Að draga réttar ályktanir af vöntun á leiguíbúðum.

Enda þótt það hafi verið vinsæl stefna í 60 ár að gefa fólki kost á að eiga eigin íbúð standa menn frammi fyrir breyttum tímum í því efni.

Sérstaklega er það athyglisvert að leigjendur á aldrinum 25-34 ára eru þrefalt fleiri en 2007, og að vaxandi ójöfnuður í þjóðfélaginu birtist í því að hjá tekjulægsta hópnum eru leigjendur líka þrefalt fleiri en 2007.

Fólk stofnar yfirleitt seinna til fjölskyldu en áður var og það hefur áhrif á þessa þróun.

Upp úr miðri síðustu öld var talsvert gert til að hjálpa fólki til að eignast eigin íbúður, ekki aðeins í félagslega kerfinu og verkamannabústöðunum, heldur líka með skipulagningu sérstaks hverfis í Reykjavík sem fékk heitið Smáíbúðahverfið þar sem einkaframtakinu voru skapaðar hagstæðar aðstæður.

Það þarf að draga réttar ályktanir af þeim miklu breytingum sem hafa orðið á skömmum tíma.

Með því að einblína á byggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýri og í gömlu miðborginni verður þetta viðfangsefni ekki leyst því að stórum hluta best efnaða fólksins þykir fínt að búa á þeim slóðum og sprengir það svo upp íbúðaverðið, að það er komið upp í allt að milljón á fermetrann í Skuggahverfinu.

Lóðirnar í Vatnsmýrinni verða einhverjar þær dýrustu sem um getur, enda sums staðar 5-6 metrar niður á fast. Leiguverð þar verður augljóslega svo gríðarlega hátt að það vandi ungs fólks með litlar tekjur og vandi ungra fjölskyldna verða ekki leystur þar.

Með þessum orðum er alls ekki verið að amast við því að vel efnað fólk fái að kjósa sér búsetu á þeim svæðum sem því hugnast best og hefur efni á að veita sér.

En það leysir ekki hinn brýna vanda þeirra sem mest þarf að sinna. Verði það ekki gert flytur þetta fólk einfaldlega af landi brott. "Víglínan" vegna byggðar í landinu liggur nefnilega í Leifstöð frekar en við Elliðaár eða Hvalfjörð og Þjórsá.  

Í engum þeim tilfellum á síðustu öld, þar sem reynt var að hjálpa til við að ungt fólk og fjölskyldufólk gæti komist í húsnæði, var vaðið niður í gömlu miðborgina til þess.

Verkamannabústaðirnir á Rauðarárholti risu í jaðri borgarinnar og voru í úthverfi á þeirri tíð.

Sama átti við um Smáíbúðahverfið og Breiðholtið.

Af hverju? Af því að við búum um fjrálsu markaðsþjóðfélagi þar sem takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að ganga í sovéskri miðstýringu í þessum efnum.

Auk þess búa næstum 80 þúsund manns í nágrannabæjum Reykjavíkur, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og bjóða upp á lægra fasteignaverð og þar með lægra leiguverð en er eða verður í Reyjavík vestan Elliðaáa. Enda fjölgar fólki í þessum bæjarfélögum jafnt og þétt.

Það er sífellt nefnt sem forsenda fyrir því að leggja flugvöllinn niður og troða sem flestum þar niður, að Reykjavík sé einstætt viðundur meðal sambærilegra borga hvað snertir það hve dreifbýl hún.

Þetta er röng forsenda, því að valdar eru ósambærilegar borgir til samanburðarins, gamlar og grónar milljónaborgir í þéttbýlum löndu.

Rétt forsenda er að bara Reykjavík saman við borgir af sambærilegri stærð á Norðurlöndum.

Þá kemur í ljós að þær eru allar álíka dreifbýlar, sumar jafnvel dreifbýlli.

Eina undantekningin er Stavanger í Noregi, en það stafar af náttúrulegum orsökum, því að sjór umlykur borgarstæðið að mestu og takmarkar stærð þess.

Samtök borga á Norðurlöndum lét gera vandaða skýrslu um þetta fyrir rúmum 15 árum, þar sem þetta kemur fram. Þeirri skýrslu stungu þáverandi borgaryfirvöld níður í skúffu.

Það skyldi þó ekki hafa stafað af því að staðreyndir hennar pössuðu ekki í kramið ?

Að ofangreindu sögðu er samt að sjálfsögðu hægt að taka undir það að þétting byggðar eykur hagkvæmni í borgarsamfélaginu og að það sé sjálfsagt mál að leitast við að þétta byggð.

Þá þarf að huga að réttri forsendu, þeirri hvar þyngdarpunktur íbúðabyggðar liggur á höfuðborgarsvæðinu, en það er austast í Fossvogi. Í nágrenni við hann og stærstu krossgötur landsins eru svæði, sem ætti að skoða fyrst þegar þétting byggðar er áformuð. 

Það er gagnslaust að þétta byggð nema það sé gert á grundvelli réttra ályktana sem byggja á réttum forsendum.

