Hefur gerst áður í Evrópu.

Það er nokkuð langt síðan að í Evrópu hefur komið upp fylgi, sem efli flokka á jaðri hins ríkjandi pólitíska litrófs í krafti óánægju með ríkjandi ástand.

Nefna má nokkur dæmi um slíkar bylgjur svo sem fyrir rúmri öld þegar hreyfingar anarkista og sósíalista ruddu sér til rúms og stórir sósíaliskir flokkar urðu til.

Þessir flokkar komu að vísu umróti af stað með róttækni sinni, en kveikjan að fylgi þeirra var þó réttmæt gagnrýni á ríkjandi ástand.  

Eftir Fyrri heimsstyrjöldina áttu flokkar sem aðhylltust borgaralegt lýðræði í vök að verjast og fóru sósíaldemókratar ekki varhluta af því.

Þeir voru sakaðir um það sem aflaga fór í þjóðfélögunum og þá veikleika, sem til dæmis hrjáði Weimar-lýðveldið í Þýskalandi, auk þess sem stórir gallar og ýmis óréttlát ákvæði Versalasamninganna voru vatn á myllu róttækra hægri flokka svo sem fasista á Ítalíu og Spáni og nasista í Þýskalandi.

Það væri einföldun að segja að það, hvernig hörð þjóðernishyggja og fasismi breiddust út um Evrópu, hafi eingöngu verið af hinu illa, því að þessar hreyfingar hefðu ekki náð þessari útbreiðslu ef þær hefðu ekki getað nærst á réttmætri óánægju með ýmsa hluti, sem lýðræðislegu flokkunum tókst ekki að færa til betri vegar.

Á fyrsta áratugnum eftir Seinni heimsstyrjöldina óx mjög fylgi kommúnista í Evrópu, ekki aðeins með valdbeitingu Sovétríkjanna í Austur-Evrópulöndunum, heldur urðu kommúnistar mjög öflugir í nokkrum löndum Vestur-Evrópu, svo sem í Grikklandi og Frakklandi, og á Ítalíu.

Ekki má gleyma því að hér á Íslandi varði Sameiningarflokki íslenskrar alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, Stalín og kommúnismann í Austur-Evrópu í rúm tuttugu ár.

Mikið fylgi kommúnista á þessum árum þreifst aðallega vegna óánægju með bágborið ríkjandi ástand eftir eyðileggingu styrjaldarinnar.  

Kommúnistar á Grikklandi voru barðir niður í borgarastyrjöld í striðslok með inngripi Breta, enda hafði Grikkland fallið þeim í hlut í samningi Stalíns og Churchills í Yalta.

Með Marshall-aðstoðinni tókst Bandaríkjamönnum að slá á óánægjuna í Vestur-Evrópu og lýðræði hélt velli nema á Spáni og í Portúgal fram eftir öldinni og komst á um tíma í Grikklandi.

Helsti munurinn á óánægjufylginu nú og á fyrstu árunum eftir stríð er sá að nú eru það þjóðernissinnaðir flokkar yst til hægri sem helst nærast á óánægju með ríkjandi ástand, en eftir stríð voru það flokkar lengst til vinstri.

Ástæðan er líklega sú, að nú er það langt síðan flokkar með þjóðernishyggju og alræði sem stefnu biðu skipbrot í heimsstyrjöld, að fælingarmáttur styrjaldarinnar gagnvart slíkum flokkum hefur fjarlægst, enda er ekki hægt að segja að þessir flokkar haldi fasisma eða einræði stíft fram, heldur frekar harðri þjóðernisstefnu með andófi gegn fjölmenningarstefnu og innflutningi útlendinga.

Hátimbrað kerfi ESB og stefna þess er ákjósanlegt skotmark þeirra sem vilja breytingar og leita að blóraböggli.

Rétt eins og á árunum fyrir Seinni heimsstyrjöldina er mikið og viðvarandi atvinnuleysi skaðvaldur, sem skapar gróðrastíu fyrir róttæka flokka til hægri.

Nasistar sökuðu sósíaldemókrata um að hafa valdið ósigrinum í Fyrri heimsstyrjöldinni, af því að það kom í þeirra hlut að standa að vopnahléi og óréttlátum friðarsamningum.  

Það vill gleymast að skefjalaus gróðahyggja fjármálaaflanna, sem naut velvilja þeirra hægri manna, sem minnst taumhald vildu hafa á slíku, olli efnahagshruninu 2008 sem ekki sér enn fyrir endann á.

Það leiddi af sér ófarnað í Grikklandi og fleiri löndum í sunnanverðri Evrópu auk Írlands og Íslands sem höfðu tekið ástfóstri við hinn mikla átrúnað á ótakmarkaða möguleika fjármálakerfisins til að þenja sig út.

En nú reynist auðvelt að saka stefnu og tilvist ESB um vandamál nútímans, enda er óhjákvæmilegt fyrir sambandið að líta í eigin barm, enda valdhlutföllin á þingi þess orðin þess eðlis að ekki verður hjá því komist.

Fjórðungs fylgi róttækra þjóðernissinnaðra flokka í nokkrum löndum er merki um að umbóta sé þörf í stjórnmálum álfunnar.  

    


mbl.is Margir vilja að Clegg segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður hefur séð marga halda því fram að daður framsóknarfyrirbrigðisins við fasisma og rasisma sé nýtilkomin. Svo er þó ekki. Stofnandi flokksins - ef kalla má þetta fyrirbrigði stjórnmálaflokk - Jónas frá Hriflu,  hefur verið ansi nærri þjóðernissósíalisma í sínum boðskap og skoðunum, ef dæma má af lestri þeirra fjölmörgu, pólitísku greina sem hann skrifaði, ekki síst í Skinfaxa. Svo má ekki gleyma beinu daðri Hermanns Jónassonar fyrir stjórnvöld Hitlerstímans í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar. Merkilegt er einnig eins og einhver benti á fyrr í dag hvernig einn hans helsti dáðadrengur tengdist inn í þá veröld í námi og persónulegum samskiptum. Ekki að undra að upplýsingaþjónustur bandamanna hafi litið þetta hornauga. Eysteinn Jónsson var hinsvegar miklu meiri lýðræðissinni og hefur sjálfsagt í raun verið sósíaldemokrat í raun. Dr. Ólafur Jóhannesson var pragmatiskur stjórnmálamaður og líklega ekki mikill hugsjónamaður, heldur fyrst og síðast lagasérfræðingur. Svo hófst pópulisminn með Steingrími og við skulum bara láta hér staðar numið.

E (IP-tala skráð) 26.5.2014 kl. 20:29

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Jónas frá Hriflu var samvinnumaður sem var menntaður í Bretlandi og stuðlaði að uppbyggingu samvinnustefnunnar sem á rætur sínar þar.Hann var alla tíð andstæðingur Nazismans og vildi hafa sem mest samstarf við Breta.Hann varaði líka við kommúnismanum.Hermann Jónasson sem var forsætisráðherra á þriðja áratugnum fyrir Framasóknarflokkinn var sama sinnis.Lygarnar um að Framsóknarflokkurinn og Hermann Jónasson hafi verið hallur undir Hitlers Þýskaland á sér engan rökstuðning.Þvert á móti var það Framsóknarflokkurinn og Hermann Jónasson sem stóðu í lappirnar, öfugt við marga forystumenn Evrópu, þegar Hitlers Þýskaland óskaði eftir aðstöðu hér fyrir flugvélar.Nú reyna ESB sinnar á íslandi að koma þeirri lygasögu á kreik að þeir sem vilja ekki inngöngu Íslands í ESB séu Nazistar og að breski sjálfstæðisflokkurinn og danski Þjóðarflokkurinn séu nokkurskonar nazistaflokkar.365 miðlar og rúvvið hafa verið dugleg að útbreiða þessar lygar.Þetta bull stenst enga skoðun.Það var yfirlýst stefna Hitlers að sameina Evrópu í eitt ríki.Sem honum tókst næstum því.

Sigurgeir Jónsson, 26.5.2014 kl. 23:04

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Á að vera:Hermann Jónasson sem var forsætisráðherra á fjórða áratugnum.

Sigurgeir Jónsson, 27.5.2014 kl. 04:06

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Bretar vita vel af sameiningarbrölti Hitlers-Þýskalands og Nazista. Afstaða þeirra nú til ESB mótast ekki síst af því.Þeir eru sumir hverjir hræddir um að sagan sé að endurtaka sig.Það sama er á Norðurlöndunum.Ukrainumenn sem studdu Nazizta í seinni heimsstyrjöldinni eru hinsvegar hörðustu stuðningsmenn þess að Ukraina gangi í ESB.

Sigurgeir Jónsson, 27.5.2014 kl. 04:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband