drauma. Fólk er stöðugt á leið upp breiða stigann í leit að einhverju betra (efnisgæðum í einhverri mynd). Svo allt í einu er fólkið komið upp á háaloft (upp hænsnastigann) en loftið er ekki manngengt, fullt af húsaskúmi, rökkri og rusli (minningum). Þá allt í einu þarf það að staldra við . . .
Sesselja Guðmundsdóttir, 25.12.2013 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.