27.1.2014 | 13:14
Gríðarlegar breytingar um allt land.
Síðustu 17 ár hef ég haft mikla viðveru á norðausturhálendinu og síðustu 10 ár dvalist oft á hverju sumri á svonefndum Flugvelli, sem er örnefni frá árinu 1940 en nefnist nú hinu opinbera heiti Sauðárflugvöllur með alþjóðlegu skammstöfuninni BISA.
Frá honum er gott útsýni til suðurs í átt að Brúarjökli og Kverkfjöllum eins og sést á þessari loftmynd, sem tekin er sumarið 2009 til suðvesturs, í átt að Brúarjökli til vinstri og Kverkfjöllum á miðri mynd, en þá voru aðeins komnar þrjár af þeim fimm flugbrautum sem nú eru á þessum næst stærsta flugvelli landsins.
Græna svæðið fyrir sunnan flugvöllinn er land, sem allt fram yfir 1940 var kvíslanet Sauðár, sem þá var jökulá. En jökullinn hopaði svo hratt að útfallið færðist og nú er Sauðá sakleysileg bergvatnsá og aurarnir orðnir grænir af mosa.
Svo ótrúlegt, sem það kann að virðast, náði Brúarjökull eftir framhlaupið 1890 alveg fram að þessu græna svæði og var þá í aðeins tveggja kílómetra fjarlægð frá flugvellinum.
Þar er magnað náttúrufyrirbæri núna, í stuttri göngufjarlægð frá flugvellinum, sem heitir Sauðárhraukar, og er slíkt náttúrufyrirbæri hvergi að finna í heiminum nema á þessu svæði.
Jökullinn hljóp svo hratt fram 1890 og fór svo hratt til baka að hann hafði ekki tíma til að grafa sig niður og búa til venjulegaqr háar jökulöldur úr möl, heldur vöðlaði hann á undan sér þykkri gróðurþekjunni og bjó til hólaröð, sem er eins og rúlluterta að því leyti, þegar tekið er lóðrétt snið úr að í jarðveginum má sjá öskulög úr Íslandssögunni svo sem frá Heklu 1104.
Nú er 12 kílómetra loftlína frá flugvellinum til jökulsins og ég hef næstum því horft á hann lækka og fjarlægjast síðustu tíu árin.
Á vegaskilti við slóða, sem liggur í átt á jöklinum og sett var þar fyrir nokkrum árarugum, stendur "Brúarjökull 8" þ. e. að 8 kílómetrar séu að jöklinum.
Nú er vegalengdin líkast til um 14 kílómetrar.
Sumir, sem ég kalla stundum kuldatrúarmenn, efast um að hlýnun valdi þessu eða gera sem minnst úr henni og benda á að jöklarnir hafi verið minni á Landnámsöld.
Þeir gleyma því að stórkostleg tregða býr í ísnum, eins og sést á því að Hálslón, sem er ekki langt þarna frá, er stundum ísi lagt fram í júní, þótt allt umhverfið sé orðið autt, jafnvel nokkrum vikum fyrr.
Klakinn á gangstéttum, bílastæðum og sumum götum Reykjavíkur undanfarnar vikur eftir að snjórinn er farinn í hlákunni, er gott dæmi um ótrúlega tregðu sem býr í ísnum.
Miklar landslagsbreytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hlakka til að sjá svæðið með þér :=)
Jón Logi (IP-tala skráð) 28.1.2014 kl. 21:22
Hraun frá sögulegum tíma á Reykjanesskaganum - Sjá neðst á síðunni
Þorsteinn Briem, 3.2.2014 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.