Húsnæðisvandinn er brýnn og það verður að taka á honum á þann hátt, sem gefur von um að leysa hann.  


mbl.is Fjórðungur heimila á leigumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ætlunin er að byggja allt að 850 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu einu og mjög stórir vinnustaðir eru skammt frá því svæði, til að mynda Landspítalinn, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands, og líklegt að margir sem þar starfa kaupi íbúðir á Hlíðarendasvæðinu, í stað þess að búa langt frá þessum vinnustöðum.

Það sparar þeim mikil bensínkaup, löng ferðalög á milli heimilis og vinnustaðar, miklar og margar umferðartafir og jafnvel kaup á bíl, þar sem einn bíll getur nægt á heimili í stað tveggja.

Þar af leiðandi getur verið hagstæðara að búa nálægt vinnustað, enda þótt íbúðir séu dýrari þar en langt frá vinnustaðnum.

Og rekstrarkostnaður venjulegs fólksbíls hér á Íslandi er ekki undir einni milljón króna á ári, samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Rekstrarkostnaður bifreiða í janúar 2013 - Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB)

Þorsteinn Briem, 28.4.2014 kl. 17:53

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Heilu hverfin í Reykjavík hafa verið byggð í mýri og sem betur fer er flugvélum ekki lent í mýri á Vatnsmýrarsvæðinu.

Um átján þúsund nemendur eru í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og ef þeir færu allir á einkabíl í skólann, einn í hverjum bíl, þyrfti um 324 þúsund fermetra af bílastæðum nálægt skólunum undir þá bíla eina.

Það eru áttatíu knattspyrnuvellir.


Bílastæði á Vatnsmýrarsvæðinu verða
mörg neðanjarðar, enda taka bílastæði mikið og dýrt pláss ofanjarðar og ekki myndu margir vilja búa í gluggalausum kjallara, þannig að sjálfsagt er að nota þá sem bílastæði.

Rúmlega þriðjungur Reykvíkinga býr vestan Kringlumýrarbrautar og þar starfa flestir Reykvíkingar.

Í 101 Reykjavík eru um 630 fyrirtæki og póstnúmeri 105 (Hlíðum og Túnum) um 640.

Í þessum tveimur póstnúmerum eru því um 1.300 fyrirtæki, jafn mörg og í samanlagt öllum Hafnarfirði og Reykjanesbæ.

Landspítalinn, stærsti vinnustaður landsins, er skammt frá gatnamótum Snorrabrautar, Hringbrautar, Bústaðavegar og Miklubrautar við Hlíðarendasvæðið og þau eru ein stærstu gatnamót landsins.

Í fyrra voru opnaðir stúdentagarðar, Sæmundargarðar, við Háskóla Íslands fyrir um 300 stúdenta og reistir verða stúdentagarðar á milli Nauthólsvegar og Öskjuhlíðar í nágrenni Háskólans í Reykjavík.

Og ætlunin er að byggja allt að 850 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu einu, þar af um 200 svokallaðar stúdentaeiningar og 50% íbúðanna verða tveggja herbergja en um 20% þriggja herbergja.

Þorsteinn Briem, 28.4.2014 kl. 18:22

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

12.2.2013:

"Gatnakerfið í Reykjavík austan Elliðaáa þekur 51% af landinu.

Byggð svæði þekja einungis 35% og opin svæði 14%."

Ofvaxið gatnakerfi - Þétting byggðar


Í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar er byggðin mun þéttari en austan Elliðaáa en þar eru samt stór opin svæði, Klambratún (Miklatún), Öskjuhlíð, Nauthólsvík, Ægisíða og Hljómskálagarðurinn.

Þar eru einnig einkagarðar við langflest íbúðarhús og í mörgum tilfellum bæði framgarðar og bakgarðar. Og bílastæði fyrir framan húsin.

Bílakjallarar verða hins vegar undir stórum húsum og þannig er gríðarstór bílakjallari undir Hörpu.

Alls áttu 40.295 lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar 1. janúar 2013, rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, þar af 15.708 í 101 Reykjavík, 16.067 í 105 Reykjavík og 8.520 í 107 Reykjavík.

Og þá áttu þar lögheimili 7.915 börn (sautján ára og yngri eru skilgreindir sem börn), þar af 2.659 í 101 Reykjavík, 3.203 í 105 Reykjavík og 2.053 í 107 Reykjavík, samkvæmt Hagstofu Íslands.

Þar að auki starfa flestir Reykvíkingar vestan Kringlumýrarbrautar.

Þorsteinn Briem, 28.4.2014 kl. 18:39

5 Smámynd: Hörður Halldórsson

Það væri vel  hægt að byggja norðan við Stekkjarbakkann þar sem kanínurnar hafa hreiðrað um sig , við hlið Elliðaársdalsins. Það átti að byggja þar slökkvistöð. Það eru fleiri lóðir til innan borgarmarkanna en líklega bregðast nágrannarnir ókvæða við. "not in my backyard"er víst algeng hugsun  Margir ef ekki flestir eru sammála um að þétta byggð .

Hörður Halldórsson, 28.4.2014 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband