"Heimshöfn í Finnafirði" til heimabrúks.

Bogi Ágústsson var með eitt af sínum stórgóðu viðtölum í Sjónvarpinu í kvöld við kanadískan sérfræðing um málefni norðurslóða, Michael Byers og skemmtileg frétt á mbl.is um póststöð fyrir flöskuskeyti frá Færeyjum á Langanesi kom upp í hugann, vegna þess að "heimshöfnin" í Finnafirði hefur verið svo umrædd á Íslandi síðustu misserin.  

Byers afhjúpaði meðal annars hvernig forystumenn þjóðanna á norðurslóðum nota ákveðin mál heimabrúks á þann hátt að það stangast á við veruleikann, minntist til dæmis á Pútín sem dæmi.

Það gengi í augun á þjóðunum þegar forystumenn þeirra berðu sér á brjóst og fullvissuðu þegna sína um það hve vel þeir myndu halda á spilum varðandi það að færa til þeirra sem mest völd og auð frá norðurslóðum.

Hér heima er búið að keyra það upp í háar hæðir, að í Finnafirði við Bakkaflóa muni rísa gríðarleg "heimshöfn" umskipunar og þjónustu við siglingar um norðurslóðir, heimshöfn á borð við þær sem þekktar eru í Evrópu svo sem Bremerhaven og Rotterdam og þá væntanlega heimshöfn sem gæti keppt við þær.

Einnig hefur verið haldið á lofti stórbrotinni olíuhöfn í eina eyðifirðinum, sem eftir er á norðausturlandi, Loðmundarfirði, og fylgt með að lögð yrði þaðan bein hraðleið um jarðgöng og eftir endilöngu hálendinu til Reykjavíkur.

Ég hef áður bent á það hér á blogginu að tvennt kollvarpar þessum loftkastalahugmyndum:

Annars vegar það sem allir sjá á kortinu og Byers nefndi, að stystu leiðirnar frá austurströnd Bandaríkjanna til Kína og frá Evrópu til Kína liggja alls ekki um Ísland, heldur meðfram austurströnd Ameríku og meðfram strönd Evrópu.

Íslensk siglingafyrirtæki eru þegar búin að hasla sér völl með vaxandi umskipunarþjónustu á Nýfundnalandi og Byers benti á það að í heimi alþjóðaviðskipta, þar sem landamæri væru að miklu leyti þurrkuð út, væri eðlilegra, hagkvæmara og samkeppnishæfara að Íslendingar fjárfestu í slíku á austurströnd Ameríku frekar en hér á landi.

Hins vegar svo hitt atriði sem ég hef bent á, að alla innviði vantar á dreifbýlasta hluta Íslands til þess að samkeppnishæf "heimshöfn" rísi þar.

Þvert á móti nefndi Byers Reykjavík með tvo alþjóðaflugvelli, frábæra höfn og innviði stærsta þéttbýlis Íslands sem þó er smábær miðað við hafnarborgir Evrópu.

Í Reykjavík er um að ræða þjónustu af öllu tagi við siglingar allt frá vélsmiðjum og skipaviðgerðarstöðvum til vísindastofnana og versluna- og samskiptarfyrirtækja auk nægs velmenntaðs og vel tækjum og tækni búins mannafla.

Helst er það að þjónusta við leit að olíu og gasi gæti þurft á hafnaraðstöðu, þjónustu og viðskiptum að halda hér á landi, en þá hefur Akureyri yfirburði yfir aðra staði á norðanverðu landinu.

En tal íslenskra ráðamanna um hina miklu heimshöfn í Finnafirði er augljóslega ætlað til heimabrúks.

Slíkt getur verið efni í glæsilegar ræður, en hins vegar komið í bakið á mönnum þegar hákastaladraumarnir rætast ekki.

Nær er að huga að því sem raunhæft er til að styðja við bakið á landsbyggðinni, því ekki veitir af því.  

  


mbl.is Póststöð flöskuskeyta á Langanesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Ég er sammála að hluta til pistli þínum en af
öðrum ástæðum.

Meginástæða fyrir því að uppskipunarhöfn í Finnafirði
er heldur ólíkleg er ört í farandi kuldaskeið á Norðurslóðum.

Norðausturland verða eftir sem áður inní umræðunni vegna
þeirra sem telja þetta mögulegt og munu Kínverjar verða þar
fyrirferðarmiklir og umsvifamestir.

Hefði þurft að vera skyldulesning allra stjórnmálamanna að
lesa grein sendiherra Kínverja á Íslandi í Fréttatímanum því
þar voru skilaboð til Íslendinga fólgin þó greint væri frá löngu
liðnum atburðum og í fljóti bragði ekki séð hvaða erindi þessi grein
yfirleitt ætti í dagblöð með fullri virðingu fyrir Kínverjum og sendiherra
þeirra á Íslandi.

Taki menn svo eftir orðum sendiherrans um að Íslendingar sýni
orðið meiri samstarfsvilja en áður!

Þá er bara að hefja lesturinn því Kínverjar hafa ekki sagt sitt síðasta
í málefnum Norðausturlands!

Húsari. (IP-tala skráð) 11.2.2014 kl. 09:41

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Víða á hún Framsókn Finn,
ferleg hennar heimssýn,
í henni siglir út og inn,
afar ljótur Pútín.

Þorsteinn Briem, 11.2.2014 kl. 10:03

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, "finndu Finn", "finndu Finnafjörð!"

Ómar Ragnarsson, 11.2.2014 kl. 10:48

4 identicon

Tek undir orð þín, félagi. Þeir sem halda að Ísland verði miðdepill nýrra siglingaleiða á norðurslóðum hafa greinilega ekki lært landafræði og ekki litið á landakort. Þetta var afar fróðlegt viðtal hjá Boga.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 11.2.2014 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband