Kristján á Garðsstöðum og jeppinn hans.

Það er ekki með öllu rétt sem segir í frétt mbl. að enginn týni bílnum sínum. Nokkur dæmi veit ég um slíkt og það hefur komið fyrir mig sjálfan.

Frægasta dæmið er sennilega af þjóðsagnapersónunni Kristjáni á Garðsstöðum við Ísafjarðardjúp, sem átti blómatíma sinn um miðja síðustu öld.

Kristján átti ágætis jeppa og fór á honum á fund SÍS að Bifröst. Eftir fundinn brá svo við að Kristján fór ekki eins og aðrir af fundarstaðnum, heldur beið og beið að honum loknum. Loks fór hann þó í burtu og var sá síðasti sem það gerði.

Kom þá upp að þegar hann hafði komið út af fundinum mundi hann ekki hvaða bíl hann ætti og sá ekkert annað ráð en að bíða þar til allir bílarnir væru farnir nema hans, sem hlyti þá að vera eini bíllinn sem væri eftir. Reyndist það vera rétt.

Þekkt er saga af Jóni bróður mínum, en vinur hans bað hann um að gefa sér ráð sér við að næla í bíl, sem hann langaði til að eignast og var til sölu á Bílasölu Guðfinns en svo hátt verð væri sett á hann að hann treysti sér ekki til að borga það sem upp væri sett.

Þegar Jón heyrði lýsingu á bílnum og uppsett verð sagði hann: "Láttu mig um þetta, ég skal gera þetta fyrir þig. Þetta er allt of hátt verð og ég skal tala við vitleysinginn sem á þennan bíl og fá hann til að taka sönsum, hann getur ekki staðið á þessu fráleita verði, sannaðu til. Ég skal lofa þér því að ég skal sjá um að þú getir eignast hann fyrir það verð sem þú segist geta borgað."

Þegar vinur Jóns innti hann síðar eftir því hvort hann hefði getað gert eitthvað í málum hans, svaraði Jón því játandi: "Já, þú getur fengið bílinn á því verði sem þú nefndir og það er einfalt að ganga frá því hér og nú, því að ég komst að því þegar ég ætlaði að fara að tala við eigandann, að ég á þennan bíl sjálfur, en var bara búinn að gleyma því, því að það er orðið dálítið síðan ég setti hann á söluna hjá Guffa."

Vinur Jóns varð að vonum hissa og spurði hvort hann hefði komið Jóni í bobba með þessu, - hvort hann sætti sig við það að slá svona mikið af uppsettu verði bílsins.

En Jón svaraði að bragði: "Það skiptir ekki máli. Ég gaf þér loforð um að fá eigandann til að lækka verðið svona mikið og þú veist að ég stend alltaf við það, sem ég segi."

 


mbl.is Finnst eftir 112 ár í vöruhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sagt er um Kristján á Garðsstöðum að hann væri svo mikill framsóknarmaður að fremur æki hann bíl sínum bensínlausum fremur en að tánka hjá öðrum en honum Essó!

Guðjón Sigþór Jensson, 18.2.2014 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband