Það er ekki lengra í burtu en þetta.

Gott er að forseti Íslands gerði neyð og fátækt á landinu okkar að umtalsefni í áramótaávarpi sínu.

Hluti af 60 blaðsíðna viðbót við bókina "Manga með svartan vanga" sem kom út í haust undir sama nafni og fyrir 20 árum, en með viðbótinni "  - sagan öll", fjallar um stefin "það er ekki lengra síðan" og "það er ekki lengra í burtu en þetta", - nákvæmlega um það sem forsetinn minnti á.Manga.

Um fyrri setninguna "það er ekki lengra síðan" fjallaði samnefndur bloggpistill í ágúst sem var kveikjan að því að endurskrifa bókina um Möngu, því að sú bók fjallar um mikilhæft fólk, sem var samtíða mér fram undir lok aldarinnar en varð undir og hraktist út í ömurlegar aðstæður við það að verða fórnarlömb misréttis, stéttaskiptingar og fátæktar.

Í bókinni bæti ég við nokkrum atriðum varðandi það hve nálægt neyðin og fátæktin eru okkur enn, svo sem þessu:

"Fyrir hver jól myndast biraðir fyrir framan aðsetur Mæðrastyrksnefndar. Allir vita hvers vegna og víðar má sjá hliðstæð fyrirbæri.

Meðal þess fólks, sem þar neyðist til að leita hjálpar, getur verið fólk sem á heima hvar sem er í því samfélagi eilífs stéttleysis sem stundum er gumað af að hafi verið og sé á Íslandi. Ég er að tala um fólk, sem gæti átt heima í næstu íbúð eða húsi við mig. Þetta er ekki lengra frá okkur en það.

Heimurinn hefur skroppið saman. Ég hef farið frá Íslandi til Mapútó á einum degi, staðið þar á svölum glæsilegs íslensks sendiráðs og horft yfir flóann. Nú er hægt að tala þaðan heim á Skype og láta fólkið heima sjá "live" yfir flóann, þar sem býr óheyrilega fátækt fólk í strákofum algerlega klippt frá heiminum.

Barnadauðinn og mannfall vegna alnæmis er skelfilegt, handan við skilning okkar, en þaðan getur vestrænn maður talað beint í síma í gegnum gervihnött. Ég er að tala um fólk í Afríku, sem er samtíða okkur í dag og við getum sýnt í gegnum gervihnött. Það er lengra í burtu en þetta.

Ég komið tvívegis, með þriggja ára millibili, til hins afskekkt fjallaþorps El-Kere í Eþíópíu. Þar er mannfellir með reglulegu millibili vegna hungursneyðar af völdum þurrka. Samt geta börnin stundum og hlegið rétt eins og fátækt og sveltandi börn á Íslandi gátu stundum, þrátt fyrir allt, þegar hér ríkti svipað ástand.

Sum börnin í El-Kere brostu og hlógu í fyrra skiptið þegar ég kom þangað í fyrra skiptið en í seinna skiptið kom ég að gröfum þeirra.

 Ég gæti farið þangað nú, talað heim í gegnum gervihnött og sýnt beint nýjustu barnagrafirnar. Ég er að tala um afrísk börn sem ég kynntist fyrir örfáum árum og grafir þeirra sem ég get sýnt "live" í gegnum gervihnött. Þetta er ekki lengra frá okkur en þetta."

Vesalingar Victors Hugo voru ekki bara hugarfóstur í bók. Þeir voru og eru enn bitrasti sannleikurinn um tilvist mannkynsins og nær okkur en okkur þykir þægilegt að tala um eða kannast við.

Tæknilega er hægt að horfa á vesalinga heimsins "live" hvar sem er í heiminum. Þeir eru ekki lengra frá okkur en það."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband