Þegar svitinn lak niður eftir veggjunum á Sumargleðinni.

Dauðaslys á harðkjarnatónleikum í Sviss minnir á all svakalegt atvik, sem varð á einni af skemmtunum Sumargleðinnar á Hvoli á níunda áratugnum.

Sú samkoma var sú ferlegasta, sem ég hef upplifað á ferlinum og er þó af nógu að taka. Enginn veit hve margir komu á þessa skemmtun, því að þrýstingur mannfjöldans á vegginn í fordyrinu, þar sem fólk keypti sér miða um lúgu, olli því að veggurinn hrundi og múgurinn streymdi inn.

Úti var rigning og á skemmtuninni og ballinu var svo mikill uppgufun af blautum fatnaði og svita frá samkomugestum að það var eins og að vera í gufubaði þar inni.

Ég gerði margar tilraunir til að taka myndir af þessari rófustöppu af manneskjum, en þótt ég stryki yfir linsuna og smellti samstundis af, var þoka á öllum myndunum og þær ónýtar.

Þarna gerðist margt, sem ég hef aldrei upplifað fyrr né síðar. Úðinn í salnum var svo mikill að svitinn af samkomugestum streymdi í taumum niður eftir veggjunum !

Einn kófdrukkinn samkomugestur klifraði upp á sviðið, stóð þar, sneri baki í salinn, veifaði bokku, og lét sig síðan falla þráðbeinan eins og símastaur afturábak niður í mannþröngina.

Hún var svo þétt að maðurinn féll aðeins niður á höfuð og herðar ballgesta og síðan barst hann láréttur ofan á og eftir höfðum og herðum samkomugesa eins og trjádrumbur, veifandi bokkunni allan tímann !

Þegar hann var búinn að gera þetta nokkrum sinnum voru gestir orðnir þreyttir á þessu og tóku sig saman þegar hann gerði eina tilraunina enn og urðu samtaka beint fyrir frama hann um að víkja sér örlítið til hliðar um leið og hann kom niður.

Í þetta skiptið féll hann alla leið niður á gólf, flaskan brotnaði og hann fékk mikið hnakkahögg. Ég fölnaði þegar ég sá þetta álengdar, því að hann var, auk afleiðinga höfuðhöggsins, í hættu á að vera troðinn undir og skera sig á glerbrotunum.

En allt blessaðist þetta, hann stóð upp um síðari en reyndi þetta ekki aftur.

Á þessu balli gerðist það inni inann við sviðsbrúnina á milli hljóðfæraleikaranna, að par var þar lárétt í hörku látum, sem hugsanlega hafa skilað því að tala Íslendinga hefur hækkað um einn 9 mánuðum siðar. Enginn tók eftir þessu, slík var kösin, ekki aðeins í salnum, heldur lá fólk afvelta á sviðsbrúninni í haugum.

Þegar litið er til atviksins í Sviss sést að þarna hefði getað farið illa.

 


mbl.is Lést þar sem enginn greip hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gríðarmikið gekk þar á,
gegnblautt var allt sviðið,
afar hissa Ómar þá,
alltof mikið riðið.

Þorsteinn Briem, 29.1.2014 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband