10.2.2014 | 18:00
Íslendingar telja afföll bílsins og fleira ekki með.
Í hvert skipti sem það kemur upp að verið er að áætla kostnað við að ferðast innanbæjar eða utan hef ég tekið eftir því hvað fólk verður hissa og jafnvel sárt þegar það er nefnt hvað það kostar mikið að eiga, reka og nota bíl.
Hjá því opinbera er reiknað var reiknað með 117 krónum á ekinn kílómetra, þegar ég vissi síðast til, ef opnber starfsmaður leggur til bíl inn til aksturs fyrir ríkisstofnun.
Það þýðir að ef hann skutlast á bíl sínum í erindum ríksins fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur telst kostnaðurinn af bílnum yfir 90.000 krónur.
Og það er rétt tala. Maður sem kaupir sér hóflega stóran bíl til að aka 15.000 kílómetra á ári, sem er nálægt meðalakstri bílaeigenda, hefur bakað sér árleg útgjöld upp á um 1,7 milljónir króna.
Og þá er ekki verið að miða við einhvern stóran bensínhák, heldur bíl sem eyðir að meðaltali um tíu lítrum á hundraðið og er innan við meðalstærð.
Sumir, sem heyra þessar tölur verða hissa og jafnvel sárir.
Þeir geta ekki horfst í augu við raunverulega eldsneytiseyðslu bílsins heldur nefna tölurnar sem framleiðandinn gefur upp.
En þær tölur miðast við akstur í mun hlýrra veðri en hér er og ekki á grófum vetrarhjólbörðum eða í snjó og ófærð. Þær tölur eru nánast alltaf hærri en "gefið er upp," stundum 30-40% lægri en í íslenskum raunveruleika.
Fólk talar um kostnað vegna eldsneytis og nefnir kannski töluna 10.000 krónur fram og til baka til Akureyrar sem þá tölu sem miða eigi við, til dæmis í samanburði við það að fljúga.
Þetta er arfavitlaust strax í upphafi, því að eyðslan er mun meiri.
En í ofanálag gleymist slit á bílnum, hjólbörðum og öðru, sem jafnmikil samtals og eldsneytiseyðslan.
Þá erum við að tala um ca 50 krónur á kílómetrann, meira en 40 þúsund krónur fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Afskrift, tryggingar, opinber gjöld, vexti og slíkt umgöngumst við Íslendingar yfirleitt sem allt annað mál, vandamál sem leyst verða eftir danska kjörorðinu "den tid, den sorg."
Það, að kaupa bíl er afgreitt sem alveg afmarkað mál, óháð öllu öðru, því hvað sagði ekki karlinn í þjóðsögunni, sem sat á hestinum og hafði þungan og stóran poka á bakinu á sér: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber."
En hinn napri sannleikur er hins vegar sá, að það kostar að meðaltali 117 krónur á ekinn kílómetra að eiga og reka bíl og það er mjög fróðlegt að líta í erlend bílatímarit og sjá hvað það kostar að eiga og reka mísmunandi bíla.
Munurinn kemur manni á óvart og magnað hvað verð bílsins, stærð og þyngd spóla kostnaðinn upp.
Bíllausir með 80% meiri greiðslugetu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar við vorum í basli við að koma okkur upp íbúð þá vorum við ekki með bíl. Við vorum álituð eitthvað mjög skrítin vegna þess, en einungis þannig gátum við staðið í afborgunum enda vorum við bæði hjónin á skítakaupi. Þetta gekk nú samt ágætlega. Almenningssamgöngur voru að vísu slæmar hér upp í Mosfellsbæ en hægt var að skipuleggja sig. Svo höfum allan tíma verið dugleg að ganga eða hjóla og börnin ólust upp við þetta og höfðu gott af því. Hjá þeim sem "endana ná ekki saman" mætti athuga að skrúfa kröfurnar aðeins tilbaka og reyna að sniða sér stakk eftir vexti.
Úrsúla Jünemann, 10.2.2014 kl. 18:18
Rekstrarkostnaður bifreiða í janúar 2013 - Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB)
Þorsteinn Briem, 10.2.2014 kl. 19:10
Eyðslutölur framleiðenda eru óraunhæfar: Þær eru fengnar með því að "aka" bílnum inni á tilraunastofu, á svona keflum líkt og skoðunarstöðvarnar nota til að prófa bremsurnar. Tölvur stýra "hraða" og álagi, gírskiptingu og öðru eftir fyrirfram gerðu forriti. Þannig fæst lægsta mögulega eyðslutala. Þetta er viðurkennd aðferð, en er farin að sæta meiri og meiri gagnrýni upp á síðkastið fyrir að vera óraunhæf.
Ætla má að munur á uppgefinni eyðslu og raunverulegri sé 10-15% við bestu aðstæður, á vetrum þegar kalt er og snjór miklum mun meiri, allt að 40-50% meiri.
Menn ættu að prófa að mæla eyðsluna og sjá hve miklu munar við hvert stig í frosti sem bætist við - alveg fyrir utan ófærðina. Það er í raun og veru ótrúlegt!
Ég átti eitt sinn jeppling, nokkuð eyðslufrekan (ég fylgdist vel með og mældi eyðsluna). Hann eyddi á góðum degi 12-13 á hundraðið innanbæjar. Í langferð um Suðurland austur á Hérað eyddi hann 10 lítrum, um veturinn í frosti og þæfingsfærð í bænum fór eyðslan upp í 18. Framleiðandinn gaf upp 8-10.
Þórhallur Birgir Jósepsson, 10.2.2014 kl. 22:20
Mér finnast þetta nú frekar uppblásnar tölur...
1) Þeir rýra bílinn um 13% ári í 5 ár. Það þýðir að bíllinn er kominn niður í 35% af nývirði 5 ára. Ekki raunhæft
2) 140þ á ári í viðgerðir og viðhald. Þarf eitthvað að gera fyrir nýjan bíl fyrstu 5 árin? Þjónustuskoðanir kosta ekki svona mikið þótt þær séu rán
3) Tryggingar 200þ? Aldrei á ævinni hef ég borgað svona háar tryggingar. Er reiknað með að maður klessi bílinn á 2ja ára fresti og borgi sjálfsábyrgðina?
Ef maður ekur ekki alltaf um á spánnýjum bíl þá er auðveldlega hægt að klippa þessa tölu í tvennt.
Ágúst (IP-tala skráð) 10.2.2014 kl. 23:26
Reiknum. Miðum við millistærð af bíl - sem sagt, fokking risastóran bíl á íslenskan mælikvarða: Chevy Malibu/Mazda 6/Citroen C5/Hyundai I40.
Slíkur bíll kostar ca 5.500.000 (gerum ráð fyrir að við séum ekki á hráustu týpu.)
Sambærilegur bíll, árgerð 2004, skv Bílasölur.is, kostar ~680-900.000, misjafnt eftir ástandi og búnaði. Segjum 750. Afföll á 10 árum eru þá 86%, eða 475.000 á ári, eða 1300 á dag.
Tryggingar eru, minnir mig, 5-6000 á mánuði, eða 200 kall á dag.
Man ekki hver bifreiðagjöldin voru, 15000 eða eitthvað slíkt. Meðfyljgandi er einnig önnur rányrkja, svo við skulum segja 20K, eða 55 kr á dag.
Það gera ~1600 kr á dag.
Nýr bíll bilar ekki. Ekki nú til dags. þeir hættu því back in the eighties.
Hve oft maður skiftir um dekk fer eftir manns eigin ökulagi, og verð á dekkjum er *frá* 40K.
Meðal bíll núorðið eyðir kannski 8 á hundraðið utanbæjar. Súzuki Swift eyðir 8 innanbæjar, 1988 Cherokee með 4 lítra vélinni eyðir svona 10-11 utanbæjar. Svo... já.
Samkvæmt vegagerðinni eru 388 km til AEY. Fram og til baka eru það 776. Segjum að þú farir á rúntinn, og þetta séu því 800 km.
8x8 gerir 64 lítra, segjum 66 vegna þess að rúnturinn er innanbæjar. Þeir kosta 243 kr x 66 = 16.000.
Gefum okkur að þetta hafi verið 2 dagar, sem þýðir 16K + 1.6K = ~18K.
Sem að sjálfsögðu er talan miðað við að þú hafir borgað bílinn út í hönd. Ef ekki, þá tvöfaldast verð bílsins, og kostnaðurinn fer í 20K.
Það er 70K lægri tala en þú gefur upp. Og dekkin kosta minna en það. Er þessi peningur fyrir spíttinu sem á að taka á leiðinni?
Ásgrímur Hartmannsson, 11.2.2014 kl. 00:33
Hér eru nokkrar leiðir sem ég hef notað til að aka ódýrt.
1. Þú giftist bifvélavirkja.
2. Þú lætur hann fynna druslu sem kostar 50þús og hann gerir við bílinn fyrir 10þús. í varahlutun.
3. Þú keyrir bílinn út eða í 3 ár.
4. Þú kaupir hús í smábæ eins og Hafnarfyrði og þá nálæt allri þjónustu.(Strandgötu í mínu tilfelli)
5. Sameinar alla lengri rúnta í útréttingar í einn á mánuði.
6. Notar hjól í styttri ferðir eins og sund..
7. Fækkar óþarfa kvöldrúntum og býður fólki til þín í Pönsur.
8. Hringi og athuga hvort hluturinn sé til í búðinni eða fólkið við sem þú ætlar að hitt.
Þannig getur maður farið Langt niðurfyrir skallan, en það gerist ekki á einum deigi heldur rólega slípar maður sig til. Og þetta með bifvélavirkja er náttúrulega likilatriði. ;o)
Matthildur Jóhannsdóttir, 11.2.2014 kl. 08:12
Ps... Lætur krakkana ganga í skólan það sparar líka hausverkjatöblur í framtíðinni. Og náttúrulega kenna þeim á strætó.
Matthildur Jóhannsdóttir, 11.2.2014 kl. 08:14
FÍB er ekki að finna upp hjólið. Sams konar rauntölur koma út í yfirliti bílatímarita yfir kostnaðiðinn við að eiga bíla. 13% á ári er lægri tala en í öðrum löndum.
Ómar Ragnarsson, 11.2.2014 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.