Leiðin, sem átti að fara strax.

Trausti Sveinsson bóndi á Bjarnagili í Fljótum barðist fyrir því á sínum tíma að í stað svonefndra Héðinsfjarðarganga yrðu gerð tvenn jarðgöng sem leystu samgönguvanda Siglfirðinga og Ólafsfirðinga í allar áttir í einum pakka, það er, göng milli Siglufjarðar og Fljóta og önnur göng frá Fljótum yfir í Ólafsfjörð, og hann kallaði þessa lausn Fljótaleið.

Trausti taldi þessa lausn ekki dýrari en Héðinsfjarðargöngin, en alþingismenn Norðurkjördæmis eystra einblíndu á þrönga hagsmuni innan síns kjördæmis og af einhverjum ástæðum voru forsendur fyrir Fljótagöngunum gerðar þær að gangamunnarnir yrðu að vera talsvert neðar en á öllum öðrum göngum á landinu, en þannig var hægt að fá þá niðurstöðu að göngin yrðu mun lengri en ella.

Þingmennirnir beittu öllum klækjabrögðum í bókinni til þess að þvinga sitt fram.

Eini gallinn við Fljótaleiðina var sá að leiðin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar yrði 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng ef ég man rétt, en að öðru leyti höfðu Fljótagöngin yfirburði á öllum sviðum, einkum hvað varðaði það að stytta heilsársleiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar um allt að 15 kílómetra og leiðina frá Ólafsfirði til Skagafjarðar líka um minnst 15 kílómetra og gera hana að heilsársleið.

Sem sagt, bestu fáanlegar samöngur í allar áttir og virt sú sérstaða og verðmæti Héðinsfjarðar að vera eini eyðifjörðurinn í þessum landshluta með þeim töfrum, sem því fylgir.  

Nógu umdeilt var það á sínum tíma að fara í Héðinsfjarðargöng og láta göng á Vestfjörðum og Austfjörðum sitja á hakanum í staðinn.

Nú þegar eru komin þrenn jarðgöng á leiðunum að austan og vestan til Siglufjarðar þegar Strákagöng eru talin með, og því miður er hætt við því að enn umdeildara verði nú að fara að bæta við fjórðu göngunum þangað heldur muni menn segja við Siglfirðinga: Þið vilduð fara þá leið sem farin var og þið verðið sjálfir að taka afleiðingunum af því, sem voru fyrirsjáanlegar. 


mbl.is Vill jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þAÐ VAR KLÚÐUR AÐ GERA EKKI GÖNG MILLI SIGLUFJARÐAR OG FLJÓTA Á SAMA TÍMA OG HÉÐINSFJARÐAGÖNGIN VORU GERÐ. DRÍFA Í ÞESSU SEM FYRST, HÆTTA AÐ KASTA PENINGUNUM Í STRÁKA OG VEGINN SUNNAN VIÐ SEM SÍGUR OG SÍGUR ENDALAUST.

Bryndís Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 25.3.2014 kl. 13:02

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það liggur miklu meira á að leggja veg í Gálgahrauni, sem Siglfirðingurinn Jón Steinar Ragnarsson hefur mært í bak og fyrir.

Þorsteinn Briem, 25.3.2014 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband