4.1.2014 | 12:18
"Rugludalsbunguveita".
Eitt hið eftirminnilegasta úr bókinni "1984" eftir George Orwell var lýsing hans á möguleikum valdhafa til þess að nota villandi hugtök og umpóla merkingu orða til að rugla fólk og ná fram markmiðum sínum.
Allt of mikið er um þetta í virkjanamálum á Íslandi. Það sést best á því að skoða breytinguna, sem hefur orðið frá fyrstu virkjununum og virkjanahugmyndinum. Elliðaárvirkjun, Urriðafossvirkjun, Ljósafossvirkjun, Írafossvirkjun, Skeiðsfossvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Mjólkárvirkjun og Blönduvirkjun eru gott dæmi um rökrétt nöfn.
Fallorka þessara fossa og þessara vatnfalla var virkjuð. Menn voru heiðarlegir og rökfastir eftir því sem því varð við komið.
Á sama hátt væru rétt nöfn á Norðlingaölduveitu og Kvíslaveitu Þjórsárvirkjun og Kvíslavirkjun. Fallorka Þjórsár er virkjuð með því að taka hana úr náttúrulegum farvegi sínum og færa hana yfir í annað vatnasvið þar sem fallorka hennar nýtist í hverflum virkjananna í því vatnasviði.
Fallorka kvíslanna, sem falla úr austri í efsta hluta Þjórsár, er virkjuð með því að taka þær úr náttúrulegum farvegum sínum og færa þær yfir í annað vatnasvið.
Ég heyri á nær öllum, meðal annars fjölmiðlafólki, sem hefur samband við mig, að það er búið að rugla það með villandi nafngiftum á fyrirbærum.
Skal engan undra, því ef sama aðferð hefði verið notuð við að gefa Blönduvirkjun nafn og við nafngift Norðlingaölduveitu, hefði hún hlotið nafnið Rugludalsbunguveita !
Það var nefnlega reist stífla, sem nær yfir í svonefnda Rugludalsbungu og er notuð til að veita ánni úr náttúrulegum farvegi sínum sem var í Blöndugljúfri.
Annað dæmi um villandi hugtakasmíð eru nöfnin á flokkun virkjanahugmynda í rammaáætlun í verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk.
Með þessum heitum er gefið í skyn að virkjun sé eina mögulega formið á nýtingu. Gildi Gullfoss ósnortins er hins vegar besta dæmið um það, hve þessi uppsetning er villandi.
Hið rétta væri að talað væri um verndarnýtingu og orkunýtingu. Gullfoss er klassadæmi um verndarnýtingu sem skilar mun meiri ávinningi en orkunýting hefði gert.
Mér dettur ekki í hug að nota orðið nýtingarflokk og með því að nota orðið virkjun frekar en nýtingu er ég meira að segja ekki fullkomlega rökvís þótt ég telji mig neyðast til að einfalda málið og lagfæra með því í stað þess að játast algerlega undir hina villandi uppsetningu.
Bendi á bloggpistlana hér á undan um málið og facebook-síðu mína og einnig á fróðleik um þessa virkjun Þjórsár á náttúrukortinu á vef Framtíðarlandsins.
Athugasemdir
Orkustofnun skilur heldur ekki orðanna hljóðan í lögunum og er gerð afturreka með allt sem ekki passar þeim sem hafa efni á flottustu lögfræðinunum sbr.
http://orkustofnun.is/orkustofnun/frettir/nr/1523
Raforka (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 14:06
Hökull
Einn fegursti foss á Íslandi er í yfirlætislausri þverá Þjórsá, Hölkná. Hann er hljóðlátur slæðufoss og gæti heitið Hökull, því að með öllu er óviðeigandi að þvílíkur dýrgripur sé nafnlaus. Algjört augnayndi og skammt frá honum er leitarkofi sem segir sína sögu. Hökull er hluti af messuskrúða, þræðir skrauts, lita og tákna aftur í aldir.
Í orðabókinni er höllkn, grýtt og gróðurvana landsvæði, öræfaígildi sem býr yfir ákveðnum töfrum. Næstu örnefni við Hölkná eru Ófærutangi, Öræfatögl og brúnir. Örnefnin Hóla og Fitjaskógar eru ekki langt undan, en efstu skógarleifar eru við Hökull. Upp með Þjórsá að vestan eru ótal gróðurvinjar, grámosi og víðir.
Áhugamenn um verndun Þjórsá hafa lagt til að friðland Þjórsárvera næði um gljúfur Þjórsá allt niður að Stöng. Háifoss og Stangarfjall meðtalið. Ég sé ekki betur en að Ómar sé að vefa sinn öræfahökull, eins ötull og hann er við að vekja athygli á fossagersemum við Þjórsá.
Sigurður Antonsson, 4.1.2014 kl. 18:35
Ég hef lengi talið að sýna eigi stórhug í þessu friðlandsmáli og láta friðlandið ná alveg niður að Þjórsárdal, yfir Kerlingarfjöll, norður um Guðlaugstungur og syðstu dalbotna í Skagafirði, þaðan austur um yfir Hofsjökul og til Vonarskarðs, þannig að meginhluti miðhálendisins verði friðland, eins og meirihluti aðspurðra í skoðanakönnun vildi haustið 2011.
Ómar Ragnarsson, 4.1.2014 kl. 19:55
Þessi ríkisstjórn er þvílík rugludallastjórn. Svo virðist sem lýðræðið sem annað vefjist fyrir henni. Og forsetinn virðist hafa ruglast einnig heldur betur í ríminu. Þessir broskallar telja sig geta útvegað allri Evrópu raforku. Ef allir fossar Íslands verða virkjaðir þá gætum við skaffað Færeyingum og Skotum nokkurn veginn næga raforku en varla nokkuð meira.
Er náttúra Ísland einskis virði í augum þessara herramanna?
Eða telja þeir náttúruvernd ganga út á það að verið sé að vernda virkjunarmöguleika fyrir náttúru Íslands?
Guðjón Sigþór Jensson, 4.1.2014 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.