Sáttmáli hve margra kynslóða?

Gott er að heyra orðin "sáttmáli kynslóðanna" úr munni forseta okkar í ágætri áramótaræðu hans því að viðburður er að svona orð heyrist hjá stjórnmálamönnum eða í umræðunni hér á landi. 

Ég er þakklátur fyrir að hann hafi bryddað upp á þessu, því að  "orð eru til alls fyrst" segir máltækið, og þetta er þó byrjun, tvö orð, eitt skref.

En hún er ákaflega varfærin byrjun og hrekkur afar skammt.  Hve margar kynslóðir eiga þetta að vera? Aðeins þær sem nú eru á lífi? Og hvaða kröfur á að gera í svona sáttmála? Hve langt á hann að ná?

Ég hef oft áður hér í pistlunum greint frá því hvernig svonefndir "frumstæðir þjóðflokkar" indíána í Bandaríkjunum settu sér það skilyrði fyrir nýtingu landsins gæða og auðlinda, að hún skerti á hverjum tíma í engu möguleika sjö næstu kynslóða til nýtingar.

Í raun var þetta krafa um sjálfbæra þróun, jafnyrkju í stað rányrkju, um alla framtíð, því að í svona kerfi gerist það, að þegar hver kynslóð fellur frá, bætist ný kynslóð aftan við í röð hinnar sjö kynslóða.

Indíánarnir höfðu sem sé, öldum og jafnvel árþúsundum á undan öðrum, gert með sér nokkurs konar Ríósáttmála um sjálfbæra þróun, auðyrkju í stað rányrkju.

Forsetinn fer sjálfsögðu varlega í orðavali sínu og verður sennilega að gera það til að styggja ekki ráðandi öfl hér í landi, því að í raun fer því enn víðs fjarri að við Íslendingar hugsum neitt um það réttláta jafnrétti kynslóðanna sem felsti í því að hafna rányrkju.

Þvert á móti er æðsti draumur okkar enn fólginn í því að hrifsa til okkar eins mikið af afrakstri auðlindanna og mögulegt er, klára orku jarðvarmasvæðanna á nokkrum áratugum og gefa öllu tali um "sáttmála kynslóðanna" langt nef hvað varðar það að moka upp hugsanlegri olíu í auðlindalögsögu okkar á mesta mögulega hraða.

Þetta auðrán fram í framtíðina á kostnað komandi kynslóða er í fullum gangi og þótt það sé mikilsvert að byrja að orða sáttmála kynslóðanna er í raun hægt að steindrepa alla möguleika á jafnrétti kynslóðanna með því að draga svo mjög lappirnar í þessu viðfangsefni að það verði í raun eyðilagt.

 

 

 


mbl.is Ólafur hvetur til samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Satt best að segja áttaði eg mig ekkert á ræðu ÓRG og hvert hann er að meina. Hann vill samstöðu. Um hvað á hann við? Á s.l. ári skrifuðu um 40.000 Íslendingar undir áskorun til forseta að neita undirritun nýrra laga skattgreiðslum tengdum gjafakvóta Framsóknarflokksins. Hann neitaði, kvótann má ekki skerða en það má stela honum frá þjóðinni!

Þá er ÓRG með stórkarlalegar yfirlýsingar um rafmagnssölu til Evrópu. Þó svo allir fossar væru virkjaðir á Íslandi og öllu fórnað, þá gætum við í besta falli útvegað Færeyingum og kannski öllum Skotum rafmagn. En stórum hlæuta Evrópu!!!! Forsetinn þarf að lesa sig betur til áður en hann ferðast og flytur ræður um eitthvað sem verður aðeins að flimti.

Með bestu nýjárskveðjum með þeirri frómu von að við fáum réttsýnni og heiðarlegri ríkisstjórn sem allra fyrst!

Guðjón Sigþór Jensson, 1.1.2014 kl. 17:17

2 Smámynd: Einar Karl

"sáttmáli kynslóðanna" - Forsetinn notar þetta orðalag yfir fyrirhugaðar skuldaleiðréttingaaðgerðir stjórnvalda, en hugtakið var einmitt notað á kynningarfundi forsætisráðherra og nefndarinnar 30. nóvember sl.

Pínu sérstakt að Forsetinn noti svona gildishlaðið "PR"-hugtak stjórnvalda um stórtæka aðgerð sem enn á eftir að ræða á þingi og afgreiða sem lög. Þ.e.a.s. ef Forsetinn ætlar sér að vera flokkspólitískt hlutlaus, en það er líklega löngu liðin tíð.

Einar Karl, 2.1.2014 kl. 00:07

3 identicon

Þið hljótið að hafa misst af innganginum: "Gleðilegt ár, hér er listi yfir hátíðleg orð sett saman í hljómfagran hrinjanda án nokkurrar merkingar og galopið til túlkunar eftir hentugleik...

Oddur zz (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband