Samtíðin á erfitt með að meta virði hlutanna.

Samtíðin hverju sinni á erfitt með að meta virði hluta og fyrirbæra. Oft líða ár og áratugir, jafnvel aldir þar til hið raunverulega gildi kemur í ljós. Í hraða amsturs hversdagsins fer margt forgörðum, sem síðar kemur í ljós að betra hefði verið að varðveita, því að allir nýir hlutir, sem varðveittir eru, verða að fornminjum um síðir.

Ég hef margoft hér á blogginu minnt á þetta og til dæmis harmað hvernig farið hefur verið með margar stríðsminjar og flugminjar vegna skammsýni og þröngsýni.

Þegar ferðast er um önnur lönd, til dæmis Bretland og Noreg, sést glöggt hve þessar þjóðir eru langt á undan okkur í þessu efni.

Safnamál eiga erfitt uppdráttar á landi okkar, þar sem skammtímagróðinn  og hugarfarið "take the money and run" eru svo stór hluti af hugsunarhættinum. Á fyrstu áratugum Sjónvarpsins töldu menn sig tilneydda til að farga mestum hluta upptekins efni vegna þess hve myndspólurnar voru dýrar.

Bæði hjá RUV og Stöð 2 hafa hafa mikil menningarverðmæti farið forgörðum vegna þessa.

Þegar ég flutti nú á dögunum um set í Útvarpshúsinu úr vinnuherbergi mínu í kjallara hússins var herbergið fullt af myndspólum af merkum fyrirbærum, sem ekki hafði unnist tími eða aðstaða til að fara í gegnum og flokka og koma á skipulegt safn.

Þeir sem komu inn í þetta herbergi undruðust allt þetta mikla myndefni, sem var lítt flokkað og átti alveg eftir að fara í gegnum og skrásetja efni þess til hlítar.  

Meðal annars ákvað ég 1995 að geyma allt myndefni, sem tekið var af snjóflóðinu á Flateyri, alls 55 spólur. Skemmtileg tala, sama og hjá SDG.

Þessar spólur af aðeins einum atburði tóku þá ansi mikið pláss, en mér fannst 1995 engin leið til að vinsa úr þessu efni einhvern hluta þess svo vel væri og henda megninu.

Hver veit til dæmis nema eitthvert af börnunum, sem sjást á myndunum, eigi eftir að verða forseti Íslands síðar meir, eins og litli drengurinn Ólafur Ragnar Grímsson var á ljósmynd, þar sem hann stóð framan við forsetabíl fyrir vestan í heimsókn þáverandi forseta.

Nú hefur bylting í stafrænni tækni gert mögulegt að þjappa þessum myndsplóluhlaða niður í örlítið brot að fyrirferð.

Í vor fór ég við annan mann í það verk í tvær vikur að skoða möguleika á þáttagerð upp úr þessu efni auk þess að útbúa og koma á safn myndum frá öllu landinu og frá ferðum mínum um önnur lönd.

Við fljótlega yfirferð sýndist vera efni í gerð allt að 30 sjónvarpsþátta.

Fyrir um 30 árum gekkst ágætur maður í því að safna 8 mm kvikmyndaspólum. Í ljós kom að á þeim var varðveitt myndefni, sem annars hefði farið forgörðum af því að á þeim tíma eins og ævinlega gerðu menn sér ekki grein fyrir því hve mikils virði heimildir um líf hversdagsins gætu verið.

Myndin sem ég sá, sýndi fjölskyldu heima hjá ér á Akureyri, sem síðan fór í lautarferð á fjölskyldubílnum. Á þeim tíma sem myndin var tekin, í kringum 1960, urðu svo örar þjóðfélagsbreytingar yst sem innst, að þessar myndir eru algert gull.     


mbl.is Sigmundur: Kassarnir voru 55
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Forsætisráðherrann átti að hafa vit á að flytja þetta efni í Þjóðskjalasafnið á Laugavegi 162 úr Sjónvarpshúsinu á Laugavegi 176, í stað þess flytja það alla leið upp í Efstaleiti og fela þar músétið.

Þjóðskjalasafn Íslands

Þorsteinn Briem, 12.6.2014 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband